Sjúkraþjálfari

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Félag íslenskra sjúkraþjálfara (FÍSÞ)

Nafn á tengilið:

Sigrún Knútsdóttir, formaður FÍSÞ

Aðsetur:

Lágmúla 7, 3 hæð
125 Reykjavík
Sími: 568 7661
Fax: 588 9239
Netfang: rgb@hi.is
Heimasíða: www.physio.is

Starfssvið (hlutverk):

Aðalmarkmið sjúkraþjálfunar er að vinna að því að bæta heilsu og líðan fólks, minnka verki, viðhalda eða bæta hreyfigetu og starfshæfni. Sjúkraþjálfarar starfa við hæfingu og endurhæfingu fólks á öllum aldri, allt frá ungabörnum til aldraðra. Sjúkraþjálfarar búa yfir hagnýtri þekkingu á mannslíkamanum og hafa sérþekkingu á eðlilegum hreyfingum og greiningu á frávikum frá þeim. Starf sjúkraþjálfara er m.a. fólgið í nákvæmri greiningu og meðferð ýmissa sjúkdómseinkenna sem tengjast truflun á hreyfigetu og stafa af sjúkdómum, slysum eða röngu álagi. Ráðgjöf, forvarnir og heilsuefling er einnig mikilvægur þáttur í starfi sjúkraþjálfara. Aðferðir sem sjúkraþjálfarar nota eru mismunandi og ráðast af nákvæmri greiningu á orsökum vandamáls viðkomandi einstaklings, þær taka yfirleitt mið af hreyfikerfinu og stjórnun þess og felast m.a. í að:

 • auka styrk vöðva og auka hreyfiferla liða
 • draga úr sársauka
 • auka þol og þrek
 • auka færni
 • auka jafnvægi
 • auka göngugetu
 • auka samhæfingu.

Til að ná þessum markmiðum nota sjúkraþjálfarar ýmsar aðferðir í meðferð t.d.:

 • ýmsar æfingar
 • vöðvateygjur
 • liðlosun
 • nudd
 • hita- og kælimeðferð
 • ýmis rafmagnstæki til að bæta ástand vefja og minnka sársauka
 • fræðslu
 • slökun.

Starfssvið sjúkraþjálfara er stöðugt að víkka og tekur til andlegra þátta jafnt sem líkamlegra, en sjúkraþjálfari hugsar um manninn í heild með tilliti til eðlilegrar líkamsstarfsemi. Sjúkraþjálfarar starfa víða m.a.:

 • á sjúkrahúsum
 • á einkareknum sjúkraþjálfarastofum
 • á endurhæfingarstofnunum
 • á heilsugæslustöðvum
 • á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða
 • á geðdeildum
 • á líkamsræktarstöðvum
 • í heimahúsum
 • hjá fyrirtækjum
 • hjá Vinnueftirliti ríkisins
 • hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur
 • hjá Greiningarstofnun ríkisins
 • hjá Tryggingarstofnun ríkisins
 • hjá Íslenskri Erfðagreiningu.

Sjúkraþjálfarar vinna í nánu samstarfi við lækna og aðrar heilbrigðisstéttir og taka sjúklinga í meðferð í samráði við lækna.

Kostnaður meðferðar:

Í dag (júní 2000) kostar hver koma til sjúkraþjálfara 1090 kr. en 545 fyrir ellilífeyrisþega, öryrkja og börn undir 18 ára aldri.

Er starfsemin niðurgreidd af Tryggingastofnun/Verkalýðsfélögum:

Í dag er í gildi samningur milli íslenskra sjúkraþjálfara og Tryggingarstofnunar ríkisins þar sem ríkið greiðir meðferð hjá sjúkraþjálfara að nokkru eða öllu leyti. Flest verkalýðsfélög taka þátt í kostnaði sjúklinga í sjúkraþjálfun. Ef um afleiðingar bótaskylds slyss er að ræða greiða tryggingarfélögin hlut sjúklings í sjúkraþjálfun.

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Sjúkraþjálfun er löggild sjálfstæð heilbrigðisstétt og er þeim einum heimilt að stunda sjúkraþjálfun sem hafa fengið til þess leyfi Heilbrigðisráðuneytisins.

Menntun:

Nám sem liggur að baki, hva Sjúkraþjálfun er kennd við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og er fjögurra ára nám sem lýkur með B.Sc. gráðu í sjúkraþjálfun. Að loknu haustmisseri fyrsta árs er aðgangur takmarkaður við 18 nemendur og er réttur stúdenta til áframhaldandi náms miðaður við árangur í prófum í lok haustmisseris. Fyrstu tvö árin eru að mestu bókleg, áhersla er lögð á líffæra- og lífeðlisfræði, hreyfingafræði og starfræna líffærafræði. Á seinni tveimur árunum er farið dýpra ofan í kjölinn á sjúkdóma- og sjúkraþjálfunarfræðunum og þá hefst einnig verkleg kennsla þar sem farið er á heilbrigðisstofnun og þar kynnast nemendur starfinu undir handleiðslu sjúkraþjálfara. Að loknu B.Sc. prófi gefst sjúkraþjálfurum kostur á meistaranámi og doktorsnámi í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands og víða erlendis.

Hliðargreinar:

Einnig er hægt að sérhæfa sig á ýmsum sviðum s.s.:

 • hnykkmeðferð
 • íþróttasjúkraþjálfun
 • barnasjúkraþjálfun
 • geðsjúkraþjálfun
 • hjartasjúkraþjálfun
 • lungnasjúkraþjálfun
 • vinnuvernd

Nýjungar í stéttinni:

Sjúkraþjálfun er fag í stöðugri þróun sem fylgir framförum og nýjungum innan heilbrigðiskerfisins. Sjúkraþjálfarar leggja sífellt meiri áherslu á mikilvægi rannsókna til að meta árangur og ávinning af meðferð og telja rannsóknir vera forsendur faglegrar þróunar.

Annað sem brýnt er að taka fram

Í lögum um sjúkraþjálfun er sjúkraþjálfurum gert skylt að auka þekkingu sína bæði í formlegu og óformlegu námi með það að markmiði að viðhalda og efla faglega hæfni. Þannig uppfylla sjúkraþjálfarar eitt af meginmarkmiðum félagsins sem er að bæta heilsu landsmanna.