Samsettar fjölskyldur/fjölskyldusaga

Inngangur

Nútíma fjölskyldur eru kannski að meirihluta til svokallaðar samsettar fjölskyldur. Þar er átt við að fjölskyldan samanstandi af foreldrum og börnum sem hafa áður tilheyrt annarri fjölskyldu. Skilnaðir eru mjög algengir en skilnaðir hafa verið yfir fimmtíu prósent í langan tíma í öllum vestrænum samfélögum. Einnig er það nokkuð algengt hér á Íslandi að fólk eignist börn saman án þess að hafa nokkurn tíma verið í föstu sambandi eða sambúð. Þetta leiðir til þess að fjölskyldur samanstanda mjög oft af foreldri, stjúpforeldri, alsystkinum, stjúpsystkinum og hálfsystkinum. Einnig hefur það færst í aukana að foreldrar sinni báðir börnum sínum eftir skilnað þannig að fjölskylda barnanna býr á tveimur mismunandi stöðum. Þegar síðan foreldrarnir hefja samband eða sambúð við nýjan maka þá verður fjölskylda barnanna mun fjölmennari og samanstendur af aðilum sem ekki eru blóðskyldir barninu. Þannig hefur skapast annar raunveruleiki hjá börnunum en hjá foreldrunum hvað varðar að tilheyra fjölskyldu. Tilvera fráskilinna foreldra verður einnig frábrugðin aðallega vegna þess að stundum eru þeir „barnlausir”. Það hefur ákveðin áhrif á tilveru þeirra og afstöðu til þess að vera foreldri en einnig vegna þess að þeir tengjast tveimur tengdafjölskyldum, annarri í gegnum núverandi maka og þeirra börn og hinni í gegnum börnin sín frá fyrra sambandi.

Bakgrunnur

Bakgrunnur samsettra fjölskyldna er í flestum tilfellum þannig að um hefur verið að ræða sambandsslit milli foreldra sem hefur alltaf í för með sér sársauka bæði fyrir foreldrana og börnin. Hvort sem um er að ræða skilnað þar sem báðir foreldrar voru sammála um að skilnaður væri rétta lausnin á einhverjum vanda sem þau voru að fást við eða skilnað þar sem annar aðili vildi skilnað en hinn var ekki sáttur við þá lausn. Einnig getur verið um að ræða aðstæður þar sem annað foreldri hefur fallið frá og þá er um að ræða sársauka vegna fráfallsins bæði hjá börnunum og hjá foreldrinu sem eftir lifir. Hjá börnunum sem orðið hafa til utan hjónabands eða fasts sambands milli foreldra og foreldrið sem barnið býr ekki hjá sinnir því ekki getur líka verið um að ræða sársauka hjá barninu og jafnvel foreldrinu vegna þessa. Það má sem sagt segja að hverjar svo sem aðstæðurnar hafa verið þá hafi orðið til sársauki vegna saknaðarins yfir því sem var og er horfið eða vegna óuppfylltra væntinga. Við skilnað gerist þetta þegar fjölskyldan breytist frá því að vera það sem við köllum heila fjölskylda, en þar er um að ræða fjölskyldu sem samanstendur af lífforeldrum og börnum þeirra yfir í að vera einforeldrisfjölskylda sem stundum er með börn og stundum ekki. Einstaklingar vinna úr sársauka á mjög mismunandi hátt og það tekur þá einnig mismunandi langan tíma. Fjölskyldumeðlimir koma einnig mismunandi að aðskilnaðinum bæði vegna þess að hlutverkin innan fjölskyldunnar eru mismunandi og einnig vegna þess að þeir eru í mismunandi stöðu gagnvart ákvörðuninni um breytingar. Allir þessir þættir hafa áhrif á það hvernig fjölskyldumeðlimir bregðast við hlutum í daglega lífinu.

Þetta er sá tilfinningalegi bakgrunnur sem foreldrarnir þurfa að hafa í huga þegar þeir síðan stofna til nýs sambands sem leiðir til myndunar nýrrar fjölskyldu.

