Skimun fyrir sjúkdómum

Á síðastliðnum áratugum hefur  orðið bylting í nálgun okkar gagnvart sjúkdómum og heilbrigði einstaklingsins. Við höfum áttað okkur á orsökum og afleiðingum háttalags og neysluvenja. Í dag getum við með nokkurri vissu gefið leiðbeiningar um það hvar skuli leggja áherslur þegar kemur af því að varðveita góða heilsu, en hún er okkur öllum það mikilvægasta sem við eigum.

Fagfólk er yfirleitt sammála að leggja þurfi mikla áherslu á forvarnir og lýðheilsu, en þó ekki síður á trausta heilbrigðisþjónustu þegar eitthvað bjátar á. Þetta fer yfirleitt ágætlega saman,  með undantekningum þó.  Heilbrigðisyfirvöld hafa lengi viljað leggja áherslu á forvarnir og að styrkja einstaklinginn til ábyrgðar á eigin heilsu og er það vel.

Ef við notum myndlíkingar þá mætti ímynda sér á sem rennur niður í móti og endar í fossi,  því neðar sem við stöndum í ánni og „veiðum“ , því veikari og erfiðari er viðkomandi einstaklingur viðfangs fyrir kerfið og sjálfan sig,  eða þar til honum er ekki við bjargandi og hann fellur fram af brúninni.

En hvað er það sem við þurfum að huga að?

Við könnumst flest við orðið skimun (screening á ensku) sem þýðir að leita skipulega að sjúkdómi hjá einstaklingi sem er einkennalaus. Markmiðið er að greina sjúkdóma á frumstigi og eiga þá betri möguleika hvað varðar meðhöndlun. Til þess að hægt sé að beita þessari aðferð verða að vera til nægjanlega næmar og sértækar rannsóknir sem geta greint viðkomandi sjúkdóm  snemma og þannig auðveldað meðferð og aukið lífsgæði einstaklingsins.

Þegar tekin er ákvörðun um að beita þessari aðferð í lýðheilsufræðilegum tilgangi eru það nær undantekningarlaust heilbrigðisyfirvöld sem ákveða í samráði við fagfólk hvernig staðið skuli að skimun og er skilgreint hvaða hópum skuli boðið slíkt. Yfirleitt er þá slík þjónusta niðurgreidd af heilbrigðisyfirvöldum enda talin þjóðhagslega eða lýðheilsufræðilega  hagkvæm. Dæmi um slíka skimun hérlendis er fyrir legháls- og brjóstakrabbameini kvenna.

Þegar um er að ræða einstaklinga og manneskjur verða útreikningar aðeins flóknari vegna fjölda þeirra breyta sem þarf að taka tillit til og hafa því Heilsuhagfræðingar verið kallaðir til slíkra verkefna og leggja mat á hagkvæmni þeirra. Eitt af þeim verkefnum sem ekki hefur náðst að koma almennilega á fót hér þrátt fyrir augljósa kosti, er skimun fyrir ristilkrabbameini, en það er þriðja algengasta krabbamein beggja kynja hérlendis á eftir lungnakrabbameini sem reyndar er ekki enn hægt að skima fyrir.

Hvers vegna skimum við ekki fyrir ristilkrabbameini eins og mörg lönd í kringum okkur?

Það er vegna kostnaðar sem er augljóslega umtalsverður ef ríkið á að niðurgreiða slíkt og við núverandi aðstæður kannski ekki hægt að ætlast til slíks, eða hvað?

En hvert er tapið af því að gera þetta ekki, væntanlega talsvert þar sem kostnaðarábatagreining liggur fyrir og við erum ekki að tjalda til einnar nætur, hagsmunirnir eru tilvonandi sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Ef ríkið getur ekki niðurgreitt slíka skoðun á ekki einstaklingurinn samt rétt á því að fá mat á sinni áhættu?

 Hvað ef hann vill greiða fyrir það sjálfur og taka ábyrgð á eigin heilsu?  Það verður á endanum val hvers og eins miðað við núverandi fyrirkomulag.