Sefandi lyf – Geðklofalyf

IV. Sefandi lyf – Geðklofalyf

Fjórði flokkur slævandi lyfja er sefandi lyf. Sefandi verkun eða sefun er hér skilgreind sem dempun eða mildun afbrigðilegra hugsana, hegðunar, skynjana eða athafna, sem oft eru einkennandi fyrir alvarlega geðveiki eins og t.d. geðklofa og oflæti. Notkun sefandi lyfja er oftast bundin við fólk sem haldið er ofangreindum geðsjúkdómum og þau hafa skipt sköpum fyrir meðferð þeirra og árangur af henni. Þessi lyf nefnast nú oftar geðklofalyf.

Geðklofi er tiltölulega algengur sjúkdómur sem að jafnaði kemur fram um það leyti sem fólk nær fullorðinsaldri. Geðklofa fylgir oftast rýrnun á heilaberki og tilhneiging til þess að fá geðklofa er að hluta til arfbundin. Algengi sjúkdómsins er oftast á bilinu 0,5-1% og virðist vera um það bil hið sama um víða veröld. Helstu einkenni eru truflað veruleikaskyn, ranghugmyndir og innilokun í eigin heimi hugsana og hugmynda. Þessi einkenni geta blandast í sama sjúklingi. Ef fyrri einkennin tvö eru ríkjandi með eða án rangskynjana eru sjúklingar oft órólegir eða jafnvel haldnir árásarkennd. Þessi einkenni kallast oft jákvæð einkenni um geðklofa. Síðasttöldu einkennin minna á stjarfa og eru kölluð neikvæð einkenni um geðklofa. Geðklofalyf vinna að jafnaði betur á jákvæðum einkennum en neikvæðum einkennum geðklofa. Geðklofi byrjar ekki sjaldan fyrr í körlum en konum og leikur þá oft verr en konur.

Dæmigert lyf í þessum flokki er klórprómazín. Það er jafnframt elsta lyfið í þessum flokki (notað frá 1952). Rannsóknir á dýrum benda til þess að klórprómazín verki á fjölda líffæra og hafi hamlandi verkun á viðtæki margra boðefna bæði í miðtaugakerfinu og í úttaugakerfinu. Hjáverkanir klórprómazíns og klórprómazínlíkra lyfja eru fjölmargar. Langalvarlegastar eru Parkinsonslíkar hreyfingatruflanir, sem eru mestar í upphafi meðferðar en minnka þegar á líður. Banvænar eitranir af völdum þessara lyfja eru mjög sjaldgæfar og koma helst fyrir hjá börnum. Ávani og fíkn er óþekkt eftir töku sefandi lyfja og tilraunadýr virðast forðast þau. Þol er þekkt gegn sumum hjáverkunum og fráhvarfseinkenni eru nokkur (sjá töflu 5). Athyglisvert er hve verkun þessara lyfja er síðkomin.

Verkun sefandi lyfja á geðklofa tengist hömlun á viðtækjum boðefnisins dópamíns. Það er því skiljanlegt að lyf þessi kunni jafnframt að valda Parkinsonslíkum hreyfingatruflunum (sjá mynd 4 og töflu 5). Klózapín kemur hins vegar að gagni við geðklofa án þess að valda marktækt þessum hjáverkunum. Klózapín kemur einnig að haldi við þau afbrigði af geðklofa þar sem stjarfi eða innilokun í eigin heimi hugmynda eru áberandi og tekur öðrum geðklofalyfjum fram í því efni.

Meðal nýlegra lyfja í þessum flokki má nefna risperídón og ólanzapín sem bæði eru vel virk, en valda fremur sjaldan Parkinsonslíkum hreyfingatruflunum.

Birt með góðfúslegu leyfi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum