Sjúkdómar og fordómar

Erum við ennþá full af fordómum?

Fordómar í garð sjúklinga með vissa sjúkdóma eru gamalþekkt fyrirbæri. Þeir holdsveiku voru kallaðir óhreinir og reknir úr samfélagi manna, geðveikir voru lokaðir inni og stundum misþyrmt og flogaveikum var meinað ýmislegt sem telja má almenn mannréttindi svo nefnd séu vel þekkt dæmi. En hvernig er þá þessum málum háttað í okkar vel menntaða og upplýsta þjóðfélagi þar sem ríkja á jöfnuður milli manna og minnihlutahópum á að vera sýnd takmarkalítið umburðarlyndi. Gæti verið að einhvers staðar sé maðkur í mysunni?

Menn óttast gjarnan hið óþekkta og á það m.a. við um sjúkdóma sem á einhvern hátt eru áberandi í samfélaginu. Þetta gildir um sjúkdóma þar sem útlit sjúklingsins breytist og verður afbrigðilegt eða jafnvel óhugnanlegt eins og í holdsveiki, þegar sjúklingurinn hefur miklar eða afbrigðilegar hreyfingar eins og við ofvirkni hjá börnum, Tourette heilkenni eða Huntingtons sjúkdóm. Geðveikir hafa í gegnum aldirnar vakið ótta fólks og voru gjarnan taldir vera haldnir illum anda sem e.t.v. mætti flæma burt með særingum, fyrirbænum eða misþyrmingum. Flogaveikir voru einnig taldir haldnir illum anda sem næði valdi á sjúklingnum af og til og það lýsti sér með flogum. Allt er þetta vel þekkt sagnfræði en á hún eitthvað erindi til nútímafólks annað en að vera til íhugunar um hvað fólk var fáfrótt og fordómafullt í gamla daga? Því miður er enn mikið um hræðslu og fordóma gagnvart vissum sjúkdómum sem óhjákvæmilega bitna á sjúklingunum. Nýlega heyrði ég um fjölskyldu sem flutti í fjölbýlishús og einn af meðlimum þessarar fjölskyldu var ofvirkt barn. Um það leyti sem fjölskyldan var að flytja inn fór einn íbúa hússins að spyrjast fyrir meðal hinna íbúanna hvort þeim fyndist ekki ástæða til að reyna að hindra þetta fólk í að setjast að í húsinu vegna óþægindanna sem drengurinn ætti eftir að valda. Þetta mun hafa fengið litlar undirtektir en lýsir mikilli fáfræði og fordómum hjá umræddum íbúa. Ekki eru mörg ár síðan íbúar í íbúðahverfi börðust gegn heimili fyrir geðveika í hverfinu og í öðru seinna tilviki var um að ræða heimili fyrir innhverfa. Geðveikir hafa alltaf átt undir högg að sækja og á Íslandi eru enn notuð fordómafull skammaryrði og niðrandi hugtök sem tengjast þekktasta geðsjúkrahúsi landsins, Kleppi. Fordómar í garð geðveikra virðast lifa góðu lífi í landinu þó svo að maður eigi erfitt með að skilja það ef tekið er tillit til skilnings okkar á eðli þessara sjúkdóma og meðferð sem oft er mjög árangursrík. Það sem kannski er skrítnast og illskiljanlegast af þessu öllu eru þó fordómar í garð flogaveikra á okkar góða landi í lok tuttugustu aldar. Langt fram eftir öldinni máttu flogaveikir ekki giftast en engar gildar ástæður voru fyrir slíku banni og flogaveiki ekki meira ættgeng en margir aðrir alvarlegir sjúkdómar. Enn eru miklir fordómar í garð flogaveikra sem að langmestu leyti stafa af vanþekkingu á sjúkdómnum og af hinum gamalþekkta ótta við það sem við ekki þekkjum og höfum ekki stjórn á. Flestir flogaveikir eru ósköp venjulegt fólk, sem tekur sín lyf daglega eins og við á um svo marga aðra sjúklingahópa eins og t.d. sykursjúka og þá sem eru með of háan blóðþrýsting. Sumir fá flog einstaka sinnum en aðrir aldrei, miklir krampar eru sjaldgæfir en í langflestum tilfellum er um að ræða væg flog sem standa í nokkrar sekúndur eða a.m.k. innan við eina mínútu. Flest af þessu fólki er sem sagt með tiltölulega vægan sjúkdóm sem hægt er að halda að mestu eða öllu leyti í skefjum með lyfjum en þrátt fyrir þetta gengur þessu fólki illa að fá vinnu, vegna fordóma og fáfræði sumra vinnuveitenda.

Heimasíða Magnúsar Jóhannsonar