Skilnaður

Samspil foreldra og barna

Því miður er það staðreynd að þriðja hvert hjónaband endar með skilnaði hér á landi. Góðu fréttirnar í þessu samhengi eru e.t.v. þær að skilnuðum hefur ekki fjölgað frá árinu 1996. Þó að hver skilnaður hafi sínar orsakir þá einkennist aðdragandi skilnaðar oftast af langvarandi erfðleikum sem koma niður á öllum í fjölskyldunni. Það er alltaf sárt þegar hjónaband eða sambúð sem stofnað var til af ást og með miklum væntingum, endar í deilum og sambúðarslitum. Sambúðarslitin eru reyndar jafn margvísleg eins og pörin sem í þeim lenda. Stundum skilur fólk í mikilli reiði og heift. Öðrum tekst að ganga frá sínum málum á þann hátt að leiðin fram á við er báðum auðveldari. En hverjar svo sem ástæður skilnaðarins eru eða hvernig sem að skilnaðinum er staðið, þá er skilnaðurinn ákveðið skipsbrot og það getur tekið langan tíma á ná sér á strik á nýjan leik fyrir alla sem skilnaðurinn snertir.

Staða hjónabandsins og fjölskyldunnar hefur tekið miklu breytingum hér á landi undanfarin 100 ár eða svo og þarf varla að fjölyrða um það. Áður voru það oft hagkvæmnisástæður sem réðu hjúskap og því að fólk skildi ekki ef illa gekk. Heimilið var rekið eins og fyrirtæki og fyrirtækið hafði forgang fram yfir deilur og erfiðleika sambúðarinnar. Allir lögðu hönd á plóginn innan heimilisins, stórfjölskyldan bjó saman, börnin rökuðu og afarnir og ömmurnar prjónuðu sokka á ungviðið. Ef eitthvað bjátaði á, veikindi eða erfiðleikar, þá stóð stórfjölskyldan saman og reyndi að leysa málið. Þetta hefur verið kallað hin íslenska leið. Fjölskyldan sér um sína en ábyrgð þjóðfélagsins er minni.

Í dag er þetta allt breytt. Stórfjölskyldan er í raun hætt að verka eins og sú eining sem hún eitt sinn var. Kjarnafjölskyldan er orðinn „kjarni” samfélagsins. Kjarnafjölskyldan sjálf er meira að segja á undanhaldi. Nýjar fjölskyldugerðir eru í sókn. Fyrir utan hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu höfum við einstæða eða „sjálfstæða” foreldra með barn eða börn, samsettar fjölskyldur þar sem foreldrar koma með börn úr annarri sambúð og annarri fjölskyldu inn í nýja fjölskyldu, fjölskyldu þar sem foreldrar fara með sameiginlega forsjá barna eftir skilnað, fjölskyldu samkynhneigðra í sambúð og hjónabandi og þannig mætti lengi telja. Stórfjölskyldan er varla svipur hjá sjón og hin íslenska leið sem fyrr var minnst á virkar ekki þegar vanda ber að höndum. Í dag er kjarnafjölskyldan minni en helmingur þeirra fjölmörgu fjölskyldugerða sem eru til og væri hægt að tala langt mál um þessa þróun hér. Nú er það í raun ástin ein eða tilfinningarnar sem halda hjónabandinu og sambúðinni saman, og ef ástin og samband hjónanna bregst, rennur hjónabandið út í sandinn. En margir gera sér ekki grein fyrir því að það þarf að rækta ástina eins og annað í lífinu. Ást sem engin rækt er lögð við, kólnar og deyr. Og samband sem fær ekki frið til að þroskast og vaxa hlýtur sömu örlög. Þetta á einnig við um samband okkar við börnin okkar.

