Siðferðisleg atriði skyndihjálpar

Siðferðisleg atriði skyndihjálpar snerta alla sem veita skyndihjálp.

Samþykki
Áður en skyndihjálp er veitt verður að afla samþykkis þ.e. ef sá sem er hjálpar þurfi er með meðvitund og andlega fær um að taka rökréttar ákvarðanir.

Sá sem veitir skyndihjálpina þarf auk þess að:
• Segja til nafns
• Taka fram að hann hafi þjálfun í skyndihjálp
• Skýra jafn óðum út hvað hann hyggst gera og fá samþykki fyrir þeim aðgerðum

Ætlað samþykki
Ætlað samþykki snertir meðvitundarlaust fólk í lífshættulegum aðstæðum. Gera á ráð fyrir því að meðvitundarlaust fólk samþykki aðgerðir til bjargar lífi sínu. Ef skyndihjálp er hafin og viðkomandi mótmælir henni ekki er líka um ætlað samþykki að ræða.

Sé barn í lífshættu og foreldri þess eða lögráðamaður ekki á staðnum til að veita samþykki ber að veita barninu skyndihjálp.

Fráhvarf
Fráhvarf merkir það að hætta aðstoð við sjúka eða særða án þess að tryggja þeim áframhaldandi jafngóða eða betri aðstoð.

Í neyðartilviki má ekki yfirgefa fólk sem þarfnast skyndihjálpar fyrr en einhver til þess hæfur og þjálfaður hefur tekið við.

Skylda til aðgerða
Það er borgaraleg skylda hvers og eins að reyna að bjarga mannslífi eða lina augljósar þjáningar:
• Þegar starfið krefst þess. Hafi vinnuveitandi þinn falið þér að veita skyndihjálp og þú ert kvaddur á slysstað.
• Þegar fyrir hendi er ríkjandi skylda. Tengsl fólks skapa ábyrgð til dæmis foreldri gagnvart barni sínu eða ökumaður gagnvart farþega sínum.

Skyldu brugðist
Almennt talað bregst sá skyldu sinni sem ekki veitir nauðstöddu fólki alla þá aðstoð sem hann getur veitt.

Hægt er að bregðast skyldu sinni með tvennum hætti: Annars vegar með vanrækslu þ.e. sinna ekki þeim sem eru hjálpar þurfi og hinsvegar með of mikilli aðstoð miðað við kunnáttu og færni þ.e. gera eitthvað sem þú hefur ekki þekkingu til að framkvæma.

Lög um samhjálp
Í íslenskum hegningarlögum (19/1940) 221. gr. kemur fram að draga megi til saka hvern þann sem ekki kemur nauðstöddum til hjálpar ef hann getur án þess að stofna lífi sínu eða annarra í hættu.

Til eru sérstök lög um aðgerðir á almannavarnatímum nr. 94/1962 þar sem 10. gr. reglugerðar nr. 107/1969 er svohljóðandi: Það er borgaraleg skylda þeirra, sem eru á aldrinum 18-65 ára, að gegna, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi, þar sem þeir dveljast, samkvæmt fyrirmælum, er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar. Ákvörðun lögreglustjóra má skjóta til dómsmálaráðherra.
 

Kveða má þá, sem eru á aldrinum 16-18 ára eða yfir 65 ára, til starfa, ef þeir óska þess sjálfir. Enginn má á neinn hátt hindra það, að maður gegni starfi í þágu almannavarna.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands