Sértækar svefntruflanir

Fyrirspurnir:

Í Faðir minn gengur í svefni, er það hættulegt?

Af hverju gengur fólk í svefni með augun starandi opin?

Af hverju ganga börn frekar í svefni en fullorðnir?

Er hættulegt að ganga í svefni?

Eru til lyf við því að ganga í svefni – er um svefntruflanir að ræða – etv. sjúkdóm?

Fyrirspurnir á borð við þessar eru mjög algengar þegar spurt er um sérstakar svefntruflanir og eru svörin við þeim hér neðst.

Svör og umræða:

Þær svefntruflanir sem minnst er á í fyrirspurnunum eru venjulega kallaðar Parasomniur eða samkvæmt hinni alþjóðlegu flokkun svefntruflana, sérstakar svefntruflanir. Þessar truflanir eru flestar hverjar fremur fátíðar og nærri allar ekki alvarlegar. Margar þeirra eru einkennandi fyrir börn og unglinga og eldast af þeim venjulega. Verður hér á eftir mjög stuttlega farið yfir helstu flokka svefntruflana af þessu tagi.

Hin alþjóðlega flokkun á svefntruflunum (The International Classification of Sleep Disorders,1990) skiptir svefntruflunum í nokkra meginflokka sem sjá má í töflunni hér á eftir.

1. Alvarlegar svefntruflanir(Dyssomnias) 2. Sérstakar svefntruflanir (Parasomnias) 3. Svefntruflanir tengdar líkamlegum/geðrænum sjúkdómum
A. Svefnkvillar af innri orsökum A. Uppvaknanir A. Tengdar geðsjúkdómum
B. Svefnkvillar af ytri orsökum B. Truflanir á mörkum B. Tengdar taugasjúkdómum
C. Truflanir á svefn/vökutakti C. Truflanir tengdar REM svefni C. Tengdar öðrum sjúkdómum
 • Sérstakar svefntruflanir (parasomnias)
 • Undir þennan flokk svefntruflana falla fyrirbæri sem eru ekki óeðlilegur svefn í sjálfu sér, en eru óæskileg fyrirbæri sem eiga sér stað í svefni. Þetta eru kvillar sem einkennast af uppvöknunum, algerlega eða að hluta til og af ákveðnum tegundum breytinga á svefnskipulagi og svefnstigum. Margar þessara truflana eru vegna einhverrar vikjunar eða örvunar miðtaugakerfisins. Virkni sjálfvirka taugakerfisins og ýmsar ósjálfráðar vöðvahreyfingar og breytingar einkenna þessar truflanir. Þeim er skipt í uppvaknanir/örvun, truflanir á mörkum svefns og vöku og truflanir tengdar REM svefni.

  A. Uppvaknanir/örvun í svefni

  Þessar truflanir einkennast af því að um er að ræða léttingu svefns eða uppvaknanir, oftast úr djúpum svefni (svefnstigum 3 eða 4).

  • Uppvöknun með óráði: Þetta er það ástand sem flestir kannast við og kalla að vera svefndrukkinn. Einstaklingur sem vaknar þannig, er venjulega hálfruglaður, er ekki viss um að hann sé vaknaður og seinn til svara og verka. Hann getur ruglast á hlutum og fólki og man oft síðar lítið af því sem gerðist. Þetta ástand getur varað allt frá nokkrum mínútum til nokkurra klukkustunda í verstu tilvikum. Mjög algengt hjá ungum börnum og eldist venjulega af þeim.
  • Svefnganga: Viðkomandi gengur í svefni, talar eða framkvæmir aðra oft flókna hegðun. Venjulega endar slíkt á því að hann vaknar og er þá oft illa áttaður og man síðar ekkert af því sem gerðist þegar svefngangan átti sér stað. Á sér oftast stað á fyrsta þriðjungi nætur þegar mestur djúpsvefn er í gangi. Tal upp úr svefni á sér sömu rætur. Mjög algengt hjá börnum en hverfur venjulega sjálfkrafa á táningsárunum.
  • Næturhræðsla: Einkennist af skyndilegri uppvöknum úr dýpsta svefni, oft með miklum óhljóðum og ópum og öllum einkennum mikillar hræðslu eða skelfingar. Einstaklingurinn veit venjulega ekki af umhverfi sínu og er oft mjög ruglaður ef hann vaknar. Venjulega man fólk ekki eftir slíkum atburðum, þó í fáum tilvikum muni viðkomandi eftir skelfilegum draumum.

  B. Truflanir á mörkum svefns og vöku

  Þessar truflanir eiga sér stað þegar einstaklingurinn er að færast úr svefni í vöku eða öfugt. Allar þessar truflanir geta komið fyrir hjá heilbrigðu fólki og eru því í sjálfu sér ekki sjúkdómar eða kvillar, en tíðni þeirra getur orðið það mikil að af verði vandamál fyrir einstaklinginn, annað hvort í formi félagslegs vanda, eða vegna verkja, kvíða eða truflunar fyrir aðra.

  • Taktfastar hreyfingar tengdar svefni: Um er að ræða taktfastar hreyfingar höfuðs, útlima eða annarra líkamshluta sem koma fyrir á mörkum svefns og vöku, venjulega rétt áður en viðkomandi sofnar og halda áfram inn á fyrsta stig svefnsins. Algengasta tegund hreyfinga af þessu tagi eru höfuðhreyfingar hjá börnum, sem í sumum tilvikum geta verið allsnarpar og jafnvel þannig að barnið berji höfðinu í vegg eða aðra harða hluti. Venjulega er um að ræða algerlega heilbrigða einstaklinga. Algengara hjá drengjum en stúlkum.
  • Svefnkippir: Skyndilegir kippir í fótum, höndum eða öllum líkamanum sem koma fyrir um það bil sem einstaklingurinn sofnar. Í nærri öllum tilvikum algerlega eðlilegt fyrirbæri. Getur tengst þreytu, streitu og í sumum tilvikum fylgir þessu tilfinning um að viðkomandi sé að detta eða draumur og/eða ofskynjun. Ekki óeðlilegt fyrirbæri og nærri aldrei merki um undirliggjandi kvilla eða sjúkdóm. Getur í undantekningartilvikum leitt vil vandkvæða við að sofna.
  • Svefntal: Tal upp úr svefni eða framköllun ýmissa hljóða. Oft óskiljanlegt muldur eða undarleg hljóð. Er venjulega stutt, kemur sjaldan fyrir og hefur litla merkingu, sérstaklega hjá börnum þar sem fyrirbærið er mjög algengt.
  • Krampar í fótum að næturlagi: Kvalafull tilfinning um vöðvaspennu eða krampa, venjulega í kálfunum, en stundum í rist eða il. Stendur venjulega stutt en getur í undantekningartilvikum varað lengur. Venjulega ótengt öðrum svefntruflunum.

  C. Truflanir tengdar REM svefni

  Þessar sérstöku svefntruflanir eru allar tengdar REM eða draumsvefni á einn eða annan hátt. Þær eru flokkaðar saman vegna þess að mögulegt er að hin lífeðlislega stjórnun REM svefns sé á einhvern hátt úr lagi gengin.

  • Martraðir: Hræðsluvekjandi draumar sem venjulega vekja einstaklinginn úr REM svefni. Martröðin er oftast langur flókinn draumur sem verður oft afar hræðsluvekjandi í lokin. Mikilvægt er að greina martraðir af þessu tagi frá næturhræðslu, þar sem venjulega er ekkert draumainnihald til staðar. Kvíði er nærri alltaf til staðar og endist oft nokkurn tíma eftir að vikomandi vaknar.
  • Svefnlömun: Þetta ástand er oft nefnt svefnrofalömun sökum þess að það einkennist af lömunartilfinningu og getuleysi til hreyfinga, annaðhvort við upphaf svefns eða sem algengara er við lok hans, annað hvort undir morgunn eða að næturlagi. Oft upplifir viðkomandi að geta hvorki hreyft legg né lið, en flestir sem þetta upplifa geta þó hreyft augun og eru meðvitaðir um umhverfi sitt. Venjulega er þetta ógnvekjandi upplifun, sérlega ef erfiðleikar við öndun fylgja með, sem stundum gerist. Venjulega stendur þetta ástand í eina til nokkrar mínútur og hverfur sjálfkrafa eða fyrir tilverknað yrti áreita svo sem snertingar, hljóða eða annars.
  • Takmörkuð stinning getnaðarlims: Ástand hjá körlum þar sem eðlileg stinning á sér ekki stað í REM svefni. Oft merki um getuleysi eða vandamál tengd kynlífi. Þarf á læknisskoðun að halda til að útiloka líkamlega sjúkdóma. Mælingar á stinningu í REM svefni eru ein áreiðanlegasta aðferðin til þess að greina getuleysi af líkamlegum orsökum frá getuleysi af sálrænum orsökum. Taka verður tillit til aldurs, þar sem stinning í svefni minnkar með hækkandi aldri.
  • Sársaukafull stinning: Á sér stundum stað hjá körlum í REM svefni, sem vakna þá snögglega og hafa mikla verki. Oft síendurtekið. Getur valdið svefnleysi, pirringi og verulegri dagsyfju.
  • Hjartsláttartruflanir í REM svefni: Lítið þekkt ástand sem kemur fyrir hjá ungu fólki. Hefur hugsanleg áhrif á líðan að deginum og getur verið hættulegt ástand. Þarfnast læknisskoðunar.
  • Hegðunartruflun tengd REM svefni: Ástand sem einkennist af því að hin almenna vöðvaslökun í REM svefni á sér ekki stað. Því er hætta á að einstaklingurinn hreyfi sig mikið þegar hann dreymir, fari úr rúminu, hlaupi, slái o.s.frv í REM svefni. Þetta ástand getur verið hættulegt og leitt til slysa hjá einstaklingnum sjálfum eða rúmfélaga hans. Algengara hjá körlum og orsakir ástandsins eru lítt þekktar.

  Aðrar sérstakar svefntruflanir

  Þessi flokkur sértækra svefntruflana inniheldur þær truflanir sem ekki er hægt að flokka með þeim sem þegar hafa verið nefndar. Gert er ráð fyrir því að þegar þekkingin á þeim eykst, muni þær færast í hina flokkana.

  • Tannagnístur í svefni (sleep bruxism): Síendurtekið tannagnístur eða fast samanbitnir kjálkar í svefni. Veldur oft óþægindum að morgni, skemmdum á tönnum og truflar svefn verulega í verstu tilvikum.
  • Næturþvaglát (sleep enuresis): Þvaglát í svefni sem eru óháð vökvainntöku og án líkamlegra skýringa. Algengast hjá börnum, en óvenjulegt/óeðlilegt eftir 6-7 ára aldur.

  Nokkrar fleiri svefntruflanir falla undir þennan flokk en hér hefur verið minnst á, en þær verða ekki tíundaðar hér þar sem þær eru flestar afar sjaldgæfar.

  En komum aftur að fyrispurnunum.

  Í mörg ár hefur pabbi minn vaknað upp á nóttunni (yfirleitt á sama tíma) og fengið sér að borða. Hann gengur inní eldhús opnar ísskápinn, borðar, gengur frá eftir sig og fer aftur að sofa. Hann man ekki eftir þessu. Er þetta eðlilegt? Ég er hrædd um að hann verði sér að voða því hann virðist ekki vera með meðvitund.

