Sefandi geðlyf

Sefandi geðlyf

Með heitinu sefandi geðlyf er hér átt við þá tegund lyfja sem á erlendum málum eru kölluð neuroleptika. Þau hafa áhrif á ýmis einkenni geðklofasýki, ranghugmyndir og ofskynjanir og brenglaðan hugsanagang, auk ýmissa annarra verkana. Fyrsta lyfið af þessum flokki var klórprómazín sem olli byltingu í geðlækningum upp úr 1950.

Á síðustu árum hafa komið fram ný lyf í þessum flokki sem geta aukið batahorfur og bætt líðan þeirra sem þjást af þessum einkennum. Eldri sefandi lyf höfðu töluverðar aukaverkanir sem nýrri lyfin hafa í minna mæli. Fyrsta lyfið af hinni nýju kynslóð var lyfið Leponex sem kom fram fyrir rúmum tveimur áratugum en var lítið notað vegna þess að það gat í einstaka tilfellum valdið hættulegri fækkun hvítra blóðkorna. Því þurfti með reglulegum blóðprufum að fylgjast vel með blóðhag þeirra sem lyfið tóku. Undanfarin ár hefur þetta lyf verið meira notað þar sem það hefur reynst ákaflega gagnlegt. Jafnframt hafa nýlega komið fram lyf með svipaða verkun og Leponex en virðast ekki hafa aukaverkanir á blóðfrumur. Þessi nýju lyf eru margfalt dýrari en eldri lyf en ávinningurinn af notkun þeirra er umtalsverður fyrir suma þessara sjúklinga. Eldri lyf halda þó gildi sínu, einkum hjá þeim sem hafa tekið þau lengi með góðum árangri.

Ekki er að fullu skýrt hvernig þessi lyf verka í heilanum, en vitað er að þau hamla verkun boðefna sem flytja boð frá einni taug til annarrar og verka einkum á þær taugar sem hafa boðefnið dópamín. Nýrri lyfin hafa einnig verkun á serótonín. Eldri sefandi geðlyfin verka á mörgum stöðum í heilanum samtímis og af því stafar meðal annars fjöldi aukaverkana þeirra.

Ein algengasta aukaverkun sefandi geðlyfja, einkum þeirra eldri, er skjálfti sem líkist Parkinsonssjúkdómi og má skýra sem skort á dópamínverkun í vissum hreyfistöðvum heilans. Mörg þessara lyfja hafa einnig slævandi og svæfandi verkun en það er talið stafa af áhrifum á önnur boðefnakerfi. Eitt af hlutverkum boðefnisins dópamíns er að draga úr framleiðslu mjólkurhormóns og skýrir það hvers vegna þessi lyf geta aukið svo framleiðslu mjólkurhormóns að mjólk fari að myndast í brjóstum. Verkun þessara lyfja er eingöngu sú að draga úr einkennum geðsjúkdóma en þau lækna ekki sjúkdóminn nema að því marki að gera einstaklingnum kleift að ná fótfestu í lífinu á meðan sjúkdómurinn er að ganga yfir. Í mörgum tilfellum ganga einkenni þessara sjúkdóma til baka af sjálfu sér á nokkrum mánuðum.

Sefandi geðlyf eru notuð við geðklofasjúkdómum af ýmsum gerðum, við ofsóknaræði og rugli sem kann að stafa af utanaðkomandi ástæðum, við æði í sveiflukenndum þunglyndissjúkdómi, við skyndilegum geðrænum einkennum af líkamlegum orsökum svo sem eitrunum, við elliæði og ellirugli.

Aðrir geðsjúkdómar sem stundum eru meðhöndlaðir með þessum lyfjum eru persónuleikatruflanir, einkum þegar um er að ræða spennu og vanlíðan, og við taugaveiklun þegar kvíði er áberandi. Af öðrum notkunarsviðum þessara lyfja má nefna sjúkdóminn Chorea Huntington eða rykkjadans, og ýmsa aðra ofstarfsemi í hreyfikerfi. Þá eru þau stundum notuð við sársauka út frá taugum og mígreni. Þessi lyf má stundum nota til að lækna óstöðvandi hiksta sem ekki tekst að lækna með öðru móti. Einnig verka þau gegn ógleði, en eru gagnlaus til meðhöndlunar á sjóveiki. Þar sem þessi lyf víkka út æðar eru þau stundum notuð í sérstökum tegundum losts.

Skammtar þessara lyfja eru mjög breytilegir eftir tegundum og lyf í þessum flokki hafa mismikla slævandi og róandi verkun. Verkun á geðræn einkenni koma yfirleitt fram eftir eina til tvær vikur og geta varað í nokkra mánuði eftir að lyfjagjöf er hætt. Hin slævandi og róandi verkun lyfjanna kemur hins vegar strax fram, minnkar eftir tveggja til fjögurra vikna notkun og hverfur strax og hætt er að nota lyfið.

Sefandi geðlyf eru sjaldan hættuleg og valda ekki ávana eða fíkn. Í vissum tilfellum, þegar sjúklingurinn er haldinn fleiri sjúkdómum, geta lyfin þó aukið á einkenni. Þetta á t.d. við um gláku, en ef glákan er nægilega vel meðhöndluð er þó venjulega hægt að nota þessi lyf. Fyrstu einkenni gláku eru stundum verkir í augum og ljóskragi eða regnbogi í kringum skært ljós, og ef slík einkenni koma fram er rétt að ráðgast við lækni. Einnig er vitað að þessi lyf geta valdið þvagteppu hjá þeim sem eru með stækkaðan blöðruhálskirtil. Þau geta valdið sólbruna því að húðin verður sérstaklega næm fyrir útfjólubláum geislum. Fólk sem tekur sefandi geðlyf ætti að forðast sterkt sólarljós. Lyfin flýta ekki fyrir því að húðin verði brún í sól.

Hættulegustu aukaverkanirnar við langvarandi notkun sefandi geðlyfja eru svokallaðar tardivar dyskinesíur sem eru ósjálfráðar hreyfingar í andliti, tungu og tyggingarvöðvum. Þessar aukaverkanir ganga ekki alltaf til baka þótt hætt sé að nota lyfið og eru því afar bæklandi fyrir fólk. Einkennin koma sérstaklega fram hjá eldra fólki og eru líklega háðar því að lyfið sé gefið mjög lengi, en allt er á huldu um orsakir þessara einkenna og tengsl þeirra við geðsjúkdóminn sem fyrir er.

Almennt gildir þó að reynt er að nota sefandi geðlyf í eins stuttan tíma og hægt er og eingöngu gegn sjúkdómum sem ekki er hægt að meðhöndla á annan hátt.