Samskipti hreyfihamlaðra

„Fólk er oft óöruggt í samskiptum við fatlaða.“
-segir Sæmundur Hafsteinsson, sálfræðingur.

„Lágt sjálfsmat og lítið sjálfstraust er ákveðinn vítahringur sem fólk er í. Ef til vill á það rætur í uppeldi viðkomandi eða þetta eru einfaldlega hlutir sem fólk hefur ekki gert sér grein fyrir og unnið í. Hins vegar er oft tiltölulega einfalt mál að laga þetta með því að hugsa aðeins rökréttar og æfa sig,“ segir Sæmundur Hafsteinsson, sálfræðingur. Sæmundur hélt fróðlegan fyrirlestur á vegum Sjálfsbjargar fyrir skömmu þar sem hann fjallaði um ákveðni og óákveðni, feimni og hroka og hvernig hægt er að auka færni sína í mannlegum samskiptum.

Sæmundur segir ýmis atriði einkenna manneskju með lágt sjálfsmat og lítið sjálfstraust. „Hún dylur skoðanir sínar, óskir og tilfinningar en það á rætur í viðkvæmninni undir niðri. Þegar maður hefur tamið sér þann lífsstíl að bakka alltaf og segja ekki það sem maður vill, þá er maður í vondum málum. Í öðru lagi er það afsakandi framkoma og óöryggi í fasi en það sést oft utan á þessu fólki eða maður finnur það óbeint að það hikar í samskiptum við annað fólk. Þetta verður til þess að það verður frekar fórnarlamb ágengra einstaklinga sem notfæra sér veikleika þess. Manneskja með lágt sjálfsmat sendir skilaboð sem virka oft óþægilega á umhverfið, þ.e.a.s. viðmælandinn skynjar að viðkomandi líði illa og vilji helst hlaupa í burtu. Í þriðja lagi má nefna sjálfsásökun og dómhörku, en þeir sem eru með lágt sjálfsmat eru oft sínir verstu óvinir sjálfir. Þeir ganga oft með ranghugmyndir um sjálfa sig og ásaka sig ef eitthvað fer illa. Þeir rífa sjálfa sig niður og eru óraunsæir í mati sínu á því sem gerðist, gera stórmál úr mistökum og velta sér stöðugt upp úr því. Í fjórða lagi eru það óljósar fullyrðingar og tvíræðni, en fólk með lágt sjálfsmat er hrætt við að hafa skoðun og kemur ábyrgð á skoðunum sínum yfir á aðra. Maður spyr þetta fólk um skoðun þess og það hummar eitthvað og maður fer a giska á skoðunina. Og það kinkar kolli og segir já, það er þetta sem ég á við. En svo þegar allt fer í handaskol og misskilningur kemur upp þá segist það hafa meint eitthvað allt annað eða þá að einhver annar hafi sagt það. Í fimmta lagi er það þóknunargirni og ótti við átök, en þetta fólk á erfitt með að meðhöndla þá líkamlegu spennu sem fylgir mannlegum samskiptum. Um leið og það fer að spennast upp túlkar það spennuna sem eitthvað neikvætt og hugsar, guð, almáttugur nú er að líða yfir mig. Kerfið skrúfast allt upp hjá þeim og virkar ekki. Það verður hrætt og flýr gjarnan af hólmi. Þeir sem hafa gott sjálfstraust hafa ekkert minni spennu, en þeir túlka hana hins vegar öðruvísi og vita að þetta er vopn sem nota á til að ná árangri, en ekki til að rífa sig niður. Í sjötta lagi má nefna pirring og einmanaleika, en fólk verður auðvitað pirrað ef það nær aldrei málum sínum fram, en sér aðra ná árangri. Það á erfitt með að vera einlægt og að geta tengst fólki, vegna þess að það á alltaf von á því að einhver kæmist nú að því hvernig það er í raun og veru og þá myndu allir hlaupa burt frá því og þaðan af verra. Í síðasta lagi má nefna að fólk með lítið sjálfstraust nær markmiðum sínum fram á óbeinan hátt og með því að höfða til tilfinninga annarra. Einstaklingar sem eru ákveðnir og öruggir ræða saman á málefnalegum grunni, en það er lítið um slíkt tal þegar manneskja í ójafnvægi á í hlut. Hún reynir stöðugt að höfða til tilfinninga manns á einhvern hátt, þannig að maður fer alltaf í burtu með skrítnar tilfinningar, t.d. sorgmæddur eða reiður.“

