Sjúkdómar í slímhúð munns

Slímhúð munns er mynduð af þekjuvef og bandvef og gegnir m.a. því hlutverki að vernda þá vefi sem hún þekur frá ytra áreiti og hindra vökvatap þaðan. Í heilbrigðri slímhúð er mikill fjöldi örvera án þess að það valdi sýkingu en þegar viðnámskraftur minnkar eða styrkur örvera eykst getur sýking hins vegar komið fram. Einnig geta skaðlegar utanaðkomandi örverur herjað á vefi munnholsins. Margir sjúkdómar hafa einkenni sem eru sjáanleg á slímhúð munnsins. Þar mætti nefna ýmsa barnasjúkdóma, t.d. mislinga, rauða hunda og hlaupabólu, er valda tímabundnum útbrotum eða öðrum einkennum í slímhúð munnsins. Algengustu sjúkdómar í munni eru þó staðbundnar sýkingar sem geta stafað af veirum, sýklum eða sveppum.

Helstu tegundir veirusýkinga í munni

  • Bráð herpetísk bólga (Herpetiskur gingivostomatitis)
  • Frunsa (Herpes labialis)
  • Munnangur (Stomatitis aphtosa recidivans)

Bráð herpetísk bólga

Herpetiskur gingivostomatitis er bráð bólga í tannholdi og slímhúð munns og er af völdum herpes simplex virus I (HSVI), sem er valdur að algengustu veirusýkingunum í munni. Þessi veirusýking er algengust meðal barna á aldrinum tveggja til fjögurra ára. Helstu einkenni eru útbreidd tannholdsbólga og blöðrumyndanir innan á kinnum og vörum.

Börn með þessa sýkingu eru oftast verulega lasleg, með hita og bólgna hálseitla. Það getur því oft reynst erfitt að fá þau til að borða vegna særinda í slímhúð munnsins og um leið er hætta á að þau „þorni upp“.

Meðhöndlun

Meðhöndlun felst fyrst og fremst í því að viðkomandi fái nægilega næringu og vökva. Stundum er gripið til þess ráðs að pensla slímhúðina með deyfilyfi til þess að deyfa og draga úr verkjum áður en borðað er eða drukkið. Einnig er klórhexidín – lausn 0,1 – 0,2% gjarnan notuð til þess að pensla sárin í því skyni að hindra að sýklasýking komi einnig upp. Rétt er að leita til tannlæknis eða læknis og fá frekari leiðbeiningar um meðhöndlun.

Frunsa

Frunsa (herpes labialis) er algengur slímhúðarsjúkdómur í vörum. Þessi sjúkdómur stafar af HSVI-veirunni sem talið er að viðkomandi hafi áður smitast af. Helstu einkenni herpes labialis eru blöðrumyndanir á vörum sem geta í verri tilfellum náð langt niður á höku eða upp undir nef. Í sumum tilvikum getur sýking komið upp aftur og aftur með stuttu millibili og jafnvel varað vikum eða mánuðum saman. Bent hefur verið á ýmsa áhættuþætti sem hugsanlega geta komið sýkingu af stað eða viðhaldið henni. Þar mætti nefna skerðingu á mótstöðu, s.s. vegna þreytu, kvefpesta, andlegrar streitu o.fl., einnig sólböð (UV-geislun sólar) og útivist.

Meðhöndlun

Meðhöndlun getur verið erfið. Ef viðkomandi finnur fyrir fyrirboða sýkingar, t.d. kláða, er hægt að nota lyf sem borin eru á sýkta svæðið áður en blöðrumyndanir byrja. Fáið leiðbeiningar um slíkt hjá tannlækni.

Munnangur

Helstu einkenni munnangurs (stomatitis aphtosa recidivans) eru lítil og afar viðkvæm sár sem eru aðskilin hvert frá öðru. Oft er gráhvít eða gulleit slikja yfir þessum sárum en utan um þau rautt og bólgið svæði. Orsakir munnangurs eru enn ekki þekktar með óyggjandi hætti. Talið er að skerðing mótstöðu, s.s. andleg streita, járnskortur, vítamínskortur (fólinsýra og B12) og fleira, geti stuðlað að munnangri.

Meðhöndlun

Í flestum tilvikum grær munnangur á nokkrum dögum. Hjá sumum getur þessi sáramyndun orðið mjög tíð og um leið erfið ef sárin gróa seint og illa. Ýmis lyf hafa verið notuð til þess að meðhöndla hin erfiðari tilfelli.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is