Sáraumbúðir og bindi

Sáraumbúðir

Sáraumbúðir og sárabindi eru tvær mismunandi gerðir skyndihjálparbúnaðar. Sáraumbúðir eru notaðar ef stöðva þarf blæðingu úr sárum eða búa um þau. Umbúðunum er ætlað að taka við blóði og vessa og verja sár fyrir hnjaski. Til að hindra að sýking eða óhreinindi berist í sár er æskilegt að búa um það með umbúðum.

Sáraumbúðir eiga helst að vera þurrar og dauðhreinsaðar en ef slíkar umbúðir eru ekki tiltækar má nota hreint taustykki svo sem vasaklút, þvottastykki eða handklæði. Mikilvægt er að umbúðir séu stærri en sárið, þær þurfa auk þess að vera þykkar og eftirgefanlegar svo að þrýstingurinn dreifist jafnt yfir sárið. Þess ber að gæta að umbúðir eiga að vera lausar við ló eða annað sem getur setið fast í sárinu.

Tegundir umbúða
Grisjur: Þær eru notaðar á minni sár. Þær fást sérpakkaðar í ýmsum stærðum (t.d. 5×5 sm og 10×10 sm) og eru dauðhreinsaðar, nema umbúðirnar hafi verið opnaðar. Á sumum grisjum er húð sem hindrar að þær festist í sárinu og þær henta  vel á brunasár og sár sem vessar úr.
Plástrar: Þeir eru notaðir á smáa skurði og skeinur og eru eins konar blanda dauðhreinsaðra umbúða og sárabinda.
Sáraumbúðir: Slíkar umbúðir eru stórar, þykkar, rakadrægar og dauðhreinsaðar. Ef þörf er á stórum umbúðum má nota tíðabindi því þau eru þykk og rakadræg eða barnableiur.

Hvað gerirðu ef búa þarf um sár?
• Sé þess kostur skaltu þvo þér um hendurnar áður en þú meðhöndlar sárið.
• Notaðu umbúðir sem ná út fyrir mörk sársins. Haltu í horn umbúðanna og leggðu þær svo beint á sárið án þess að renna þeim til.
• Settu einhvers konar sárabindi yfir umbúðirnar til að festa þær niður.
 
Varúð: Ekki
• Snerta sárið eða þann hluta umbúðanna sem snertir það.
• Hósta, anda eða tala yfir sárið eða umbúðirnar.
• Nota bómull eða bómullarhnoðra sem sáraumbúðir. Bómullartrefjarnar geta sest í sárið og það getur verið erfitt að fjarlægja þær.
• Fjarlægja blóðugar umbúðir fyrr en blæðing hefur stöðvast. Ef það blæðir í gegnum umbúðirnar leggðu fleiri grisjur ofan á þær sem fyrir eru.
• Rífa upp umbúðir sem fest hafa í sári. Þurfi að fjarlægja umbúðir sem eru fastar í sári á að losa þær úr sárinu með volgu vatni fyrst.

 

Sárabindi

Sáraumbúðir og sárabindi eru tvær mismunandi gerðir skyndihjálparbúnaðar. Sárabindi má nota til að festa umbúðir á sári eða þýsta á umbúðir til að hefta blæðingu. Þau geta einnig hindrað og dregið úr bólgu. Sárabindi geta veitt sködduðum útlimi eða liðamótum stuðning og stöðugleika. Við sáraumbúnað þarf sárabindi ekki að vera dauðhreinsað.

Hvað gerirðu?
• Settu grisju á sárið undir sárabindinu.
• Byrjaðu á að vefja neðan við sárið og upp á við. Ekki vefja sárabindi um hálsinn á fólki vegna kyrkingarhættu.
• Gættu þess að vefja ekki of fast. Ef umbúðirnar verða of þröngar þarftu að losa aðeins um þær.
• Mikilvægt er að ganga frá öllum endum svo þeir krækist ekki í eitthvað.
Þegar vafið er um útlim á ekki að vefja um fingur eða tær nema á þeim séu sár því að gott er að geta horft á fingur og tær til að meta blóðflæði út í útliminn.

Merki um að sárabindi sé of fast vafið
• Bláleitir fingur- eða táneglur.
• Blá eða föl húð.
• Dofi eða skyntap í útlim.
• Kuldi í útlim.
• Skert hreyfigeta í fingrum eða tám.

Gerðir sárabinda
Rúllur: Þær geta verið af ýmsum breiddum, lengdum og efnum. Hvaða breidd er best fer eftir því til hvers á að nota bindið: 2 1⁄2 sm bindi eru góð á fingur, 4 sm sárabindi duga á úlnliði, hendur og fætur, sárabindi sem eru 6 og 8 sm eru góð á ökkla, olnboga og handleggi og 10 sm stór bindi eru best á hné og fætur.
Grisjubindi: Slík bindi eru úr stífri bómull og teygjast ekki. Grisjubindi eru fáanleg í ýmsum breiddum svo sem 4, 6, 8, og 10 sm og eru venjulega þriggja metra löng.
Grisjubindi með teygju: Slík bindi eru rúllur af teygjanlegu, grisjulíku efni í ýmsum breiddum. Teygjaleiki þeirra gerir þau þægilegri í notkun en venjuleg grisjubindi.
Teygjubindi: Nota má teygjubindi af ýmsum breiddum til að halda að tognunum, álagsmeiðslum eða mari. Þau eru sjaldnast notuð yfir umbúðir um sár.
Plástrar: Plástrar eru notaðir á smáskurði og skrapsár og eru eins konar blanda sáraumbúða og sárabindis.
Heftiplástur: Slíkur plástur fæst í rúllum og er til í ýmsum breiddum. Heftiplástur er oft notaður til að halda sárabindi og smærri umbúðum á sínum stað. Fólk sem hefur ofnæmi fyrir heftiplástri getur notað pappírsheftiplástur eða sérstakan ofnæmisprófaðan plástur.
Fatli: Þá má bæði kaupa og búa til úr 90×100 sentimetra bómullarstykki sem klippt er horn í horn þannig að myndist tveir þríhyrningar. Aðeins ein langhlið er á fatla. Hliðin sem er á móti langhliðinni kallast „oddurinn“.

Fatla má nota á tvennan hátt:
• Sundurflettan (ekki samanbrotinn). Þannig hentar hann best fyrir handlegg en sé hann notaður þannig til að halda umbúðum á sínum stað þrýstir hann ekki nægilega á sárið
• Brotinn í þríhyrning. Oddurinn er brotinn að miðju brotsins og síðan einu sinni yfir sig aftur til að mynda I-laga umbúðir. Þær eru til dæmis notaðar til að halda spelkum á sínum stað, þrýsta jafnt á umbúðir eða halda handlegg stöðugum í fatla.

Varúð: Ekki
• Setja sárabindi beint ofan í sár.
• Vefja svo fast að blóðrásin teppist.
• Vefja svo laust að umbúðirnar skríði til.
• Skilja eftir lausa enda. Þeir gætu fest í einhverju.
• Hylja fingur og tær nema á þeim séu sár.
• Setja teygjubindi yfir sár. Hætta er á að það verði vafið of fast.
• Vefja sárabindi um hálsinn á fólki.
• Byrja að vefja sárabindi ofan við sárið.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands