Sink

Almennt um sink

Vítamín og sameindir eru settar saman úr fleiri eða færri frumeindum sem bindast hver annarri en sink er frumefni, þ.e. ein frumeind. Þar sem sink má aðeins taka inn í smáskömmtum er það næringarfræðilega flokkað sem snefilefni.

Sink er í öllum frumum líkamans og í öllum líkamsvessum. Í venjulegum manni eru um það bil 2 grömm af sinki. Í beinagrindarvöðvunum eru um það bil 60% af sinkinu og um 30% af því eru í beinendunum.

Mjög mikið sink er í blöðruhálskirtli og í æðahimnu augans.

Hvernig nýtir líkaminn sink?

Sink er eitt aðalefnið í meira en 200 ensímum líkamans og binst m.a. við kolvetni, prótein og fitu. Sink hefur góð áhrif á arfgerð frumna og þá frumuveggi sem umlykja allar frumur líkamans. Sink binst ensímum sem eiga þátt í að lesa úr og túlka erfðaefnin en þau eru ekki eins í neinum tveimur mönnum. Sink er því mikilvægt við myndun og vöxt vefja og líffæra. Rannsóknir á börnum með meðfædda galla í sinkbúskap líkamans og tilraunir með áunninn sinkskort sýna að sink er líka mikilvægt fyrir ónæmiskerfið, bragðskyn og búskap A-vítamíns, fólinsýru og alkóhóls. Eitrunar verður þó aðeins vart hjá þeim sem hafa tekið sink í grammatali. Aukaskammtur af sinki hefur græðandi áhrif á sár

Í hvaða mat er sink?

Sink finnst í kjöti, osti, mjólk og grófu korni. Þarmarnir taka ekki upp nema 10-30 prósent af því sinki sem neytt er og því verður að neyta meira en tapinu nemur. Upptaka sinks í þörmunum veltur á þeirri fæðu sem neytt er. Upptakan verður meiri ef sinks er neytt með dýrapróteinum. Dýraprótein eru prótein úr kjöti og fiski. Þeir sem ekki borða kjöt þurfa 25% meira af sinki. Upptaka sinks fer aðallega fram í smágirni.

Hvað má taka mikið af sinki?

Ráðlagður dagskammtur af sinki er 9 milligrömm fyrir karla og 7 milligrömm fyrir konur. Meðaldagskammtur af sinki er 14 milligrömm hjá körlum og 11 milligrömm hjá konum. Sinkþörfin er helmingi meiri en venjulega á gelgjuskeiðinu, á meðgöngutíma og eftir veikindi.

Hvernig lýsir sinkskortur sér?

Langvarandi sinkskortur hefur í för með sér:

 • minni vöxt
 • seinkun á kynþroska (eggjastokkar og eistu þroskast seint)
 • hárlos
 • breytingar á húð (rauð, hreistruð útbrot og hrúðurmyndun í efsta lagi húðarinnar)
 • exem í kringum líkamsop
 • sár gróa seint
 • minnkandi matarlyst
 • andleg truflun, einkum sinnuleysi.
 • einkenni í þörmum og veiklað ónæmiskerfi.

Acrodermatitis enteropathica er arfgengur sjúkdómur sem talinn er stafa af því að líkaminn tekur ekki upp sink úr fæðunni eða nær ekki að nýta sér það.

Hvað eykur hættuna á sinkskorti?

Sinkskortur verður helst vegna veikinda sem auka úthreinsun sinks úr líkamanum. Aukin úthreinsun nýrnanna getur t.d. verið vegna:

 • áfengissýki
 • lifrarsjúkdómasykursýki þar sem blóðsykri er illa stjórnað
 • einhæfs mataræðis
 • elli
 • lyfja af thíazíð gerð
 • notkunar þvagræsilyfja
 • langtímanotkunar fúkkalyfja.

Hvernig er ráðin bót á sinkskorti?

Ef grunur leikur á sinkskorti þarf að snæða sinkríkan mat. Bætiefni með sinki, önnur en þau sem eru í venjulegri vítamíntöflu, ætti að taka þegar heimilislæknirinn hefur uppgötvað sinkskort.

Þessi meðferð er nauðsynleg:

 • við sjúkdómnum acrodermatitis enteropathica (sjá að framan)
 • þegar hætta er á sinkskorti hjá sjúklingum með langvinna áfengissýki
 • við stöðugum verkjum í lifur og nýrum
 • vegna galla við upptöku sinks.
 • stundum gagnast þessi meðferð líka á legusár og útbreiddar bólur (acne)

Sinkgjöf hefur einnig komið að gagni við að græða sár á fótum sjúklinga sem þjást af sinkskorti.

Hvernig lýsir of mikið sink sér?

Aukaverkanir vegna sinkgjafa eru fátíðar en stundum valda þær óþægindum í þörmum.

Of mikil sinkneysla hefur neikvæð áhrif á efnaskipti kopars og vart hefur orðið við neikvæð áhrif á ónæmiskerfið og blóðfitu. Einkennin eru þá uppsölur, niðurgangur, minnkandi meðvitund og syfja. En einnig blóðleysi, of mikið blóðsykurmagn og lifrar- og nýrnaskemmdir.

Má taka inn önnur bætiefni?

Langvarandi sinkgjöf kann að minnka upptöku líkamans á kopar og upp geta komið einkenni koparskorts. Langvarandi sinkgjöf gæti líka heft upptöku líkamans á járni.