Sjóntruflanir í MS-sjúkdómi

Sjóntruflanir eru mjög algengar í MS sjúkdómi og valda sjúklingum oft verulegum óþægindum. Einnig hafa þær mikið greiningarlegt gildi einkum í upphafi sjúkdómsins. Einkenni þau sem frá augum stafa eru annars vegar sjóndepra samfara sjóntaugabólgu og hins vegar einkenni frá hreyfikerfi augna þegar samhæfi augnhreyfinga skerðist. Til að skilja sjúkdómsmyndina verður fyrst að fjalla lítillega um hvernig starfsemi augna er háttað, án sjúklegra þátta.

Fyrst mun fjallað um sjón og sjóntaugarbólgu. Fremri hluti augans gegnir því hlutverki að hleypa ljósinu að augnbotninum og fókusera skarpa mynd á sjónhimnuna í augnbotninum. Ljóseindir sem þangað berast framkalla efnabreytingar í frumum sjónhimnunnar. Þessi efnahvörf valda breytingum í rafboðum frá auganu. Rafboð þessi berast með taugafrumum til heila um sjóntaugina. Í sjónstöðvum heilans er síðan unnið úr þeim boðum sem þangað berast, og þessa skynjun köllum við sjón. Innan þessa kerfis er allveruleg verkaskipting og þau einkenni sem upp koma í sjúklegu ástandi markast verulega af henni. Í afturhluta augans þekur sjónhimnan augnbotninn. Í miðju sjónhimnunnar eru frumurnar frábrugðnar því sem annarstaðar gerist í augnbotninum, og kallast þetta avæði guli bletturinn. Þar er staðsett skarpa sjónin, þ. e. lestrarsjónin og þar er einnig litasjónina að finna. Þessi hluti sjónhimnunnar annast þannig hinn miðlæga hluta þess sem horft er á. Aðrir hlutar sjónhimnunnar annast hliðarsjónina, þ. e. allt nema hinn miðlæga hluta myndarinnar. Í sjóntauginni eru þeir taugaþræðir sem annast lita og skörpu sjónina staðsettir í miðju.

Í sjóntaugabólgu líða þeir taugaþræðir mest sem miðlægir eru í tauginni og eru einkennin eftir því. Sjóntaugarbólga er á engan hátt frábrugðin MS meini annars staðar í taugakerfinu. Boð þau sem annars berast um taugina til heila komast ekki sína leið. Aðallega eru það lestrarsjónin sem líður og litasjónin. Hinn dæmigerði gangur sjóntaugabólgu er í fyrstu verkur bakvið annað augað sem versnar við augnhreyfingar. Næstu daga tekur sjónin að dvína, litir verða daufari, og miðjuna vantar í það sem horft er á. Sjónskerðingin er mjög mismikil allt frá óverulegum breytingum til algerrar blindu, og sé hún mikil er erfitt að meta fjarlægðir og verða því sjúklingarnir afar klaufskir eðlilega meðan svo er komið. Ástandið batnar síðan hægt og sígandi næstu vikur, og að ca. 2 mán. liðnum hefur sjónin náð sér að mestu. Velþekkt eru áhrif líkamshita á sjóntaugabólgu, þannig versnar hún ef líkamshiti hækkar. Þetta geta sjúklingar oft upplifað árum saman eftir sjóntaugabólgu með skertri sjón og daufum litum t. d. eftir áreynslu, heitt bað eða hvað það sem hækkar líkamshita.

Sjóntaugarbólga leggst á annað augað í einu, nema í börnum þar sem hún er oft beggja megin samtímis. Hún er algengust hjá ungu fólki á aldrinum 20 til 30 ára og algengari í konum. Mjög er mismunandi hvað ætlað er að stór hluti MS sjúklinga fái sjóntaugarbólgu á sínum sjúkdómsferli, en allavega er það um 30% , og oft er það fyrsta einkennið. Meginreglan er sú að fyrri sjón endurheimtist nær alveg eftir að kast er gengið yfir, en endurtekin köst geta rýrt sjón nokkuð. Veruleg sjónskerðing eða varanleg blinda eru sjaldgæf. Greiningin er yfirleitt lítið vandamál, með dæmigerðum einkennum sjúklings, og yfirleitt sést ekkert aðfinnsluvert þegar skoðað er í augnbotninn. Stöku sinnum er þó bólgan staðsett í sjóntaugarósinum, og auðgreinanleg við augnbotna skoðun. Einnig má sjá eftir að bólgan er gengin yfir vægan fölva á sjóntaug, og tap á taugaþráðum sem ganga frá gula blettinum. Ef vafi leikur á greiningu, má staðfesta greininguna með leiðni mælingu í sjóntaugum. Meðferð sjóntaugarbólgu er á engan hátt frábrugðin meðferð MS annars staðar, og verður ekki um það fjallað hér.

