Skekkja á getnaðarlim


Er munur á kynfærum karla?

Kynfæri karla eru afar fjölbreytileg í útliti, en eitt eiga þau næstum öll sameiginlegt: Við kynferðislega örvun stækkar limurinn og verður býsna stífur viðkomu. Við stinninguna minnkar stærðarmunurinn, þannig að limirnir verði allir reiðubúnir og hæfir til samfara.

Hvað er skekkja á getnaðarlim?

  • Viss hópur manna getur átt í vandræðum með venjulegar samfarir, vegna þess að limur þeirra verður skakkur eða kræklóttur við stinningu.
  • Þetta kallast skekkja á getnaðarlim og lýsir vel ástandinu. Skekkjan getur vísað upp, niður eða til hliðar. Ef skekkjan er u.þ.b. 30 gráður eða meira geta orðið erfiðleikar við samfarir.

Hvað er til ráða ef erfiðleikar eru við kynmök?

  • Þeir sem eru með skekkju á getnaðarlim, sem truflar kynmökin ættu að gera eitthvað í málinu. Gott er að ræða við lækni.
  • Byrja skal á því að mynda liminn með polaroidmyndavél.
  • Fyrst skal taka nokkrar myndir af skekkjunni á reistum lim. Taka þarf að minnsta kosti eina mynd frá hlið, með því að setja myndavélina á borð í beinni hæð við liminn og beina henni að honum. Gæta þarf að réttri lýsingu og fjarlægð. Gott er að vera með köflóttan bakgrunn, t.d. flísar eða rúðustrikaðan pappír.
  • Taka ber því næst minnst eina mynd ofan frá og neðan frá, einnig við köflóttan bakgrunn.
  • Taka skal myndirnar með til læknisins og skurðlæknisins, sem á að lagfæra liminn. Ekki er ósennilegt að aðgerðin sé gerð í staðdeyfingu og limurinn réttur.
  • Við aðgerðina styttist limurinn örlítið.