Sjálfstraust hreyfihamlaðra

„Sjáum aldrei sólina ef við einblínum eingöngu á hið neikvæða.“
-segir Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur.

„Gott sjálfstraust kemur ekki af sjálfu sér. Það er færni sem fólk þarf að þjálfa með sér,“ segir Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur. Jóhann Ingi hélt fróðlegan fyrirlestur á vegum Sjálfsbjargar fyrir skömmu þar sem hann fjallaði um sjálfstraust. Hann ræddi um aðferðir til að efla sjálfstraustið, áhrif hugarfars, viðhorfa og hugsunar á hegðun og líðan.

Jóhann Ingi segir fólk ekki gera nægilega mikið af því að rækta sjálft sig og byggja upp sjálfstraustið. „Það þyrfti að huga mun betur að þessum þætti. Þetta er töluverð vinna og þjálfun og fólk þarf að taka sjálft sig í gegn. Ef maður ætlar að byggja upp sjálfstraustið er mjög mikilvægt að hugsa jákvætt og gefa sjálfum sér jákvæð skilaboð. Allt er þetta spurning um rétt hugarfar. Heilinn er eins og tölva og ef tölvan fær einungis neikvæð skilaboð þá verður útkoman neikvæð. Það sama er með okkur sjálf. Ef við hugsum sem svo að allt sem við gerum sé ómögulegt og að við sjálf séum ómöguleg þá förum við að trúa því og fáum þar af leiðandi lélega sjálfsmynd. Ef við hins vegar sendum sjálfum okkur jákvæð skilaboð, höfum trú á okkur sjálfum og því sem við erum að gera þá gengur allt betur og sjálfstraustið eykst. Við sjáum semsagt aldrei sólina ef við einblínum eingöngu á vandamálin og hið neikvæða.“

Að hrósa sjálfum sér og öðrum

Að sögn Jóhanns Inga er hrósið, eða H-vítamínið eins og það er oft kallað, mikilvægur þáttur í að efla sjálfstraustið. „Það er mikilvægt að hrósa sjálfum sér og segja: „Þetta get ég og geri það vel“. Það gefur okkur kraft og aukna trú á okkur sjálf. Fólk sem hrósar sjálfu sér er þó oft álitið grobbið og montið. En við gleymum því oft að til þess að við náum árangri og séum sterk þurfum við líka að vera góð við okkur sjálf. Það er ekkert rangt við það að styrkja sjálfan sig fyrst til þess að geta styrkt aðra. Það er ekki eigingirni. Við tökum það ekki nógu oft inn í myndina að það að vera góður við sjálfan sig er í raun grundvöllurinn að því að geta verið góður við aðra. Ef manni getur ekki þótt vænt um sjálfan sig þá getur manni ekki þótt vænt um aðra. Bara það að kunna aðeins að gefa sér tíma, slaka á og byggja sig upp er því mjög dýrmætt. Rannsóknir hafa sýnt að hrósið er það mikilvægasta í sambandi við að öðlast gott sjálfstraust og ná árangri. Þeir sem hrósa sjálfum sér eru þeir sem ná árangri í lífinu. Þeir stefna að raunsæjum markmiðum og eru líklegastir til að ná þeim.

Íslendingar gera því miður of lítið af því að hrósa sjálfum sér og öðrum. Það hefur eflaust eitthvað með uppeldið að gera vegna þess að það er ríkt í uppeldi margra að þeim hafi ekki verið hrósað og þess vegna hafi þeir ekki lært að hrósa öðrum. Maður sér mikinn mun t.d. þegar maður kemur til Bandaríkjanna þar sem stöðugt er verið að ausa á mann einhverju lofi sem hefur enga þýðingu. Það er svipað og þegar Íslendingar tala um veðrið. Maður verður var við það sem sálfræðingur að mikið er til af lokuðu fólki sem kann hreinlega ekki að hrósa eða gefa af sér. Það er mikill misskilningur að maður eigi ekki að hrósa öðrum vegna þess að það geri fólk montið.“

Jóhann Ingi segir látið fólk fá mikið af H-vítamíni. „Minningargreinar eru uppfullar af hrósi og lofsyrðum um þann sem látinn er. Þetta eru ef til vill greinar frá fólki sem aldrei hrósaði viðkomandi í lifandi lífi. Hefði ekki verið nær að segja alla þessa góðu hluti fyrr þá hefði viðkomandi þurft meira á því að halda. Hvers vegna ekki að hrósa fólki meðan það er á lífi?“

Að meta sjálfan sig að verðleikum

Að sögn Jóhanns Inga efast allir um sjálfa sig, en mismikið þó. „Til að öðlast gott sjálfsmat þarf að eyða efasemdunum. Aðferð sem ég hef mikið notað, til að hjálpa fólki með lítið sjálfstraust, er að nota svokallaðan áhyggjupoka. Þá er unnið með fólk á táknrænan hátt með því að búa til poka og síðan á viðkomandi að láta allar sínar áhyggjur og það sem er að plaga það ofan í pokann. Síðan er hvert atriði tekið fyrir, unnið úr því og því síðan hent. Fólk er oft með vitlaus forrit í höfðinu. Við getum t.d. verið með mann sem segir stöðugt við sjálfan sig: „ég get ekki lært, ég er orðinn svo gamall“. En svo þegar maður spyr hann um menntun hans í gegnum lífið, þá hefur hann gengið menntaveginn, farið í háskóla o.fl. Þá bendir maður viðkomandi á að það sé ekki raunhæft að segja að hann geti ekki lært. Það þarf semsagt að losa fólk við allar þessar neikvæðu hugsanir og áhyggjur sem eru oftast byggðar á misskilningi og koma nýju forriti að, sem gengur út á að hugsa jákvæðar um sjálft sig.