Hroki og fordómar

Eflaust halda margir að hrokafullt fólk hljóti að vera uppfullt af sjálfsöryggi, það veður um og hnýtir í allt og alla, en raunin er hins vegar önnur, að sögn Sæmundar. „Hroki á ekkert skylt við ákveðni, heldur er einungis um að ræða aðra tegund af óákveðni. Fólk sem er óöruggt og með lítið sjálfstraust getur annað hvort dregið sig í hlé og falið sig eða stuggað öðrum frá sér. Hroki er einnig stjórnsemi, þörf fyrir að halda öllum í skefjum og að skapa þannig andrúmsloft að enginn þorir að segja neitt. Fólk sem er óöruggt hugsar á allt öðrum nótum en aðrir, það er alltaf í persónulegum samanburði og hugsar stöðugt um hvað aðrir eru að hugsa um það. Mikil orka þess fer því í minnimáttarkennd í stað þess að gera eitthvað uppbyggilegt. Þetta er þó langtum meira áberandi hjá hrokagikkjum. Þeir eru svo viðkvæmir og lítið þarf til að stuða þá, t.d. bara augnaráð. Það sem einkennir hrokafullt fólk er virðingaleysi og yfirgangur; þeir eiga erfitt með að gefa frá sér; nota þú-boð og skipanir; þurfa hvorki að spyrja né hlusta; eru dómharðir og neikvæðir; nota stóryrði og uppnefni; eru einmana og tortryggnir og árangur þeirra er skammvinnur og óverðskuldaður.“

Að sögn Sæmundar er hrokafullt fólk oft haldið miklum fordómum og er sá hópur fólks sem kemur langve rst út úr áföllum. „Það sem við fordæmum eða fyrirlítum aðra fyrir getur alltaf komið upp hjá okkur sjálfum. Hver sem er getur lent í því að eignast fatlað barn eða lenda í slysi og fatlast. Sá sem hefur verið fordómafullur gagnvart t.d. fötluðum er í vondum málum ef hann fatlast sjálfur. Fordómarnir eru rýtingur sem hafnar alltaf í bakinu á manni sjálfum. Þeir sem hins vegar eru sterkir og ákveðnir hafa mun meiri samúð. Þeir skilja aðstæður og fordæma ekki annað fólk. Þeir horfa á fólk í jákvæðu ljósi og vita hvernig bregðast á við áfalli.“