Í starfi mínu sem prestur tala ég mikið við hjón um vanda sem upp getur komið í sambandinu og eins við pör sem eru á leiðinni upp að altarinu. Það eru ótrúlega margir sem eiga í erfiðleikum í sinni fjölskyldu, hvort sem þeir erfiðleikar eru á milli hjóna og sambúðarfólks eða á milli foreldra og barna. því verður ekki á móti mælt að það er margt sem gerir fjölskyldum landsins erfitt uppdráttar þrátt fyrir vaxandi velmegun í landinu okkar og þar með margt sem hjálpar til að gera okkur erfitt að baka kökuna góðu sem ég minntist á hérna áðan. Og þar erum við komin að ábyrgð þjóðfélagsins á þeim ramma sem fjölskyldunum er búinn, þeim aðstæðum sem barna og fjölskyldufólk þarf að takast á við.

Mikið vinnuálag einkennir flestar fjölskyldur til sjávar og sveita og verður það sérstaklega áberandi þegar lengd vinnudags hér á landi er borinn saman við vinnudaga annarra Evrópuþjóða. Það er ýmislegt sem veldur því að vinnudagurinn er svona langur en kannski fyrst og fremst sú staðreynd að laun eru mun lægri hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Og það er rótin að mörgum vanda. Neysluvörur heimilisins eru líka dýrari hér á landi en í Evrópu, þannig að lengri vinnutíma þarf til að endar nái saman hjá fjölskyldunum. Allar verðkannanir sýna að matarverð er einna dýrast í Evrópu hér á landi. Lengri vinnutími kallar á yfirvinnu og aukavinnu sem aftur þýðir lengri fjarvistir frá heimilinu. Þetta er sérstaklega eftirtektarvert hjá ungu fólki sem er að koma undir sig fótunum, eignast húsnæði, börn, bíl og mennta sig í leiðinni. Hér á landi er enginn teljandi leigumarkaður og sjálfseignarstefnan er allsráðandi í húsnæðismálunum. Hér er ekki hægt að leigja sér húsnæði til 99 ára eins og víða tíðkast á Vesturlöndum. Lánin sem tekin eru til að fjármagna húsnæði, bílakaup og aðra neyslu eru verðtryggð og því margfalt dýrari en gengur og gerist á meginlandinu. Skuldir heimilanna vaxa og tekjur bankanna aukast.

Af því að unga fólkið þarf að vinna baki brotnu fyrir fjölskyldunni, til að standa undir afborgunum og daglegum rekstri, eru þau fljót að fara yfir þau tekjumörk sem veita rétt til barnabóta. Barnabæturnar eru þá skertar ef börnin eru sjö ára og eldri og enn meiri vinnu er þörf. Ég hef ekki skilið hvers vegna við, ein fárra þjóða í Evrópu tekjutengjum barnabætur og það eru engin rök fyrir því að halda áfram að tekjutengja barnabætur sjö ára og eldri eins og ráð er fyrir gert. Ég hef alla vega ekki heyrt þau rök. Þvert á móti. Útgjöld fjölskyldunnar aukast til muna eftir að barn kemst á skólaaldur. Á Norðurlöndunum var mikil umræða fyrir nokkrum árum um hvort tekjutengja ætti barnabæturnar en þar, eins og annarsstaðar í Evrópu, komust menn að þeirri niðurstöðu að barnabætur væru eign barnanna og því ættu tekjur foreldra ekki að skerða þær. Hér erum við enn að tala um ábyrgð þjóðfélagsins gagnvart börnum og barnafjölskyldum. Framhjá þeirri staðreynd verður ekki litið.

Þegar börnin stækka aukast kröfurnar á fjölskylduna og foreldrana. Það þarf að skutla börnunum fram og aftur í margskonar félagsstarf, og auðvitað þarf líka að borga fyrir afþreyinguna, hvort sem það eru íþróttir, tónlistarskólar eða annað. Áttum okkur á því að ekki er aðeins um afþreyingu að ræða. Margt af því sem er vænlegt til að efla þroska barnanna felst í félagsstarfi sem greitt er fyrir sérstaklega af foreldrum. Ekki hafa allir foreldrar efni á því t.d. að styðja börnin sín til tónlistarnáms, íþróttaiðkunar, dansnáms eða öðru slíku. Stéttaskipting er að verða til milli barna sem fá að sækja alla þessa hluti og hinna þar sem foreldrar geta ekki staðið undir greiðslum fyrir slíkt. Um er að ræða tug þúsundir króna á ársgrundvelli eins og flestir vita. Ekki minnkar það stressið á heimilinu að vinnan gerir til okkar miklar kröfur og oft lenda foreldrar í samviskuklemmu þegar þeim finnst þau hvorki geta sinnt vinnunni nægilega vel né börnunum, hvað þá maka sínum, ef um maka er að ræða. Tala nú ekki um þegar blessuð börnin veikjast. Við foreldrar höfum rétt á 7 veikindadögum á launum á ári hverju vegna veikinda barna okkar, hvort sem þau eru eitt eða fleiri. Vissulega má nú vera lengur heima í veikindum barna en áður og þá án launa, en hver hefur efni á því? Á norðurlöndunum, svo aftur sé vitnað í nágranna okkar, hafa foreldrar rétt á 90-160 daga veikindaorlofi vegna veikinda barna á ári hverju. Ein góð flensa þurkar fljótlega upp allan réttinn hér á landi. Og hvað gera foreldrar svo næst þegar barnið veikist eða þegar hin börnin veikjast. Hér er líklegast ætlast til að íslenska leiðin sé farin, sú er fyrr var nefnd, þ.e. að stórfjölskyldan bjargi málinu, að amma sé heima með börnin. En um slíkt er sjaldan að ræða, þó ömmurnar geri eflaust sitt besta. Vel stæðar fjölskyldur bjarga málunum með því að fá sér stúlku á heimilið, t.d au pair. Flestir eru ekki í slíkri stöðu. Og enn verðum við að spyrja um þjóðfélagslega ábyrgð.

En við skulum líta aðeins á íslensku meðalfjölskylduna, þessa sem hvorki er fráskilin né í neinu fjárhagslegu basli. Hún gerir allt sem hún getur til að standa sig við þær aðstæður sem henni eru búnar. En það er einmitt oft sú fjölskylda og þau hjón sem standa sig best, skila sínu hlutverki best bæði í vinnu og heima sem einn góðan veðurdag skilja öllum að óvörum. Og hvers vegna? Jú vegna þess að pabbi og mamma voru svo upptekin af því að standa sig og kröfurnar á þau voru svo miklar að þau gleymdu að standa sig hvort fyrir annað. Það var ekki endilega áfengisneyslan eða fjármálin sem fóru með sambandið þegar svona stendur á. Hjónin þekktust einfaldlega ekki lengur. Samskiptin innan fjölskyldu sem þannig er ástatt fyrir verða gjarnan yfirborðskennd. Aðalmarkmiðið verður að koma á framfæri upplýsingum. Vinnudagurinn er langur og það verður lítill tími aflögu til þess að ræða um hvernig manni líður, hvert sambandið sé að stefna eða annað sem tengist fjölskyldunni. Þetta ástand leiðir líka gjarnan til erfiðleika í kynlífi hjóna. Öll spenna hverfur úr sambandinu, kynlífið verður eins og einhver kvöð eða rútína, enn ein skyldan sem bætist við í amstri hversdagsins. Neikvæð spenna í kynlífinu eykur svo aftur spennuna milli hjónanna sem var víst ærin fyrir.

Þó að ég hafi hér velt upp spurningum um ábyrgð samfélagsins á stöðu fjölskyldunnar, þá getur sambýlisfólk ekki skotið sér undan eigin ábyrgð.

Hver er nú þrátt fyrir allt að einhverju leyti sinnar gæfu smiður. Og samfélagið endurspeglar það gildismat sem ríkir á meðal borgaranna. Við nútímafólkið viljum frelsi og leggjum ekki mikla áherslu á ábyrgðina. Þannig er val foreldra oft ástæðan fyrir samskiptaleysi sem ríkir innan fjölskyldunnar. Lítum nánar á það.

