Samskipti – jákvæð og neikvæð þróun

Mannleg samskipti er eitt af daglegum athöfnum okkar sem við leiðum ekki hugann að dags daglega, hvort þau séu að breytast eða hvort við ættum að hafa þau með öðrum hætti en við gerum. Við fylgjum bara þróuninni og berumst með straumnum. Mörg samskiptaformin hafa þróast ört á sl. árum og þá bæði í jákvæða og neikvæða átt.

 • Jákvæð þróunÞað eru í raun margar tegundir af jákvæðri þróun sem fylgt hafa eðlilegri tækniþróun sbr. netpóst og hversskonar tölvusamskipti sem hafa einfaldað, flýtt fyrir og auðveldað boðleiðir á vinnumarkaði og um leið leitt af sér markvissari og skjalfastari samskipti. Þetta þekkja allir sem vinna á fyrirtækjanetum og geta á sekundum sent vinnufélaga í næsta herbergi eða í öðru landi skilaboð eða fyrirspurnir. Þetta hefur stytt allar vegalengdir og tíma samskipta og gerir samkipti frá vinnulegu sjónarmiði markvissari og hagkvæmari.

  Farsíma „faraldurinn” hefur einnig sínar jákvæðu hliðar sem eru hliðstæðar áðurnefndum kostum gagnavart nýtingu á vinnutíma, ferðalögum o.þ.h. Og fyrir einstaklinga geta þessi kerfi oft sparað tíma og auðveldað samskipti milli aðila.

  En það eru nánast alltaf tvær hliðar á öllum málum og neikvæðu hliðarnar eru minna í umræðunni og er full ástæða til að óttast ákveðna þætti í þessari hröðu tækniþróun.

 • Neikvæð þróunMannlegi þátturinn er sá þáttur sem hefur borið mestan skaða af þessari þróun og það liggur við að segja að við séum að þróast í hafa samskipti sem vélmenni værum. Þessi þróun sést best á yngri kynslóðinni þar sem farsíma notkun er alltaf að færast neðar í aldri og samtöl milli unglinga og niður í 10 ára krakka fara oft á tíðum fram í Gsm símum eða á SMS formi. Öfgarnar eru kannski mestar þegar unglingar sitja hlið við hlið og eru að „tala” saman á SMS-formi. En hverjar verða afleiðingar þessarar þróunar í framtíðinni? Verða hjón famtíðarinnar kannski með tvo farsíma á síðkvöldum í stofunni á SMS spjalli og senda svo börnunum skilaboð um að fara í háttinn? Sjálfsagt hljóðlegt heimili með einu og einu pípi úr símum þegar skilaboð berast. Þetta eru auðvitað öfgar en okkur ber samt að huga að þessari þróun og hvaða áhrif þessar breytingar hafa á mannlega þáttinn í samskiptum. Ég óttast að ungmenni nútímans fari mikið á mis við mikilvægi þess að ræða saman á „venjulegan” hátt og missi þannig af lærdómi þeim sem fæst í mannlegum samskipum á unga aldri sem er svo grunnurinn að samskiptum þegar út í lífið er komið. Hversu oft sjáum við ekki að óhefluð samskipti, skort á gagnkvæmum skilningi og virðingu valda sundrungu, misskilningi og leiðindum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með vel hugsaðri tjáningu eða orðavali.

  Hér er ekki aðeins hægt að taka fyrir þá sem yngri eru því við fullorðna fólkið erum líklegri til að særa með tungu okkar og gerum það oft á tíðum meðvitað sem ómeðvitað og mættum oft hugleiða betur orð okkar og vanda okkur í samskipum við hvert annað. Því það er aldrei farið offari í því að sýna skilning og varfærni í samskiptum við aðra. Við eigum alltaf að leitast við að orð okkar og meining verði ekki misskilin. Ekki má gleyma því að ef við missum eitthvað frá okkur í tali sem betur hefði ósagt verið að þá eigum við að brjóta odd af stærilæti okkar og biðjast fyrirgefningar. Það er mjög mikilvægt að geta bæði beðist fyrirgefningar og öðlast fyrirgefningu, því þó viðmælandinn sé kannski ekki alveg tilbúinn að fyrirgefa þá er maður sjálfur búin að losa um fargið með því að biðjast fyrirgefningar og í raun búinn að fyrirgefa sjálfum sér að hluta. Það er oft erfitt að temja sér að biðjast afsökunar eða fyrirgefningar en það er bara erfitt fyrst en verður svo auðveldara og sýnir ákveðin þroska.

  Er ekki kominn tími til þess að beina því til uppalenda að reyna að sporna við þeirri neikvæðu þróun sem minnst var á og allavega að brýna fyrir unglingum og krökkum mikilvægi þess að ræða frekar saman á eðlilegan hátt en að „SMS-ast” svona mikið. Því þegar út í lífið er komið þá er svo mikilvægt að geta tjáð sig á réttan hátt með þeim tilfinningum og oft á tíðum leikrænum tilburðum og áherslum sem þarf til að koma hugsunum og meiningum sínum rétt á framfæri hvort sem er í einkalífi eða úti á vinnumarkaði.

  Er rétta leiðin í þessari þróun kannski að læra meira um mannleg samskipti í skólum og á heimilum á yngri árum. Um mikilvægi þess að virða náungann og skoðanir hans og að okkur sé öllum ljós mismunandi þarfir annarra og skoðanir á hlutunum. Ef við værum meðvituð um að virða þær hjá öðrum eins og við viljum að aðrir beri virðingu fyrir okkur þá eru miklar líkur á því að koma mætti í veg fyrir margan ágreininginn í samböndum og milli fólks í daglegu lífi.