Samtök sykursjúkra

Í dag eru 5000 Íslendingar með sykursýki og þurfa um 500 að sprauta sig með insúlíni daglega. Árlega eru um 4000 komur á sykursýkisgöngudeild fullorðinna á Landspítalanum.

Samtök sykursjúkra

Samtök sykursjúkra voru stofnuð 25. nóv. 1971. Tilgangur félagsins er að halda uppi fræðslu um sykursýki, vinna að því að komið verði á fót sérhæfðri lækningastöð fyrir sykursjúka með sérmenntuðu starfsliði og að bæta félagslega aðstöðu sykursjúkra. Félagar geta orðið sykursýkissjúklingar, fagfólk í sykursýki og velunnarar sem styðja vilja tilgang félagsins. Styrktaraðild geta átt einstaklingar, félagasamtök og stofnanir, þar með talin fyrirtæki.

Samtökin eru félagslegur vettvangur sykursjúkra og aðstandenda þeirra. Þau berjast fyrir bættri aðstöðu sykursjúkra í þjóðfélaginu og standa fyrir mikilvægri fræðslustarfsemi. Eitt af fyrstu baráttumálum samtakanna var opnun Göngudeildarinnar á Landspítalanum og viljum við stuðla að því að opnaðar verði göngudeildir sykursjúkra víða um land. Nú þegar er t.d göngudeild á Suðurnesjum og á Húsavík. Meðal annars gefur félagið út bæklinga um sykursýki og hvernig best er að haga lífi sínu með henni. Félagið gefur einnig út tímaritið Jafnvægi sem kemur út einu sinni á ári og fréttabréf sem koma út annan hvern mánuð yfir veturinn. Samtök sykursjúkra standa fyrir opnum fræðslufundum nokkrum sinnum á ári þar sem fjallað er um ýmislegt sem varðar sykursýki og tilveru þeirra sem hafa sykursýki. Á vegum félagsins er starfandi gönguhópur sem hittist aðra hverja viku og farin hefur verið ein dagsferð yfir sumartímann, en þá er farið með rútu og landið okkar skoðað. Í samvinnu við samtökin er starfandi Foreldrafélag sykursjúkra barna og unglinga, og er það félag nú í sókn eftir tímabundna lægð. Sú starfsemi hefur reynst mikill styrkur fyrir marga, því eins og gefur að skilja er það mikið áfall þegar barn er greint með ólæknandi og hættulegan sjúkdóm eins og sykursýki. Samtök sykursjúkra á Íslandi hafa tekið þátt í samstarfi við samskonar samtök á hinum Norðurlöndunum og hefur það gefið góða raun og verið öllum hlutaðeigandi til hagsbóta. Auk þess er félagið aðili að alþjóðasamtökum sykursjúkra IDF (International Diabetes Federation), en markmið þeirra samtaka er fræðsla um sykursýki, efling forvarna og styrking félaga á heimsvísu.

Sykursýki

Sykursýki (Diabetes Mellitus) er efnaskiptasjúkdómur sem kemur fram þegar brisið framleiðir ekki nægjanlegt eða jafnvel ekkert insúlín, eða þegar líkaminn getur ekki nýtt sér insúlínið sem brisið framleiðir. Þetta verður til þess að sykur safnast fyrir í blóðinu og getur valdið skemmdum á líffærum svo sem augum, nýrum, æðum og taugum.

Til er tvenns konar sykursýki: Tegund 1, sem kölluð er insúlínháð sykursýki og tegund 2, sem stundum er nefnd insúlínóháð sykursýki. Tegund 1 greinist oftast á barns- eða unglingsaldri, þó þeim tilvikum fari fjölgandi þar sem fullorðnir greinast með tegund 1. Tegund 2 kemur oftast fram eftir 40 ára aldur, þó hún komi stundum fram hjá yngra fólki, allt niður í smábörn. Talið er að u.þ.b. 10-15% sykursjúkra hafi tegund 1 og um 85-90% tegund 2.

Sykursýki: Tegund 1

Sé insúlín of lítið í líkamanum, getur líkaminn ekki nýtt sér næringarefnin úr fæðunni á eðlilegan hátt. Það hefur þau áhrif að blóðsykurinn hækkar. Verði blóðsykurgildið hærra en 10mmol/l, skolast umfram sykur út með þvaginu. Við alvarlegan insúlínskort er auk þess hætta á að líkaminn myndi sýruefni, svokallaða ketóna. Einkennin sem þá koma fram eru: aukin þvaglát, þorsti, þyngdartap, þreyta, kviðverkir, uppþornun og jafnvel meðvitundarleysi.

Insúlínháð sykursýki kemur oftast fram fyrir fertugsaldur. Þeir sem hafa þessa tegund sykursýki mynda alls ekkert eða aðeins mjög lítið insúlín í briskirtlinum. Þessir einstaklingar þurfa lífsnauðsynlega að fá insúlín í sprautuformi, oftast 2-6 sinnum á dag auk þess sem mikilvægt er að huga vel að jafnvægi mataræðis og hreyfingar til að fá rétt hlutföll orkuinntöku og orkueyðslu. Orsakir sjúkdómsins eru aðeins að litlu leyti þekktar. Sumar rannsóknir benda til að tilhneigingin til að fá þennan sjúkdóm sé arfgeng. Einnig er vitað að hann getur brotist út við veirusýkingu, sem þá er meðvirkandi í að eyðileggja þær frumur í briskirtlinum sem framleiða insúlín. Enn er mörgum spurningum ósvarað um það hvað veldur þessum sjúkdómi og vinna vísindamenn hörðum höndum við að finna svör við þeim.