Nýja fjölskyldan

Þegar stofnað er til sambands við nýjan maka þar sem börn eru hluti af fjölskyldunni þarf að huga að ýmsu. Þar ber fyrst að nefna að hugað sé að því hvar fjölskyldumeðlimir eru staddir í sinni tilfinningalegu úrvinnslu hvað varðar gömlu fjölskylduna. Ástæðan fyrir því að það er mikilvægt er sú að þegar nýr maki kemur ínn í fjölskylduna þá rifjast oft upp tilfinningar kringum gömlu fjölskylduna og sársaukinn tengdur missinum á henni eða atburðum sem áttu sér stað í henni eða við skilnaðinn rifjast upp og verður aftur svo nálægur. Því opnari sem umræðan hefur verið í fjölskyldunni varðandi þær tilfinningar sem fjölskyldumeðlimir upplifðu við aðskilnaðinn því meiri möguleiki er á að það taki styttri tíma að fara í gegnum það ferli að taka á móti nýjum fjölskyldumeðlimum. Þannig býr maður í haginn fyrir möguleikanum á að fjölskyldan geti stækkað og vaxið og tekið á móti nýjum fjölskyldumeðlimum með því að hafa umræðuna í fjölskyldunni opna varðandi þær tilfinningar sem fjölskyldumeðlimir hafa vegna skilnaðar eða fráfalls annars foreldrisins.

Sambandið: Fyrst eftir að einstaklingur skilur eða missir maka sinn hefur hann mjög mikla þörf fyrir að tengjast öðrum einstaklingi. Þau viðbrögð eru venjulega sprottin af þeirri þörf að vita hvort möguleiki verði á því að tengjast einhverjum yfir höfuð og svo einnig þörfinni að fylla upp í tómarúmið sem myndast við það að makinn er ekki lengur til staðar. Í raun og veru tekur það langan tíma fyrir einstakling að vinna sig frá þeim sáru tilfinningum sem tengjast aðskilnaðinum. Tímalengdin er þó að einhverju leyti einstaklingsbundin. Þegar þessu er lokið getur farið að skapast rými fyrir ný tengsl en ekki fyrr en þeirri vinnu lýkur. Tengist fólk áður en það hefur komist í gegnum þessar tilfinningar blandast nýi makinn inn í úrvinnsluna og getur þa ð verið erfið byrjun fyrir nýtt samband. Sem dæmi um slíkt má nefna að nýi makinn er sakaður um eitthvað sem er honum ekki eiginlegt að gera en honum hefur verið gert upp vegna einhvers sem ekki hefur verið gengið frá eða lokið í gamla sambandi makans. Einnig geta skapast vonbrigði vegna þess að makinn ætlast til einhvers af nýja makanum sem hann talar ekki um en býst samt við að gerist. Hann verður síðan fyrir vonbrigðum þegar það gerist ekki. Hér gæti verið um að ræða hluti sem makinn taldi, á meðan hann var í gamla sambandinu, að ef hann væri í sambandi við annan maka þá myndi þetta eða hitt vera til staðar sem ekki var hægt að vænta af gamla makanum.

Þegar stofnað er til nýs sambands eftir skilnað eða makamissi er mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að kynnast væntingum nýja makans ekki síður en sínum eigin væntingum til þess sem samband á að uppfylla í lífinu. Þá er mikilvægt að ræða framtíðardrauma sína hvað varðar samveru, sameiginleg verkefni og tilfinningaleg tengsl. Til þess að þetta geti orðið er mikilvægt að einstaklingarnir gefi sér tíma til að vera tveir saman svo þeir geti sagt hvor öðrum frá sér og einnig látið sig dreyma saman um það hvernig þeir sjá sína sameiginlegu framtíð fyrir sér.

Á þessum tíma er lagður grunnur að samningi sem oft er sá samningur sem parið lifir eftir um alla þá framtíð sem það á eftir að eiga saman. Þetta eru því mikilvægar langtíma samningaviðræður sem þarna fara fram og því mikilvægt að vanda vel til þeirra verka. Þessi samningur er einnig sá samningur sem allt fjölskyldulífið byggir á enda eru foreldrarnir arkitektar fjölskyldunnar og því er þessi samningur mikilvægur grundvöllur fjölskyldunnar ekki síður en teikningar arkitektsins eru mikilvægur grundvöllur hverrar húsbyggingar.

Einnig er mikilvægt að parið skipuleggi sameiginlegar upplifanir og sameiginlegan veruleika með því bæði að gera hluti saman og finna sér venjur sem parið gerir reglubundið. Það getur hjálpað til við að halda utanum, næra og vernda sambandið ekki síst þegar það gengur í gegnum erfiðleika. Þá getur verið gott að hafa hluti til að grípa til sem eru venjubundnir. Þarna getur verið um að ræða hluti eins og að taka alltaf frá tíma í hverri viku þar sem parið eyðir tíma saman eitt sér til að gera eitthvað saman. Eða venja sig á að taka alltaf einhverja stund á hverjum degi til að ræða við makann eða gefa af sér til að næra sambandið eins og að segja eitthvað fallegt við makann eða sýna honum áhuga á einhvern hátt. Það er sem sagt mikilvægt að nota hugmyndaflug sitt til að finna leiðir til að næra sambandið alveg frá upphafi. Tilfinningasambönd næra sig ekki sjálf frekar en annað sem lifir og eitt er hægt að hafa í huga varðandi þetta og það er að „ástin er það eina sem vex við það að sóa henni”.

Börnin: Þegar hugsað er um börn sem blandað er í skilnað foreldra sinna þarf fyrst og fremst að hafa í huga að börn eiga rétt á að elska báða foreldra sína. Til að bera virðingu fyrir þessu þarf að passa að börnin þurfi ekki að hlusta á neikvæðni foreldranna í garð hvers annars. Foreldrarnir þurfa að leggja sig fram um að styðja börnin í að geta þótt vænt um báða foreldra sína með því að láta þau ekki þurfa að hlusta á neikvæðni þeirra í garð hvors annars og leyfa þeim að tala um það foreldrið sem ekki er á staðnum af jákvæðni og væntumþykju. Eitt dæmi um hvernig hægt er að fyrirbyggja þetta er til dæmis að breyta hugarfari gagnvart mjög algengri ranghugmynd þar sem foreldrar telja að barnið hafi ekki haft það gott hjá hinu foreldrinu ef það er órólegt þegar það kemur þaðan. Það sem langoftast er ástæðan fyrir óróleikanum eru erfiðleikar barnsins við að skipta á milli heimila en ekki að það hafi verið eitthvað slæmt sem barnið hafi upplifað á hinum staðnum. Foreldrar nota oft slík atriði til að næra eigin neikvæðni gagnvart hinu foreldrinu og dregur þannig barnið inn í sinn hugarheim.

Þegar fráskilið foreldri byrjar í nýju sambandi er mikilvægt að það hafi það í huga að blanda börnum ekki í það samband fyrr en einstaklingurinn veit að hann eða hún muni hafa áhuga á því að stofna til langtímasambands við viðkomandi aðila. Þetta getur oft verið erfitt í framkvæmd ekki síst vegna þess að það getur oft verið erfitt að komast frá börnum til að hitta viðkomandi aðila utan heimilisins. Megin ástæða þess að það er mikilvægt að hlífa börnum við að tengjast mögulegum stjúpforeldrum sínum áður en það er vitað hvort af því verði eða ekki er sú að börnin eru þolendur í þessum aðstæðum. Þau hafa ekkert með ákvarðanirnar að gera en um leið skipta þær miklu hvað varðar þeirra líf. Þau líta ávallt á ástvin foreldra sinna sem mögulega foreldra sína sem komi til með að hafa heilmikið með þeirra líf að gera. Þannig hafa þau oftast heilmiklar skoðanir á því hvað þeim finnst um þessa aðila. Það rifjast einnig oft upp fyrir þeim þau vonbrigði sem þau urðu fyrir vegna skilnaðar foreldra þeirra og löngunin til að foreldrar nái saman aftur kemur oft aftur upp á yfirborðið við þessar aðstæður.

Börn eru háð foreldrum sínum og þess vegna reyna þau mjög oft að þóknast þeim í afstöðu sinni til þeirra sem foreldrarnir eru að velja sem ástvini. Þetta er gjarnan miklum mun viðkvæmara hjá börnum sem hafa „misst” foreldra sína frá sér annað hvort vegna skilnaðar eða vegna þess að þau hafa látist. Þau eru viðkvæm fyrir missi og vilja því þóknast þeim til að koma í veg fyrir að vera hafnað. Þannig er mikilvægt að foreldrar í þessari aðstöðu hlusti vel eftir þeim tilfinningum sem börnin hafa í kringum nýtt makaval sitt.

Það sem er hvað mikilvægast að hafa í huga varðandi börn er að tala opið við þau um hvað er að gerast í fjölskyldumálum þeirra vegna þess að það er mikilvægt fyrir þau að fá tíma til að aðlagast breytingum.

Börn sem koma á heimili þess foreldris sem þau búa ekki hjá með reglubundnum hætti þarf oft að umgangast með mikilli varfærni. Það er oftast viðkvæmt fyrir þau að koma inn á heimili sem hefur aðrar venjur en það heimili sem þau eru heimilisföst á. Þau fá löngun til að koma með sína siði og venjur inn á heimilið og þau upplifa það oft sem fyrrverandi maki sé að „stjórna” heimilislífinu í nýju fjölskyldunni. Mikilvægt er að skilgreina hlutina út frá barninu og þörfum þess en ekki út frá hugsanlegum áhrifum fyrrverandi maka. Þannig er hægt að ræða hlutina við barnið og finna sameiginlega niðurstöðu um það hvað er mikilvægt og hvað er ekki eins mikilvægt varðandi venjur á þeim tveimur heimilum sem barnið tilheyrir. Ef ekki er hlustað eftir þörfum barnsins þá er hætta á að barnið fari að upplifa sig sem auka stærð sem tilheyri hvorugu heimilinu og getur það skapað mikinn einmanaleika hjá börnum í stjúpfjölskyldum. Einnig er mikilvægt að barnið fái að taka þátt í þeim dagsdaglegu hlutum sem báðar fjölskyldurnar eru að gera þegar börnin dveljast hjá þeim. Þannig verður barnið frekar hluti af fjölskyldunni en ef alltaf er búið eitthvað til eingöngu í kringum barnið sem er í heimsókn. Algengt er að foreldrar reyni að skapa heimatilfinningu barnsins út frá því að ítreka að það eigi jafnmikið „heima” á báðum heimilunum. Það er mikilvægt fyrir öll börn að þau hafi eina heimastöð sem þau tengjast fyrst og fremst og að þau hafi síðan frelsi til að skilgreina hvaða tilfinningu þau hafa fyrir hinu heimilinu. Auðvitað er mikilvægt að þau finni sig velkomin en það gerist best í gegnum viðurkenningu á þeirra tilfinningum gagnvart þessum hlutum og síðan hinu að þeim sé sýndur áhugi og virðing sem einstaklingar.

Foreldra-/stjúpforeldrahlutverkið: Foreldrar gera oft þær kröfur til stjúpforeldra barna sinna að þeir sinni þeim og hafi tilfinningaleg samskipti við þau á svipaðan hátt og þau gera sjálf. Þessar kröfur eru í raun mjög ósanngjarnar bæði gagnvart stjúpforeldrinu og barninu. Það liggur í eðli stjúptengslanna að verða alltaf á einhvern hátt öðruvísi en blóðtengsl milli foreldra og barna. Það sem aðskilur er fyrst og fremst það að barnið á annað foreldri sem það tengist blóðböndum og samsamar sig við og auk þess hefur stjúpforeldrið ekki þekkt barnið frá upphafi. Barnið og stjúpforeldrið þarf því tíma og frið til að fá að kynnast og finna út hvernig þeirra samband getur þróast. Þetta getur oft reynst erfitt í stjúptengsla fjölskyldum vegna þess að foreldrarnir og oft börnin líka eru með fyrirfram ákveðnar væntingar sem oft á tíðum byggja á fyrri reynslu og er ekki rætt um. Það er því mikilvægt að foreldrarnir ræði saman um það hvernig þeir ætli að sinna sínu foreldrahlutverki í sameiningu. Það er mjög algengur misskilningur að stjúpforeldri eigi ekki að bera ábyrgð á og taka frumkvæði varðandi stjúpbörn sín. Börnin segja oft við stjúpforeldrið í upphafi að það ráði ekki yfir sér og þar fram eftir götunum. Lífforeldrið vill oft ekki að gera kröfur og ekki heldur að stjúpforeldrið sé að skipta sér af uppeldinu. Þetta er regin misskilningur allra aðila vegna þess að samkvæmt lögum er stjúpforeldri jafn ábyrgt fyrir afkomu og velferð þeirra barna sem hann/hún búa með og lífforeldri og þar með þurfa þeir að hafa með að gera málefni er varða barnið. Það hvers eðlis tengslin svo eru, er eins og áður segir eitthvað sem þarf að fá tíma og rými til að þróast. Mikilvægast er þó að hafa í huga hvað varðar nýja foreldra sem koma til leiks í stjúpfjölskyldunum að þeir nálgist stjúpbörn sín af varfærni og virðingu fyrir því að þau eigi aðra foreldra utan heimilisins sem þeim þykir vænt um og vilja oftast ekki að ýtt sé til hliðar. Það er því mikilvægt að stjúpforeldrið komi inn sem viðbót við foreldrahópinn en ekki í staðinn fyrir það foreldri sem fyrir er.