Við erum alltaf að bera okkur saman við aðra. Okkur finnst aðrir svo frábærir og þeir standi sig svo vel. En hvers vegna berum við okkur ekki saman við okkur sjálf, þ.e. hvernig var ég og hvernig er ég í dag. Ég hef bætt mig og það er frábært. Fólk, sem við höldum að sé svo fullkomið, er ekki eins fullkomið og við höldum. Það er einnig með efasemdir um sjálft sig.“

Jóhann Ingi segir fólk hugsa allt of mikið um hvað öðru fólki finnst um það. „Staðreyndin er hins vegar sú að það eru ekki svo margir að spá í mann. Fólk er m.a. upptekið við að hugsa neikvætt um sjálft sig. Fólk sem vill auka sjálfstraust sitt verður að gera sér grein fyrir, hvað það er óánægt með í lífi sínu. Fólk þarf að vinna í grunninum á sjálfu sér og spyrja sig hvað það vill verða og hvernig það vill að líf sitt verði. Síðan á að stefna að þeim markmiðum. Til þess verður það að telja sjálfu sér trú um að það geti náð settu marki. Fólk með lítið sjálfstraust gefst fljótt upp og ásakar sjálft sig ef eitthvað fer úrskeiðis. Þeir sem eru með gott sjálfstraust vita hins vegar að stundum gengur vel og stundum illa. Það gefst ekki upp þótt á móti blási. Það metur sig sjálft að verðleikum, bæði kosti og galla. Að vera með gott sjálfstraust hefur ekkert með það að gera hvort fólk sé fullkomið eða ekki. Mikið fatlaður einstaklingur getur haft gott sjálfstraust og metið sjálfan sig að verðleikum, þótt hann sé fatlaður.“

Mikilvægt að aðrir hafi trú á manni

Að sögn Jóhanns Inga er mikilvægt að finna að einhver hafi trú á manni, það gefi manni kraft. „Það eru mikilvægustu verðmæti sem maður getur gefið öðrum. Mikilvægt er t.d. að foreldrar hafi trú á börnum sínum. Það byggir upp sjálfstraust þeirra og metnað. Það er t.d. mikill munur á því hvort sagt er við mann: „Þú átt eftir að standa þig vel, þú ert svo duglegur og efnilegur,“ eða: „Heldurðu að þú ráðir við þetta, verður þetta ekki allt of erfitt fyrir þig.“ Viðhorf og viðbrögð þeirra sem maður umgengst hafa semsagt mikið að segja. Þau geta annað hvort peppað fólk upp eða brotið það niður. Þetta er kallað áhrifamáttur væntinga. Margar skemmtilegar tilraunir hafa verið gerðar með þetta. Fólk, sem talið hefur verið algerlega vonlaust eða óalandi og óferjandi, breytist skyndilega þegar það hittir manneskju sem hefur trú á því og treystir því. Gott dæmi um þetta er í sambandi við kennslu. Ef kennari hefur jákvæðar væntingar til bekkjarins þá er líklegt að allt muni ganga vel. Ef hann hins vegar gengur inn í stofuna í fyrsta skipti með þær væntingar að þetta sé tossabekkur og að þar sitji tómir brjálæðingar þá mun honum ganga illa. Þetta er kallað Spá sem rætist af sjálfu sér.“

Jóhann Ingi segir alla hafa gott af því að efla sjálfstraustið. „Manneskja með gott sjálfstraust á það skilið vegna þess að hún hefur unnið í sínum málum. Manneskja með lítið sjálfstraust á það líka skilið vegna þessa að hún hefur ekki unnið í sínum málum. Það er svo mikilvægt fyrir fólk að vera með sterkan og traustan grunn. Þeir sem eru með gott sjálfstraust eru t.d. mun betur undir það búnir að takast á við áföll í lífinu, eins og t.d. sjúkdóma, dauðsföll eða það að eignast fatlað barn.

Útlit hefur mikið að segja hvað sjálfstraust varðar. Við lítum í spegil á hverjum degi. Sumum finnst þeir of feitir eða ómögulegir á einhvern hátt og þá verður að vinna í því, vegna þess að útlit hefur mikil áhrif á andlega líðan okkar. Þess vegna sendi ég oft fólk sem kemur til mín í líkamsrækt. Holl og góð hreyfing gerir það að verkum að okkur líður betur andlega og líkamlega, við verðum sáttari við okkur sjálf og sjálfstraustið eykst. Heilbrigð sál í hraustum líkama,“ segir Jóhann Ingi að lokum.

Góð sjálfsmynd

 1. Jákvæðni og kann að beita henni.
 2. Traust.
 3. Góð tilfinning fyrir sjálfum sér/ekkert að fela.
 4. Umburðarlyndi.
 5. Gott sjálfstraust.
 6. Þægileg framkoma.
 7. Raunsæi.
 8. Getur myndað sterk tengsl.

Lágt sjálfsmat (hvað einkennir slíkt fólk).

 1. Forðast aðra og felur.
 2. Óöryggi og efasemdir.
 3. Neikvæðni.
 4. Sjálfsmiðun
 5. Viðkvæmni.
 6. Þolir illa gagnrýni.
 7. Tortryggni.
 8. Árásargirni og dómharka.

Heimild: Klifur, fréttablað Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra.
Viðtal: Kristrún M. Heiðberg.

Birt með góðfúslegu leyfi Sjálfsbjargar