Annar meginflokkur sjóntruflana af völdum MS á rætur sínar að rekja til augnhreyfinga. Hvort auga um sig stjórnast af sex vöðvum sem utan á það eru festir. Þessa vöðva hreyfa þrjár taugar hvoru megin. Taugar þessar eru samtengdar sín á milli til að tryggja samhæfðar augnhreyfingar. Þegar sama myndin fellur á gula blettinn í báðum augum samtímis fæst eðlileg sjón og forsendur þrívíddar sjónar eru til staðar. Ef svo er ekki þ. e. mismunandi myndir falla á gulu blettina báða samtímis, þá hlýst af því tvísýni þar sem augun horfa á sinn hvorn hlutinn. Þetta er annað megin augneinkenni MS. Sérhver hinna þriggja tauga sem augnhreyfingum stjórna getur orðið fyrir MS sjúkdóm með viðeigandi vöðvalömun og þar með er rofið hið nauðsynlega samhæfi augnhreyfinga og einkennið tvísýni kemur fram. Þetta er misáberandi þegar horft er á sjúklinginn allt frá ósýnilegum mun yfir í að viðkomandi verður verulega tileygður þegar vöðvajafnvægið raskast. Algengasta orsök tvísýni er þó ekki þegar einstaka taugar skaddast heldur þegar tengingar milli þeirra rofna – tengingar sem venjulega tryggja samhæfingu vöðvanna og fyrirbyggja tvísýni.

Algengast er þannig að þegar litið er til annarrar hliðar fer augað út til hliðarinnar en hitt augað sem ætti að fylgja eftir og hreyfast inn á við að miðlínu, getur ekki gert það. Hið óvænta er að ekki þarf nauðsynlega að fylgja þessu tvísýni, þó að það sé megin reglan. Engin góð skýring er á því hvers vegna svo er. Eins og sjóntaugarbólgan ganga einkenni þessi til baka og viðvarandi vísýni er sjaldgæf. Unnt er að leiðrétta ástandið ef svo er, í völdum tilfellum, með aðgerð á augnvöðvum.

Augntif (nystagmus) eru fínar taktfastar hreyfingar á augum þegar horft er til hliðar, upp eða niður. Augntif er mjög algengt í MS, mun algengara en nokkuð þess sem áður er talið. Þetta veldur aftur á móti sjaldnast einkennum. Ef svo er kvartar sjúklingurinn yfirleitt um að umhverfið sé á hreyfingu þegar litið er til hliðanna eða myndin óskýr.Hér hefur verið gerð nokkur grein fyrir þeim sjóntruflunum sem MS sjúkl. geta orðið fyrir vegna síns sjúkdóms, fjallað hefur verið um einkennandi sjóntruflanir, en upptalningin er ekki tæmandi. Fleiri sjóntruflanir eru vel þekktar, glæringar í sjónsviði, skerðing á hliðarsjón en þetta eru ekki einkennandi truflanir fyrir MS. Augnaukaverkanir lyfja sem notuð eru við meðferð sjúkdómsins eru sjaldgæfar. Langtíma notkun stera getur gefið skýmyndun á augasteini, sem skerðir sjón oft verulega. Skýið má fjarlægja með aðgerð og endurheimtist þá fyrri sjón. Önnur lyf geta haft áhrif á fókuseringarhæfni augans, þannig að viðkomandi finnur til versnandi lestrarsjónar eftir að taka lyfsins hefst. Þessu ber ekki að rugla saman við sjóntaugarbólgu, og er lítil hætta á því þar sem sjónsviðið er hér eðlilegt, og sjón á fjarlæga hluti einnig.

Velflestir MS sjúklingar fá einhvern tíma einkenni frá augum, sjaldnast leiðir sjúkdómurinn til verulegrar og varanlegrar sjónskerðingar. Truflanir á samhæfingu augnhreyfinga gefa tímabundna tvísýni, og augntif er oft að finna hjá einkennalausum MS sjúklingum. Á sínum sjúkdómsferli búa þannig flestir MS sjúklingar við eðlilega sjón og ótruflaða. Tímabundið getur hvorutveggja, sjón og augnhreyfingar raskast, en velfles tir endurheimta augnheilsu sína að nýju nánast að fullu.

Birt með góðfúslegu leyfi MS félagsins, vefur þeirra er msfelag.is