Fötlun setur fólk í vanda

Í fyrirlestri sínum hjá Sjálfsbjörg kom Sæmundur inn á ýmis mál er snerta fatlaða og sögðu nokkrir fundargesta að þeim finndist oft sem ekki væri komið fram við þá af nægri virðingu. Þegar þeir eru t.d. staddir í verslun eða á veitingastöðum þá sé ekki yrt á þá heldur einungis hjálparliðann eða þann sem er með þeim. Af hverju stafar þetta og hvernig telur Sæmundur best að bregðast við í slíkum aðstæðum? „Fötlun er eitthvað sem setur fólk í vanda, það verður óöruggt. En þetta er ekki einungis gagnvart fötluðum, heldur má einnig sjá þetta t.d. þegar einhver deyr. Þá er fólk gríðarlega óöruggt um hvort það eigi að votta því samúð eða heimsækja það. Flestir kjósa að koma ekki og halda sig í fjarlægð. Það er ekki vegna þess að þeir vilja ekki votta samúð sína heldur þora þeir ekki inn á þetta tilfinningalega svæði og að taka þeim óþægindum sem fylgja. Fólk sem ekki hefur umgengist fatlað fólk kemur oft fram við það af miklu óöryggi, sem sumir gætu túlkað sem fordóma. Ég held hins vegar að það sé sjaldnast þannig að fólk meini eitthvað slæmt með framkomu sinni. Sumir vita einfaldlega ekki hvernig þeir eiga að haga sér í kringum fatlaða. Þegar starfsmaður yrðir ekki á hinn fatlaða og lætur sem hann sé ekki á staðnum er kannski bara best að heilsa viðkomandi og segja: „Sæll, ég heiti Jón, þú varst að spyrja um eitthvað.“ Þá kemur oft á fólk og það biðst afsökunar. Það er hugsanlegt að sumir bregðist illa við en ég tel litlar líkur á því.“

Sæmundur segir einnig mikilvægt að hafa húmorinn í lagi og geta horft svolítið létt og jákvætt á hlutina. „Ef við segjum t.d. að maður komi inn í herbergi og þar situr náungi í hjólastól en maður yrðir aðeins á þann sem ýtir hjólastólnum, þá firrist hinn fatlaði við og maður sjálfur um leið, þannig að báðir eru allt í einu komnir í stuð til að tala ekki hvor við annan. Eins er það þegar maður hrekkur í kút við að tala við einhvern. Þá er mjög stutt í að sá sem maður talar við túlki þau svipbrigði sem árás eða höfnun, merkilegheit eða annað neikvætt. Við slíkar aðstæður verður að passa sig á að túlka ekki allt neikvætt, heldur að geta verið svolítið léttur og kátur. Þegar fólk finnur að sá fatlaði er ekkert spenntur yfir þessu þá fara oft báðir aðilar bara að hlæja. Fatlaðir verða að passa sig á að eigna fólki ekki neikvæðar kenndir heldur að hafa í huga að annað fólk getur verið óöruggt í kringum þá og að þeir geti hjálpað því að vinna sig út úr því óöryggi.“

Færni í mannlegum samskiptum mikilvæg

Að sögn Sæmundar er góð færni í mannlegum samskiptum talin mun mikilvægari en áður. „Það er alltaf að verða augljósara hvað það er sem skiptir mestu máli í sambandi við menntun. Færni í mannlegum samskiptum er álitin meiri kostur en að vera með einhverja doktorsgráðu, vegna þess að öll okkar vinna snýst um samskipti á einhvern hátt. Fyrirtæki getur verið með stórmenntaðan einstakling sem er hins vegar algjörlega óhæfur í vinnu. Fólk sem er fært í mannlegum samskiptum er því mun eftirsóttara vinnuafl en áður. Góðir samskiptahæfileikar er nokkuð sem sumir virðast hafa í sér en aðrir þurfa að læra og þjálfa sig í,“ segir Sæmundur að lokum.

Hvað einkennir fólk sem er ákveðið og með mikinn persónustyrk

 1. Virða viðmælendur- hlusta.
 2. Ég-boð.
 3. Kunna að gefa af sér og hrósa.
 4. Geta vakið athygli á eigin kostum.
 5. Þægileg samskipti, samræmd skilaboð
 6. Staðfesta, kunna að segja nei.
 7. Þekkja eigin kosti og galla.
 8. Kunna að beita jákvæðni.
 9. Bregðast uppbyggilega við mistökum.
 10. Kunna að tjá blíðu og gleði.
 11. Kunna að tjá reiði og vonbrigði.
 12. Kunna að fyrirgefa.
 13. Sveigjanleiki í samskiptum.
 14. Kunna að taka ákvarðanir.

Heimild: Klifur, fréttablað Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra.
Viðtal: Kristrún M. Heiðberg.

Birt með góðfúslegu leyfi Sjálfsbjargar