Áverki á liðþófum

Í hnénu eru tvær hálfmánalaga brjóskskífur sem kallast liðþófar, annar liggur miðlægt í hnénu en hinn hliðlægt. Hlutverk liðþófanna er að verka eins og nokkurs konar stuðpúðar sem dreifa þunganum sem kemur frá lærleggnum og niður á fótlegginn. Auk þess að dreifa þunganum auka þeir á stöðugleika liðarins. Tiltölulega algengt er að sjá skemmdir á liðþófum og geta þær komið fyrir í öllum aldurshópum. Í ungu fólki eru liðþófarnir tiltölulega sterkir og töluvert mikinn áverka þarf til að skemmdir verði. Í þessum aldurshópi er algengast að liðþófaáverkar verið við íþróttaiðkun. Með aldrinum hrörnar liðbrjóskið og geta skemmdir komið fram við tiltölulega lítinn áverka og í sumum tilfellum er engin áverkasaga.

Helstu orsakir skemmda á liðþófum

Helsta ástæða fyrir skemmdum liðþófum er þegar staðið er í fótinn og snúið er snögglega og þannig skapast mikið álag á hnéð. Dæmi um íþróttagreinar þar sem algengt er að sjá skemmdir á liðþófum eru körfubolti, fótbolti og svigskíði svo eitthvað sé nefnt. Oft heyrir sjúklingur brest í hnénu, síðan fylgir sár verkur og hnéið læsist.

Hver eru einkenni liðþófaskemmda?

Verkur og bólga, ýmist staðbundinn í hnénu yfir liðþófasvæði eða verkur sem tekur til alls hnésins.

Læsing, í þeim tilfellum þar sem flísast út úr liðþófanum, getur það valdið því að læsing verður í hnénu þannig að ekki gengur að rétta úr því eða að það smellur í hnénu þegar rétt er úr því og sársauki fylgir.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Sjúkrasaga og skoðun gefur miklar upplýsingar, hvernig er áverkinn tilkominn og hvort saga er um læsingu í hnénu. Leitað er eftir eymslum yfir liðþófunum og hvort læsing verður í hnénu við skoðun.

Myndgreining: röntgenmyndataka segir yfirleitt lítið um hvort liðþófaáverki er til staðar, en getur reynst nauðsynleg til að útiloka að um beinbrot sé að ræða. Liðbönd, sinar og liðþófar sjást illa á röntgenmyndum, en þó er stundum hægt að sjá ef brotnað hefur út úr liðþófanum og laust brot er inn í liðnum. Liðbönd, sinar og liðþófar sjást hinsvegar vel með segulómun og þegar vafi leikur á hvaða þættir það eru í hnénu sem skemmst hafa, getur reynst nauðsynlegt að gera segulómun.

Liðspeglun: ef sjúkrasaga og skoðun bendir sterklega til að um skemmdir á liðþófa sé að ræða, er liðspeglun notuð bæði til greiningar og meðferðar. Aðgerðin felur í sér að bæklunarlæknir notar sérhæfð myndatæki sem gerir honum kleift að skoða hnjáliðinn að innan og greina áverka. Fyrir aðgerðina þarf að svæfa sjúkling. Gerðir eru tveir litlir skurðir við hnjáliðinn og farið inn með nema sem sendir myndir á sjónvarpsskjá og gerir lækninum það kleift að greina áverka mjög nákvæmlega og nota verkfæri til að lagfæra þá áverka sem orðið hafa.

Meðferð

Við áverka er best að byrja á að leggja kaldan bakstur við áverkann til að minnka blæðingar og bólgu og ef mögulegt er að setja þrýsting á hnéð. Strax eftir að áverkinn kemur er best að leggjast út af og hafa fótinn í hálegu. Hvíld fyrir hnéð er mikilvæg bæði strax eftir áverkann og einnig fyrstu dagana á eftir. Bólgueyðandi lyf eru notuð til þess að minnka bólgur og verki. Sjúklingur er látinn notar hækjur sér til stuðnings fyrst á eftir. Ef einkenni ganga ekki til baka er framkvæmd liðspeglun þar sem rifinn liðþófi er lagfærður. Það fer eftir því hversu mikil skemmdin er hvað þarf að gera. Þegar stór skemmd er í liðþófanum er reynt að sauma hann saman og ef laust liðþófabrot er í liðholinu er það fjarlægt.

Þegar bólga í hnénu og verkirnir hafa minnkað er rétt að byrja sjúkraþjálfun, sem miðar að því að styrkja vöðvana umhverfis hnéð sem auka þannig á stöðugleika liðarins og að ná eins góðum hreyfiferli og mögulegt er. Ekki er til nein ein meðferð sem hentar öllum og er það einstaklingsbundið hvaða meðferð best er að velja. Hvernig velja á framhaldsmeðferðina fer eftir nokkrum þáttum s.s. því hversu stöðugur liðurinn er, hvort einnig hafi orðið skemmdir á liðþófum eða öðrum liðböndum, aldri sjúklings og hversu mikið sjúklingur hreyfir sig.

Í þeim tilfellum þar sem læsing er í hnénu getur reynst nauðsynlegt að gera liðspeglun við fyrsta hentuga tækifæri.

Liðspeglun hentar þó ekki öllum. Í ungum einstaklingum með skemmda liðþófa eru töluvert miklar líkur á að takist að sauma skemmdina saman og lagfæra liðþófann, en þegar aldurinn færist yfir minnka líkurnar á að það gangi.

Fylgikvillar

Við skemmdir á vefjum líkamans byrjar hann strax viðgerð. Viðgerðarfrumurnar berast til skemmdra vefja með blóðinu. Liðbrjósk fær næringu sína að stórum hluta frá liðvökvanum en hefur tiltölulega lítið blóðflæði og því tekur viðgerð langan tíma, frá nokkrum vikum og upp í nokkra mánuði. Þetta gerir það einnig að verkum að ef um stórar skemmdir er að ræða getur reynst erfitt að lagfæra þær við liðspeglun.

Við áverka á liðþófa verður yfirborð hans, sem áður var slétt, ójafnt og einnig getur hluti af honum losnað frá og er þá laus inni í liðnum. Ef þetta er ekki lagfært getur það valdið núningi á liðbrjóskið sem aftur með tímanum getur leitt til ótímabærs slits í liðnum.

Óstöðugleiki í liðnum sem gerir hann útsettari fyrir frekari áverkum.

Langvarandi verkir.