Sár og sárameðferð

Meðferð á slysa- og bráðadeild

 

Meðferðin byggir á:

 

 • Nákvæmum upplýsingum um slysið.

   

 • Líðan hins slasaða.

   

 • Skoðun og mati á áverkanum.

   

 • Almennu heilsufari hins slasaða.

   

Deyfing
Til eru nokkrar aðferðir við deyfingu sára. Algengast er að sprautað sé deyfingu í eða kringum sárið en í sumum tilvikum er notuð deyfing í krem- eða úðaformi.

 

Sárameðferð
Byrjað er á því að hreinsa sárið og er þá ýmist notað kranavatn eða saltvatn. Óhreinindi og aðskotahlutir eru fjarlægðir. Sárið er skoðað og kannað hvort orðið hefur innri skaði. Í slíkum tilvikum getur þurft frekari aðgerðar við. Sum sár eru snyrt áður en þeim er lokað.

 

 Tilgangur sáralokunar:

 

 • Draga úr sýkingarhættu.

   

 • Minnka eða stöðva blæðingu.

   

 • Flýta því að sárið grói.

   

 • Minnka líkurnar á því að ör myndist.

   

Sárum er lokað með saumum, sáraplástrum, sáralími, sárahefti eða umbúðum.

 

Stífkrampabólusetning
Ef sárið er bit af völdum manna eða dýra eða ef jarðvegur eða dýraúrgangur hefur komist í það getur þurft að bólusetja hinn slasaða gegn stífkrampa.

 

Sýklalyf
Það telst til undantekninga að sýklalyf séu gefin sem fyrirbyggjandi meðferð.

 

Verkir
Fyrstu 12 – 24 klukkustundirnar er eðlilegt að finna fyrir sviða í sárinu. Ef blæðir í vefina í kring getur verið þrýstingsverkur í kringum sárið í 1 – 2 sólarhringa.

 

Verkjalyf sem hægt er að fá án lyfseðils í lyfjabúðum má taka í ráðlögðum skömmtum. Verkir eiga að minnka og vera að mestu horfnir eftir 1 – 2 sólarhringa. Aukist þeir er rétt að hafa samband við slysa- og bráðadeild.

 

Umbúðir
Til eru fjölmargar gerðir sáraumbúða.

 

Hlutverk þeirra er að:

 

 • Hlífa sárinu fyrir utanaðkomandi áhrifum.

   

 • Hlífa umhverfinu fyrir blóði og vessa.

   

 • Gefa stuðning með spelkum.

   

 • Skapa þrýsting til að hindra blæðingu.

   

 • Draga til sín blóð og vessa úr sárinu.

   

 • Halda réttu hita- og rakastigi svo að sárið grói.

   

 • Draga úr óþægindum.  

   

Ráðleggingar og eftirlit heima
Sár eru meðhöndluð á misjafnan hátt eftir eðli þeirra, orsökum, staðsetningu, dýpt, innri skaða, læknismeðferð, aldri og almennu heilsufari einstaklingsins. Ráðleggingar eru því mismunandi.  

 

Hreyfing og hollusta
Rétt er að hafa hægt um sig fyrsta sólarhringinn. Almennt hreinlæti, hófleg hreyfing og holl fæða hafa jákvæð áhrif á það hvernig sárin gróa.

 

Umgengi við sár og umbúðir
Mikilvægt er að hugsa vel um umbúðirnar, halda þeim hreinum og skipta um þær samkvæmt ráðleggingum. Ef blæðir eða vessar í gegnum umbúðirnar, þær gegnblotna, eru of þröngar eða of lausar er ráðlegt að hafa samband við slysa- og bráðadeild. Vaxandi verkir, sláttur í sárinu, hiti, roði, bólga eða graftarvessi eru einkenni sýkingar. Ef þessi einkenni koma fram er nauðsynlegt að láta skoða sárið aftur.

 

Saumarnir teknir úr
Saumarnir eru oftast fjarlægðir eftir 7-10 daga. Í flestum tilvikum er það gert á heilsugæslustöð nema annað sé ráðlagt.

 

Hvenær er sárið fullgróið?
Sár gróa mishratt eftir eðli þeirra, staðsetningu og dýpt og eftir aldri og heilsufari einstaklingsins. Sár eru almennt talin fullgróin eftir 10-12 vikur. Örið hefur fengið endanlegt útlit eftir u.þ.b. 1 ár.  

Sár af völdum slyss
Sár eru skilgreind á marga vegu eftir legu, umfangi og dýpt sársins og áverka á innri vefi.

 

Húðin er stærsta líffæri mannslíkamans. Hún ver líkamann gegn áreiti ytra umhverfis svo sem bakteríum, tekur þátt í hita- og vökvastjórnun líkamans og er mikilvægt skynfæri.

 

Það er mikilvægt að leita alltaf bestu leiða við að láta sár gróa. Þegar hinn slasaði kemur á slysadeild er strax metið hversu djúpt sárið er og með hvaða hætti er best að loka því.

 

 

 

Þessi grein er unnin upp úr bæklingi sem Slysa og bráðasvið Landspítalans gaf út í júní 2003

 

Mikilvæg símanúmer:
Slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi Sími: 543-2000
Endurkomudeild G-3 Landspítala í Fossvogi Sími: 543-2040