Sjúkranuddari

 

Sjúkranuddarafélag Íslands var stofnað árið 1981.  Sjúkranuddarar starfa samkvæmt reglugerð sem sett var árið upphaflega 1987.  Starfsheitið sjúkranuddari er lögverndað.

Starfssvið sjúkranuddara

Sjúkranudd er meðhöndlun á mjúkvefjum líkamans í lækningaskyni.  Mjúkvefir eru vöðvar, sinar, liðbönd, húð og himnur.  Klassískt nudd er grunnurinn í sjúkranuddi en sjúkranuddarar beita ýmsum öðrum aðferðum samhliða því, til dæmis:

 • teygjum
 • styrkjandi æfingum
 • trigger punktameðferð
 • rafmagnsmeðferð
 • bandvefsnuddi
 • vatnsmeðferð
 • heitum og köldum bökstrum
 • svæðameðferð
 • vaxmeðferð
 • fræðslu og mörgu fleiru

Sjúkranudd er góður kostur í leit þinni að meðferð til að lina verki og óþægindi í mjúkvefjum líkamsans tengdum spennu í hversdags- og atvinnulífinu.  Sjúkranudd getur komið í veg fyrir vítahring verkja sem stafa af misbeitingu vegna streitu, meiðsla og sjúkdóma.  Sjúkranuddarar skoða manninn í heild sinni með tilliti til eðlilegrar líkamsstarfssemi.  Þeir geta hjálpað þér með allt frá vöðvaspennu og/eða stífleika til endurhæfingar.  Sjúkranuddarar leiðbeina þér einnig með rétta líkamsbeitingu og styrktaræfingar.  Nokkrir sjúkranuddarar hafa sérhæfingu í bjúgmeðferð (manuelle Lymphdrainage).

Hverju mátt þú búast við í fyrstu heimsókn þinni til sjúkranuddara?

Sjúkranuddarar taka á móti þér eins og hvert annað fagfólk í heilbrigðisgeiranum.  Þú gefur greinargóðar upplýsingar um heilsufarsástand þitt og líkamlega líðan.  Sjúkranuddarinn sníður síðan meðferðina að þínum þörfum og í sameiningu ákveðið þið ykkur markmið með meðferðinni.

Starfsvettvangur sjúkranuddara

Sjúkranuddarar starfa víða, t.d. á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, Heilsustofnun NLFÍ Hveragerði, heilsuræktarstöðvum og á eigin stofum.

Kostnaður meðferðar

Kostnaður meðferðar er háður tímalengd

Niðurgreiðsla Tryggingarstofnunar eða verkalýðsfélaga

Kostnaður við sjúkranudd er ekki greiddur af Tryggingastofnun en sjúkranudd er þó undanþegið virðisaukaskatti.  Sjúkrasjóður margra verkalýðsfélaga taka þátt í kostnaðinum og ef um meðferð eftir slys er að ræða þá greiða sum tryggingafélög kostnaðinn eftir tilvísun frá lækni.

Sjúkranuddarar eru viðurkennd stétt af heilbrigðisyfirvöldum

Rétt til að kalla sig sjúkranuddara og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi Heilbrigðisráðherra.  Eingöngu löggiltir sjúkranuddarar hafa leyfi til þess að taka við tilvísun frá lækni og meðhöndla samkvæmt því.  Nánari upplýsingar um sjúkranuddara og félaga í Sjúkranuddarafélagi íslands (SNFÍ) er að fá í síma: 437-2226

Menntun

Löggiltir sjúkranuddarar verða að hafa 2-3 ára nám á háskólastigi sem Heilbrigðisráðuneytið viðurkennir.  Námið skiptist í 2200 tíma bóklegt nám og 500 tíma verklegt nám.  Sjúkranudd er eingöngu hægt að læra erlendis.  Það nuddnám sem fram fer á Íslandi í dag er því ekki viðurkennt sem sjúkranuddnám.  Flestir þeir erlendu sjúkranuddskólar sem viðurkenndir eru af hérlendum heilbrigðisyfirvöldum krefjast stúdentsprófs.  Þeir skólar sem hér fást viðurkenndir eru langflestir í Kanada og Þýskalandi en áhugasömum er bent á að hafa samband við Sjúkranuddarafélag Íslands.

Löggiltir sjúkranuddarar hafa góða kunnáttu í

 • líffærafræði
 • hreyfingarfræði
 • lífeðlisfræði
 • taugalíffræði
 • sjúkdómafræði
 • klínískri skoðun

Hliðargreinar

Sjúkranuddarar eru með ýmsar sérhæfingar svo sem:

 • bjúgmeðferð (manuelle lymphdrainage)
 • bandvefsnudd
 • TMJ meðferð
 • meðgöngu-, fæðingar- og ungbarnanudd
 • sjúkranudd í vatni

Nýjungar í stéttinni

Miklar framfarir eru í sjúkranuddi, eins og í öðrum heilbrigðisgreinum og er því mikilvægt að starfandi sjúkranuddarar séu fljótir að tileinka sér nýjungar.  Tengt sjúkranuddinu eru framfarirnar mestar í áhöldum og tækjum sem auðvelda, flýta og auka gæði meðferðar.

Heiti stéttarfélags/stjórnar

Sjúkranuddarafélag Íslands (SNFÍ)

Nafn á tengiliðum

Elsa Lára Arnardóttir, formaður og Elísabet Richter Arnardóttir

Símanúmer

Sími 822-3572 og 588-5005 eða 695-5650

Netfang

sjukranudd@snerta.is