Sykursýki: Tegund 2

Þessi tegund sykursýki er miklum mun algengari en hin. Flestir sem greinast með tegund 2 eru eldri en 40 ára. Við þessa tegund framleiðir brisið insúlín en það vinnur ekki nægilega vel. Frumur líkamans virðast þá hafa misst hæfni sína til að nýta insúlínið. Sérstaklega á þetta við um þá sem eru of þungir. Þess vegna geta sumir sjúklingar með tegund 2 náð réttu blóðsykurgildi eingöngu með réttu mataræði og þyngdartapi. Margir þurfa þó einnig blóðsykurlækkandi töflur og sumir insúlín.

Vitað er að þessi tegund af sykursýki er arfgeng eins og mörg þau e inkenni sem eru sameiginleg þeim sem fá sjúkdóminn, en flestir þeirra hafa mikla kviðfitu, blóðfitutruflanir og háan blóðþrýsting. Það er því oft ekki nóg bara að bæta blóðsykurstjórnun heldur þarf einnig að laga óhagstæða blóðfitu og meðhöndla háan blóðþrýsting hjá sjúklingum með þessa tegund sykursýki. Tengslin á milli offitu og sykursýki hafar verið þekkt árum saman. Um 90% einstaklinga með þessa tegund af sykursýki eru í yfirþyngd. Á síðari árum hefur orðið veruleg fjölgun í greindum tilfellum af sykursýki af tegund 2 og áætlar alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) að fjöldinn muni fara úr 151 milljónum árið 2000 í 300 milljónir árið 2025 aðallega vegna aukins íbúafjölda jarðar, hækkandi meðalaldurs, aukinnar meðalþyngdar og minni hreyfingar. Margir sérfræðingar vilja tala um faraldur í þessu sambandi

Nýleg dönsk rannsókn sýnir að fyrir hvern þann sem greindur er með sykursýki af tegund 2 eru 2-3 sem ganga með sjúkdóminn ógreindan. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir viðkomandi en þó ekki hvað síst fyrir samfélagið. Stór hluti þessara sjúklinga greinist þegar þeir koma til meðferðar vegna fylgikvilla sem þegar eru farnir að gera vart við sig. Þessir fylgikvillar geta verið mjög alvarlegir og haft veruleg áhrif á lífsgæði viðkomandi auk þess sem þeir kosta heilbrigðiskerfið mikla fjármuni.

Samtök sykursjúkra hyggjast síðar á þessu ári efna til átaks til þess að leita uppi þessa einstaklinga sem eru með sykursýki án þess að vita af því. Átakið verður unnið í samstarfi við fjölmarga aðila eins og lyfsala, landlæknisembættið, heimilislækna og göngudeildir sykursjúkra.

Þekkir þú einkennin?

Ef þú vilt kanna hvort þú sért með sykursýki, pantaðu þá tíma á næstu heilsugæslustöð. Hægt er að komast að hinu sanna með einfaldri blóðprufu.

Helstu einkenni tegundar 1:

 • stöðugur þorsti
 • tíð þvaglát
 • skyndilegur þyngdarmissir
 • síþreyta
 • óskýr sjón
 • stöðug svengd
 • pirringur.

Helstu einkenni tegundar 2:

 • óskýr sjón
 • stöðugur þorsti
 • óútskýranlegur þyngdarmissir
 • tíð þvaglát
 • húðkvillar algengir og sár gróa illa
 • ástæðulaus þreyta
 • dofi og sérkennileg tilfinning í höndum og fótum.

Einkennin koma yfirleitt nokkuð snögglega og geta verið mjög hastarleg þegar um tegund 1 er að ræða. Hins vegar eru þau vægari þegar fólk fær tegund 2 og koma smátt og smátt. Því áttar fólk sig ekki alltaf sjálft á því að eitthvað sé að.

Hverjir eru í áhættuhóp?

Allir, hvar sem er í heiminum og á hvaða aldri sem er, virðast geta fengið tegund 1 af sykursýki. Hættan á að fá tegund 2 eykst ef eitthvað af neðantöldu er til staðar:

 • of þung/ur
 • yfir fertugt
 • ættingi með sykursýki
 • ófrísk með þungbura.

Sykursýki getur verið hættulegur sjúkdómur

Ef hinn sykursjúki hefur þekkingu á því hvernig hann getur haft góða stjórn á sykursýkinni, stendur fátt í veginum fyrir því að hann geti lifað góðu lífi. Kostnaður samfélagsins við að gera sykursjúkum kleift að lifa eðlilegu lífi og bægja fylgikvillunum frá er hverfandi miðað við þann kostnað sem af fylgikvillunum hlýst. Það er lykilatriði að sjúkdómurinn uppgötvist snemma svo að lífsgæði viðkomandi skerðist sem minnst af völdum hans.

Það er engin lækning til við sykursýki

Sykursýki geta fylgt alvarlegir fylgikvillar. Ef einstaklingar fá ekki rétta meðhöndlun við sjúkdómnum getur hann leitt til:

 • hjarta- og æðasjúkdóma
 • blindu
 • hjartaáfalla
 • nýrnabilunar
 • aflimunar.

Sykursýki tegund 1 er algengasti langvinni sjúkdómurinn hjá börnum á Vesturlöndum.

Tíðni sykursýki af tegund 2 verður sífellt algengari með hækkandi lífaldri. Sykursýki af tegund 2 verður innan fárra ára orðin helsta heilbrigðisvandamál í vestrænum heimi.

Vefur samtakanna er www.diabetes.is