Við íslendingar elskum að eignast börn! Það er hægt að sanna þessa barnaást okkar tölfræðilega. Fáar þjóðir í Evrópu eignast fleiri börn en við miðað við hina frægu höfðatölu. Mörgum þjóðum fækkar reyndar og hefur farið fækkandi undanfarna áratugi. En okkur fjölgar. Það er frábært að vera svona ung og spræk þjóð. Börnin eru gleðigjafi í lífinu og öll viljum við börnunum okkar hið besta.

En það er ákveðin mótsögn í gangi í þjóðfélaginu varðandi börnin og fjölskyldurnar. Annarsvegar elskum við sem sagt börnin og viljum helst eignast sem flest börn. Á hinn bóginn er barnafjölskyldum gert mun erfiðara fyrir hér á landi heldur en í löndunum í kringum okkur þar sem mun færri börn fæðast. Þar er aftur komið að þessu með ábyrgðina. Hvaða ábyrgð berum við gagnvart þessum börnum okkar sem okkur þykir svo vænt um? Og hvernig sýnum við þessa ábyrgð? Þegar litið er á heildarútgjöld landa í Evrópu, þá kemur það undarlega í ljós, að barnaþjóðin íslenska fjárfestir einna minnst allra þessara þjóða af opinberum gjöldum í barna og fjölskyldumál. Á það við bæði hvað varðar skóla og félagsmál sem og bein útgjöld til fjölskyldumála. Afleiðingarnar sjást víða, meðal annars í því hversu fáir hér á landi ljúka framhaldsnámi miðað við í öðrum Evrópulöndum. En þessi forgangsröðun í fjármálum ríkisins hefur ekki síður áhrif á vettvang fjölskyldunnar. Því það er nefnilega ekki nóg að fæða börnin í heiminn. Hér þurfa fjölskyldurnar að standa á eigin fótum í mun meira mæli en gengur og gerist hjá nágrannaþjóðunum, bera ábyrgð á sér sjálfar. Og það er auðvitað gott svo langt sem það nær. Þangað til fer að gefa á bátinn. Til þess að stand straum af barnauppeldi og öllu því sem það nú kostar að koma blessuðum börnunum til manns, þá þurfa hinir fullorðnu að vinna langan vinnudag fjarri fjölskyldunni eins og fyrr hefur komið fram. Oft bætist við þennan langa vinnudag félagsmálastúss margskonar, líkamsrækt og skemmtanir um helgar þegar hin langþreytta, barnmarga þjóð fær útrás eftir stranga vinnuviku. Þannig kemur sú undarlega staða í ljós þegar vel er skoðað að þjóðin sem elskar börn, þjóðin sem eignast fleiri börn en flestar aðrar í Evrópu miðað við höfðatölu, þessi þjóð hefur lítinn tíma til þess að sinna elskuðu börnum sínum. Hún hefur nefnilega svo mikið annað að gera. Svo eru allir hissa þegar erfitt getur reynst að ná sambandi við unglingana. Hvað ætli unglingarnir hafi svo sem áhuga á því að tala við einhverja foreldra sem aldrei hafa mátt vera að því að sinna þeim áður? En þegar við missum unglingana úr höndunum á okkur, þá er of seint að ætla sér að bæta fyrir öll töpuðu árin. Og þá verður okkur ljóst að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Skilnaður foreldra kemur oftar en ekki verst niður á börnunum. Deilur og ósætti sem gjarnan eru undanfari skilnaðar bitna ekki síður á börnunum en sjálfur skilnaðurinn. Og þó sífellt sé verið að vara fólk við því að gera börnin að fórnarlömbum í skilnaðarmálum, þá er það allt of algengt að slíkt gerist. Þegar langvarandi deilur einkenna heimilislífið reyna börnin oft að taka að sér sáttasemjarahlutverk án þess að ætla sér þaðbeint. Þau passa sig á því að segja ekki eða gera neitt sem getur komið af stað deilum og illindum foreldranna og sum hver grípa jafnvel inn í deilurnar á einhvern hátt til þess að stöðva þær. Á vissan hátt geta þau þannig orðið meðvirk í deilunum og þau fela eigin tilfinningar og skoðanir til þess að bjarga málunum. Það er algengt ef ekkert er að gert, að börnin fari að kenna sér um hvernig komið er og hugsi jafnvel með sér :„Ef ég hefði nú bara verið stilltari þá væru pabbi og mamma ekki að rífast”, eða „það er mér að kenna að pabbi og mamma vilja ekki búa saman lengur”. Í öllum atganginum sem getur fylgt skilnaðinum gleymist þessi sjálfsásökun barnanna og hún getur grafið um sig í sálinni og markað þau fyrir lífstíð. Sumir foreldrar neyða börnin sín til þess að taka afstöðu í deilunni, jafnvel óafvitandi. Börnin verða þá að velja með hvoru foreldrinu þau standa. Það val er barninu auðvitað ómögulegt. Barnið stendur með báðum foreldrum sínum, vill hvorugt særa, og þykir jafn vænt um bæði. Það er því aldrei of oft brýnt fyrir hjónum sem standa í þessum erfiðu sporum að varast það að neyða börnin sín til þess að velja á milli foreldranna. Börnin eru ekki skiptimynt í deilum hinna fullorðnu, þaðan af síður vopn í hendi til að ná sér niður á maka sínum. Ábyrgð foreldra gagnvart velferð barna sinna vegur hér þungt. Það er ánægjuefni að stöðugt fleiri foreldrar sem eru í þeirri stöðu að skilnaður er eina lausnin, leita sér aðstoðar við að ganga frá skilnaðinum þannig að málin fari á sem bestan veg fyrir börnin.