  Hér er um að ræða hegðun sem getur komið fyrir hjá hverjum sem er, þarf alls ekki að vera sjúklegt, en getur vissulega verið hvimleitt og truflandi. Mjög líklegt er að viðkomandi sé þreyttur og að þetta komi fyrir á fyrsta þriðjungi nætur, eða á fyrstu þrem klukkustundunum í svefni.Þar sem um er að ræða truflun á djúpsvefni, þarf ef ástandið er viðvarandi að athuga hvað það er sem er að trufla svefninn, með því að gera svokallaða svefnmælingu. Jafnframt þarf að útiloka að um sé að ræða flogaveiki, en slíkt ástand getur verið ástæðan í undantekningartilvikum. Ef minnsti grunur leynist um slíkt þarf viðkomandi að leita læknis. Jafnframt þarf viðkomandi að athuga alla þá þætti í lífi sínu sem hugsanlega geta tengst ástandinu, (þreyta, álag, streita o.s.frv.) og reyna að minnka þá eða fjarlægja, ásamt því að reyna að hafa svefnvenjur eins reglulegar og kostur er. Lyfjameðferð er möguleg og eru þá oftast gefin róandi lyf. Þessi kostur er þó varasamur þar sem slík lyf hafa áhrif á svefninn sjálfan og geta létt hann og minnkað gæði hans. Ef þessi kokstur er valinn, þarf að fara mjög gætilega og í fullu samráði við lækni, sérstaklega varðandi það hvernig lyfjameðferðinni er hætt.

  Af hverju gengur fólk í svefni með augun starandi opin?

  Svefnganga er vissulega óvenjulegt ástand, sem á margan hátt líkist dáleiðsluástandi. Það er staðreynd að þó svo meðvitund manna sem ganga í svefni sé ekki tengd, ef svo má segja, virðast skynfærin og úrvinnsla þeirra skynboða sem frá þeim berast, virka eðlilega. Það væri raunar verulega hættulegt ef fólk gengi í svefni með lokuð augu og myndi leiða til slysa að öllum líkindum. Vitað er að þegar við sofum er heyrnin og úrvinnsla heyrnarboðanna í fullum gangi og í raun gildir hið sama um sjónina, þ.e. ef svefninn léttist það mikið að augun opnast en viðkomandi vaknar ekki. Eins og áður sagði gerist þetta einungis í djúpum svefni.

  Af hverju ganga börn frekar í svefni en fullorðnir?

  Þetta hefur oftast verið tengt þeirri staðreynd að hjá börnum er hlutfall djúps svefns mum hærra en hjá fullorðnum og þar sem svefnganga á sér stað í djúpum svefni, eru þannig meiri líkur á henni hjá börnum en fullorðnum, einfaldlega vegna þess að þau fá lengri djúpsvefn og hugsanlegar dýpri en fullorðnir. Einnig hafa menn getið sér til um að hugsanlega tengist þetta þroska taugakerfisins, þar sem svefnganga og ámóta ástand eldist venjulega af fólki.

  Er hættulegt að ganga í svefni?

  Í sjálfu sér er ekki hættulegt fyrir einstaklinginn að ganga í svefni, og engar rannsóknir benda til þess að hér sé um sjúkdóm eða sjúklegt ástand að ræða. Eina hættan við að ganga í svefni, er að viðkomandi slasi sig, detti um hluti, eða fari sér á annan hátt að voða. Því þarf að ganga úr skugga um að umhverfi þeirra sem hafa tilhneigingu til svefngöngu sé öruggt.

  Eru til lyf við því að ganga í svefni? Er um svefntruflanir að ræða – e.t.v. sjúkdóm?

  Svefnganga er vissulega svefntruflun, eins og áður sagði, truflun á djúpum svefni. Lyf sem stundum eru notuð eru svokölluð róandi lyf, en í sumum tilvikum eru notuð geðdeyfðarlyf. Öll þessi lyf geta haft áhrif á þetta ástand, en þau ætti einungis að nota undir mjög nánu eftirliti læknis og taka ber þá tillit til þess að þau geta haft aukaverkanir og að þau geta haft önnur miður æskileg áhrif á svefninn. Oftast er svefnganga meinlaus og ekki merki um sjúkdóma eða annað óeðlilegt ástand. Því er oftast hægt að ráða bót á henni, með öðrum aðferðum.