Sarklíki

Hvað er sarklíki?

Sarklíki (sarcoidosis) er langvinnur sjúkdómur. Ónæmiskerfið verður fyrir truflun og frumur þess safnast upp í ólíkum líffærum og trufla gerð þeirra og starfsemi. Sjúkdómurinn leggst oftast á lungun en getur komið í öll líffæri. Hann getur birst í ólíkum myndum eftir því á hvaða líffæri hann leggst og einkenni hans því verið mismunandi.

Sjúkdómurinn gengur oft yfir af sjálfu sér en stundum er meðferð nauðsynleg og felst hún þá oftast í töku barkstera.

Hver er orsökin?

Orsökin er óþekkt. Flókin tengsl erfða og umhverfis virðast eiga þar hlut að máli. Fólk með ákveðna vefjaflokkagerð er líklegra til að fá sjúdóminn en utanaðkomandi áreiti þarf þó að koma til. Hvaða áreiti þetta er veit enginn, ýmislegt hefur verið nefnt til sögunnar svo sem bakteríur, veirur, sveppir og ýmsir mengunarþættir en ekkert hefur sannast.

Tíðni sjúkdómsins er um 20 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á alþjóðavísu en sjúkdómurinn er algengari meðal svartra manna en hvítra og tíðni hans því lægri hér á landi. Sjúkdómurinn kemur oftast fram hjá fólki á aldrinum 20-40 ára og er aðeins algengari hjá konum en körlum.

Hver eru einkennin?

Sjúkdómurinn getur komið snögglega en einnig komið fram hægt og sígandi.

Þess eru dæmi að sjúkdómurinn sé einkennalaus en uppgötvist við rannsóknir annarra einkenna. Upphafseinkenni eru oft ósértæk svo sem sótthiti, þreyta og megrun. Einkennin fara einnig eftir þeim líffærum sem sjúkdómurinn leggst á.

Hann kemur fram í lungum í um 90% tilvika og einkenni sem þá geta komið fram eru mæði, þurr hósti og verkur fyrir brjósti.

Önnur algeng líffæri sem sjúkdómurinn leggst á eru húð og koma þá fram einkennandi útbrot, eitlar sem þá geta þreifast stækkaðir og einnig augu sem þá gefa ákveðin einkenni.

Liðverkir geta komi fram og eru þá algengast að verkir komi í hné, ökkla, olnboga, ristar og smáliði handa og fóta.

Hvernig er sjúkdómurinn greindur?

Saga sjúkdómseinkenna og skoðun læknis gefa grunnupplýsingarnar. Þar sem einkennin eru sjaldnast afgerandi fyrir þennan sjúkdóm þarf að greina hann frá öðrum sjúkdómum með svipuð einkenni. Frumur ónæmiskerfisins safnast upp og mynda svokallaða hnúða sem oft er hægt að sjá með myndgreiningu til dæmis röntgenmynd af lungum. Sýni úr þessum hnúðum, eitlum eða húðútbrotum eru yfirleitt nauðsynleg til að greina sjúkdóminn. Rannsaka þarf blóð og þvag til að fá nákvæmari sjúkdómsmynd. Kanna þarf útbreiðslu sjúkdómsins þar sem hann getur lagst á mörg líffæri, meta gang hans og hvort meðferð er líkleg til að skila árangri.

Hver er meðferðin?

Meðferðin fer eftir útbreiðslu og alvarleika sjúkdómsins. Þar sem sjúkdómurinn er vægur er engin sérhæfð meðferð gefin og sjúkdómurinn hverfur af sjálfu sér. Þar sem þörf er talin á meðferð er hún fólgin í lyfjagjöf, oftast barksterum en í völdum tilvikum eru gefin frumudrepandi lyf. Sterarnir eru oftast gefnir í töfluformi en stundum nýtist staðbundin meðferð svo sem við einkennum frá húð eða augum. Bólgueyðandi lyf og þjálfun nýtist sumum sjúklingum sérstaklega þeim sem hafa áberandi einkenni frá stoðkerfi og lungum.

Hverjar eru horfurnar?

Í um 60% tilvika hverfur sjúkdómurinn af sjálfu sér á innan við 2 árum. Sterameðferð læknar hluta sjúklinganna en í um 10-20 % tilvika verður sjúkdómurinn langvinnur og hefur varanleg áhrif á starfsemi þeirra líffæra sem hann leggst á. Horfurnar eru verstar ef sjúkdómurinn leggst á miðtaugakerfið.