Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Eitt af því sem einkennir hamingjusamt fólk er að það telur sig hafa náð markmiðum í lífinu sem skipta máli. Þeir sem setja sér markmið og stefna að þeim ná yfirleitt lengra en hinir sem ekki hafa ákveðna stefnu. Að ná settu markmiði getur verið mjög ánægjulegt, styrkjandi og hvetjandi til að halda áfram.

Markmiðin geta verið margs konar bæði til skamms eða lengri tíma og með mismunandi vægi. Það getur verið gott að setja sér markmið um að láta drauma sína rætast. Við eigum okkur öll einhverja drauma bæði litla drauma, eins og það að langa til að hitta einhvern ákveðinn á morgun, og svo stærri drauma um það hvað við viljum gera í lífinu og allt þar á milli.

Margir eiga sér drauma sem þeir geyma í minningunni og telja sér trú um að þeir geti aldrei ræst og aðrir að það sé bara fyrir fáa útvalda að láta drauma sína rætast. Það er alveg ljóst að draumarnir rætast ekki ef við gerum ekkert í því. Hver og einn ætti að dusta rykið af sínum draumum og skoða hvað hann þurfi að gera til að láta þá rætast. Til þess að draumar okkar rætist verðum við að trúa því sjálf að þeir geti ræst, stefna að því á hæfilega raunsæjan hátt og þá getur allt gerst.

Það er aldrei of seint að láta drauma sína rætast, hvort sem það er um að fara aftur í skóla, læra framandi tungumál eða búa í öðru landi. Sumir gera allt þetta í einu.  Kona nokkur sem ég þekki flutti til Frakklands eftir að börnin hennar voru uppkomin og lærði frönsku. Þannig lét hún sína drauma rætast.

Settu þér það markmið að láta drauma þína rætast. En ekki gleyma því, að það má skipta um draum og setja sér ný markmið. Með tímanum breytast langanir okkar og þrár, það sem við þráðum í gær þarf ekki að vera það sama og við þráum á morgun. Það eitt að stefna að einhverju hvetur okkur áfram og gefur okkur styrk. Við ættum öll að setja okkur það markmið að verða hamingjusöm og vinna að því alla ævi. Oft skyggir á og hamingjan virðist vera víðs fjarri en flest höfum við þá mikið með það að segja hvort við náum að finna hamingjuna aftur ef við þorum að takast á við vandamálin og erfiðleikana á jákvæðan hátt.

Að fylgja geðorðunum getur verið góð leið til að ná því markmiði.