Stundum gerist það einnig þegar skilnaður er orðin staðreynd að afar og ömmur fá ekki lengur að umgangast barnabörnin sín. Það foreldri sem fer með forræðið yfir börnunum neitar þá fyrrum tengdarforeldrum sínum um tíma með börnunum. Það auðvitað jafn sárt fyrir bæði ungu kynslóðina og þá eldri. Börnin eru þá aftur notuð sem vopn í þeirri hefndarbaráttu sem svo oft vill fylgja skilnaðinum.

Skilnaður er alltaf sár og erfiður þó að staðan geti verið sú í sumum hjónaböndum að enginn önnur leið er út úr þeirri kreppu sem sambúðin er komin í. En hver svo sem orsök skilnaðarins er, ættu foreldrar alltaf að hafa í huga velferð barna sinna og forðast það að nota þau sem vopn í baráttu sinni gegn fyrri maka og fjölskyldu hans. Því börn eru ekki vopn heldur einstaklingar og þeirra er framtíðin.

Samkvæmt alþjóðlegum barnasáttmálum þá eiga börnin skýlausan rétt til beggja foreldra og hið sama gildir um rétt foreldra til að umgangast börnin sín. Þð er aftur á móti staðreynd að mörg af sorglegustu málum sem fengist er við í hjóna og fjölskylduráðgjöf snerta einmitt börnin. Viðhorf foreldra og samstarf eftir skilnaðinn getur skipt sköpum um það veganesti sem barn fær með sér og flytur með sér út í lífið, yfir í eigin foreldrahlutverk. Nú er það svo að foreldrar geta valið að annað foreldrið hafi forsjá yfir barninu eða börnunum eftir skilnaðinn, eða svokallaða sameiginlega forsjá. Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið hér á landi kemur berlega í ljós að líðan barna er í mörgum tilvikum marktækar betri þar sem foreldrar hafa sameiginlega forsjá, heldur en þar sem annað foreldrið hefur forsjánna. Oft er það svo í síðara tilfellinu að það er móðirin sem hefur forsjánna. Hætta er þá fyrir hendi á því að tengsl barns við föður minnki eða verði stopulli. Einnig er sú hætta fyrir hendi að barnið upplifi sig sem einskonar jaðarbarn, t.d. þegar og ef móðir stofnar til nýrrar sambúðar.

Þó að forsjá sé sameiginleg, þá er lögheimili barna hjá öðru foreldrinu. Algengast er að það sé hjá móðir í slíkum tilfellum, en að þau hafi einnig fastan samastað hjá feðrum sínum. Félags og fjölskyldufræðingar hafa bent á að með sameiginlegri forsjá eflist ábyrgð beggja foreldra á umsjón barnanna. Feður geta þá nýtt sér breytta stöðu sem upp kemur við skilnað til að rækta með sér nýjar hliðar hjá sjálfum sér varðandi börnin og tengsl sín við þau. Og mæðurnar ná þá á móti að þróa með sér viðurkenningu á öðrum aðferðum en sínum og læra að treysta því að börnunum sé vel borgið hjá feðrunum. Í stað þess að takast á um barnið leita foreldrar þvert á móti samkvæmt könnunum til hins foreldrisins ef eitthvað bjátar á þar sem forsjá er sameiginleg. Afi og amma beggja vegna eru líka áfram með og inni í lífi barnsins, öfugt við það sem ég benti á hér fyrr. Þannig leggjast allir á eitt að sýna umburðarlyndi og sátt þegar hagsmunir barnsins eru annars vegar. Það skapast forsenda fyrir því að samfelli sé í tengslum foreldra og barna og fjölskyldna þeirra, í stað togstreitu um börnin og baráttu um yfirrráð yfir lífi þeirra. Margar spurningar tengdar lögunum eru þó enn óleystar hvað varðar sameiginlega forsjá, t.d. spurningar um meðlagsgreiðslur, framfærslu, tvöfalt lögheimili og fleiri sem of langt mál er að fjalla um hér.

Ég hef í þessum pistli gert að umræðuefni ýmis þau spjót sem á fjölskyldum landsins standa. Einnig hef ég reynt að velta upp spurningum um ábyrgð og frelsi bæði hvað varðar þjóðfélag, fjölskyldur og einstaklinga. Víða er pottur brotinn í þessum málaflokki. Og það er auðvitað leiðinlegt að þurfa að viðurkenna að samfélag okkar er ekki eins fullkomið og margir vilja vera láta. Við ættum hæglega að geta búið fjölskyldunni í öllum sínum myndum, sambúðinni og hjónabandinu lífvænlegri skilyrði á nýrri öld.

En að sjálfsögðu þarf hver að byrja heima hjá sér. Við getum ekki bara beðið eftir því að stjórnvöld og fyrirtækin í landinu taki til á hinum opinbera vettvangi og forgangsraði með hag fjölskyldunnar í huga. Við þurfum líka að forgangsraða hvert og eitt heima hjá okkur. Gætum við ekki verið opnari fyrir þörfum hvors annars á heimilinu og innan fjölskyldunnar, sýnt hvort öðru meiri hlýju og virðingu, hrósað hvort öðru meira, hlegið meira saman? Og umfram allt, gætum við ekki ekki gefið fjölskyldunni og börnunum okkar meiri tíma? Þegar í óefni er komið mættum við líka vera duglegri að leita okkur aðstoðar hjá fagfólki, rétt eins og þegar við veikjumst og förum til læknis til að leita okkur hjálpar. Því miður er það nú svo að úrræðin eru ekki allt of mörg. Langir biðlistar eru hjá hjóna- og fjölskylduráðgjöfum, bæði einkareknum og opinberu. Langar raðir eru einnig fyrir utan skrifstofur okkar prestanna á viðtalstímum okkar. Gríðarleg aðsókn er á hverskonar námskeið um fjölskyldu og sambúðarmál. Gera þyrfti átak til að auka fræðslu og stuðning við foreldra, fjölskyldur og sambúðarfólk. Slík fræðsla og stuðningur gæti hæglega farið fram á heilsugæslustöðinni rétt eins og líkamleg umönnun.

Margar aðrar sértækar ástæður en hér hafa verið nefndar geta verið fyrir því að upp úr slitnar í hjónabandi. Í þessum pistli hef ég fjallað um ýmsar almennar ástæður skilnaðar og afleiðingar þeirra. Þau sem vilja lesa nánar um t.d. afleiðingar óhóflegrar áfengisneyslu, heimilisofbeldis og framhjáhalds á hjónaband og sambúð, er bent á pistla sem ég hef ritað um þessi mál hér á Doktor.is.