Sígella

Fjórar tegundir Shigella eru til, S.dysenteriae, S. flexneriS.boydii og S.sonnei. Sjúkdómsfelli af völdum Shigella greinast afar sjaldan hérlendis og eru þá ávallt í tenglsum við ferðalög erlendis. Tíðni sýkinga á vesturlöndum er almennt lág, en Shigella sýkingar eru mun stærra vandamál í þróunarlöndunum og leiðir þar árlega til dauða mörg hundruð þúsund barna. Sýkingin er einna helst vandamál þar sem mannmergð er mikil og hreinlæti er ábótavant. S.dysenteriae er algengast sýkingin í þróunarlöndunum en S.sonnei er algengari á vesturlöndum. Smitskammtur, þ.e. fjöldi baktería sem viðkomandi þarf að fá í sig, til að sýking geti orðið, er lítill eða einungis 10–100 bakteríur. Meðgöngutími sýkingar, þ.e. tími frá smiti þar til einkenna verður vart, er 1-3 dagar í flestum tilfellum, en getur verið frá ½–4 sólarhringum. Bakterían hverfur oftast úr hægðunum án meðferðar á 1–4 vikum.

Smitleiðir
Vegna þess hve smitskammtur er lítill berst smitið auðveldlega beint manna á milli. Ef handþvottar er ófullnægjandi situr bakterían eftir á höndum og undir nöglum og berst þannig áframt til annarra. Algengast er um beint smit innan fjölskyldu, á leikskólum, milli samkynhneigðra karla og á stofnunum fyrir andlega sjúka. Einnig getur sýkingin breiðst út í yfirfullum flóttamannabúðum og fangelsum. Sýkillinnn getur einnig borist frá smitandi einstaklingum í vatn og mat og er þá útbreiðslan mun meiri en við beint smit. Í þróunarlöndunum eru vatns– og matarbornar sýkingar stærra vandmál en í hinum vestræna heimi. Mengun á vatni verður þá oftast þegar hreinlæti umhverfis vatnsból er ábótavant og saur berst í vatnið. Mengun á matvælum kemur ýmist frá höndum sýkts einstaklings eða við skolun t.d. grænmetis með menguðu vatni.

Einkenni
Niðurgangur sem oft er blóðugur og slímugur, kviðverkir, ógleði, uppköst og hiti, sem gengur í flestum tilfellum yfir á  7 dögum. Töluvert vökvatap með hægðum og uppköstum getur leitt til alvarlegs vökvaskorts.

Fylgikvillar
Fylgikvillar sem eru fremur sjaldséðir eru m.a. alvarlegur vökvaskortur og blóðsýking. Sumir stofnar framleiða eiturefni (toxín) sem getur leitt til nýrnabilunar.

Greining
Saursýni í ræktun.

Meðferð
Þegar kunnungt er um Shigella sýkingu ber að meðhöndla með sýklalyfjum, en meðferðin dregur bæði úr einkennum og styttir tímann sem viðkomandi er smitberi og minnkar hættu á smiti til annarra.

Forvarnir
Góður handþvottur er ávallt mikilvægur og fólk sem vinnur við matvælaframleiðslu ber að vera frá vinnu þar til eftirlitsræktanir hafa verið teknar og staðfestar neikvæðar.
Bóluefni gegn Shigella er ekki til.
Shigella sýking er lögum samkvæmt tilkynningaskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.

Tölulegar upplýsingar um Shigella sýkingar á Íslandi:

Þessi grein er fengin af vef Landlæknisembættisins