Selen


Almennt um selen

Vítamín og sameindir eru settar saman úr frumeindum sem bindast hver annarri en selen er frumefni, þ.e. ein einstök frumeind.

Selen er skylt brennisteini og getur því komið í stað hans í mörgum próteinsamböndum.

Í þeim mat þar sem selen hefur komið í stað brennisteins, svokallað lífrænt selen, er sú tegund af seleni sem líkaminn á best með að taka upp.

Hvernig notar líkaminn sér selen?

Ekki er margt vitað um virkni selens í líkamanum en samt er vitað að það binst ensími sem bætir niðurbrot úrgangsefnis sem heitir vetnisperoxíð og verður til þegar frumurnar vinna orku úr súrefni og fæðu.

Nýlega hefur einnig komið fram að selen er hluti af öðru ensími sem örvar myndun mikilvægs hormóns, þríjoðþýróníns (T3), sem myndast í skjaldkirtlinum. Þríjoðþýrónín er mikilvægt fyrir efnaskipti og fleira.

Selen fyrirfinnst í öllum frumum líkamans og er samanlagt 10-15 millgrömm. Helmingur af öllu seleni í líkamanum er í vöðvamassanum.

Mest er af seleni í lifur og nýrum. Ef neytt er mikils selens safnast umframmagnið fyrir, aðallega í lifur og nýrum.

Í hvaða mat er selen?

Selen er aðallega í kjötmeti, einkum lifur og nýrum og líka í fiski, skelfiski, mjólk, osti og eggjum.

Hvað má taka mikið af seleni?

Ráðlegur dagskammtur er:

50 míkrógrömm (míkrógramm=einn milljónasti af grammi) fyrir karla og 40 míkrógrömm fyrir kvenfólk.

Meðaldagskammtur af seleni er 47 míkrógrömm hjá körlum og 38 míkrógrömm hjá konum.

Hvernig lýsir selenskortur sér?

Það er ekki vitað með vissu hve þörfin fyrir selen er mikil. Einkenni selenskorts sjást ekki greinilega fyrr en dagskammturinn fer undir 10 míkrógrömm. Það samsvarar einum fjórða af ráðlegum dagskammti fyrir konur.

Einkenna selenskorts hefur þó aldrei orðið vart ef neytt er 20 míkrógramma á dag eða meira (þ.e.a.s. helmings af ráðlegum skammti fyrir konur).

Fátíðir sjúkdómar af völdum efnaskorts

Sums staðar í Kína, þar sem lítið er um selen í jörðu, örlar á fátíðum sjúkdómi, Keshans-veiki, hjá börnum og konum á barneignaraldri. Keshans-veikin veldur sjúkdómi í hjartavöðvunum. Í Kína var sjúkdómnum útrýmt með því að gefa fólkinu selen.

Kashin-Becks

veikina má rekja til þess að saman fara joð- og selenskortur. Veikin afmyndar liðamót og aðliggjandi bein.

  • Í tilraunum með grísi og kjúklinga kom í ljós að selenskortur olli lifrarskaða og afmyndaði vöðva og liðamót. Sjúkdómseinkennin fara eftir dýrategundum og koma oftast fram í sambandi við skort á E-vítamíni.
  • Tveir síðastnefndu sjúkdómarnir gera þó eingöngu vart við sig ef maður fær veirusýkingu, verður útsettur fyrir sveppaeitri eða líður skort á öðrum steinefnum. Hvorugs sjúkdómsins hefur orðið vart á Vesturlöndum.
  • Undanfarin ár hafa komið fram vaxandi vísbendingar um að of lítil neysla selens geti með öðru valdið krabbameini. Ekki hafa þó verið færðar neinar sönnur á það að stórir skammtar af seleni í fæðunni geti minnkað hættuna á krabbameini.

Hvernig er ráðin bót á selenskorti?

Bætt er úr selenskorti með því að bæta við seleni, þó ekki meir en 200 míkrógrömmum á dag (þ.e. 4-5 sinnum meira en ráðlögðum dagskammti).

Hvernig lýsir of mikið selenmagn sér?

Of mikil neysla selens getur gefið málmbragð í munninn og andardrátturinn lyktað af hvítlauk.

Langvarandi seleneitrun veldur hárlosi og breytingum á nöglum. Einnig getur það valdið breytingum á húð, roða og blöðrum. Önnur einkenni eru bilun í taugakerfi og lömun að fullu eða einhverju leyti.