Fjölskyldan sem heild: Þegar ný fjölskylda er mynduð úr hlutum gamalla fjölskyldna eins og samsettar fjölskyldur eru þá eru nokkur grundvallar atriði sem mikilvægt er að hafa í huga. Dæmi um slíkt eru atriði eins og mikilvægi þess að mynda samheldni í fjölskyldunni í gegnum venjur sem sameina allan fjölskylduhópinn og búa til rammann í kringum hugtakið „að tilheyra” fjölskyldu. Til þess að þetta geti gengið til heilla fyrir fjölskylduna þarf að huga að því að fjölskyldumeðlimir hafa mismunandi þarfir varðandi það að halda í gömlu fjölskylduhefðirnar sínar og líka gagnvart því að búa til nýjar. Barn til dæmis hefur kannski þörf fyrir að halda í eitthvað úr gömlu fjölskyldunni sem foreldrið vill endilega losa sig við kannski vegna þess að sú venja er ættuð úr fjölskyldu fyrrverandi maka og viðkomandi hefur aldrei líkað við þessa venju. Slíka hluti er mikilvægt að ræða til að vita hversu mikilvægt er þetta fyrir barnið og að hve miklu leyti eru foreldrar tilbúnir að koma til móts við börn sín vegna þess að þau hafa þörf fyrir að fá að tilheyra áfram fjölskyldum beggja foreldra sinna. Sé fjölskyldan hugmyndarík hvað varðar að skapa sér sínar sérstöku hefðir þá trufla gömlu hefðirnar kannski ekki eins og þær myndu annars gera.

Annað atriði sem er einnig mjög mikilvægt er að fjölskydan hafi möguleika á að gefa leyfi fyrir undirhópum. Þannig að ekki sé reynt að þurrka út til dæmis þá hópa sem eiga gömul tengsl sín á milli. Það er til dæmis mjög mikilvægt fyrir börn að geta átt stundir með lífforeldri sínu einu jafnvel þó það hafi aðlagast vel nýju fjölskyldunni. Þau tengsl eiga aðra sögu en önnur tengsl innan fjölskyldunnar og því meiri viðurkenning sem er á því því minna verður það ógnandi fyrir fjölskylduna sem heild. Alsystkin hafa einnig þörf fyrir að geta átt stundir saman. Þetta fer auðvitað eitthvað eftir því á hvaða aldri börnin eru þegar skilnaður á sér stað og einnig þegar nýja fjölskyldan myndaðist. Það sem ber að varast varðandi þetta er að börnin fari að stýra fjölskyldulífinu öllu með þörf sinni fyrir aðgreiningu en það er ekki uppbyggilegt fyrir þau að vera í því hlutverki.

Eitt af mikilvægustu verkefnunum sem samsettar fjölskyldur eru að fást við er á hvaða hátt þær tengjast fjölskyldu fyrrverandi maka og foreldri barnanna. Það er mjög mikilvægt fyrir börnin að samskiptin milli fjölskyldnanna sem eru tvær í hugum margra fjölskyldumeðlima en ein í huga barnanna séu vinsamleg. Börnin hafi þannig frið til að skilgreina sig sem hluta af öllum hópnum. Á sama tíma og á sama hátt er það mikilvægt fyrir nýju fjölskylduna að setja ramma í kringum þann hóp svo það takist að skapa öryggi fjölskyldumeðlima gagnvart sinni heimastöð.

Tengslin við stórfjölskyldu foreldra barnanna er einnig mikilvægt að rofni ekki þrátt fyrir skilnað eða fráfall foreldris. Það er auðvitað á ábyrgð hvers foreldris fyrir sig að sjá svo um gagnvart sinni eigin fjölskyldu en foreldrar þurfa einnig að vera jákvæðir gagnvart því að barnið taki þátt í ýmsu sem er að gerast í fjölskyldu hins foreldrisins þannig að barnið finni að það er leyfilegt. Í sumum tilfellum eins og við fráfall foreldris þá þarf eftirlifandi foreldri að sjá um að tengslin við hina fjölskylduna rofni ekki. Það er auðvitað einnig á ábyrgð meðlima í stórfjölskyldu eins og ömmu og afa til dæmis að rækta tengsl við barnabörn sín þrátt fyrir skilnað eða fráfall barna sinna. Því vinsamlegri sem samskiptin eru milli aðila því auðveldara verður að uppfylla þarfir barnanna hvað varðar fjölskyldutengsl.

Lokaorð

Mér finnst mikilvægt að undirstrika í lokin mikilvægi þess að foreldrar hugi að því við myndun nýrrar fjölskyldu að það er hægt að hafa áhrif á það hver fjölskyldusaga barna þeirra er. Góð spurning fyrir foreldra að spyrja sig er “hvaða sögu vil ég að börnin mín segi um fjölskyldu sína þegar þau eru orðin fullorðin”? Þá er mikilvægt að hafa í huga atriði eins og hvernig leið mér, hvernig voru tengsl mín við foreldra mína, hvernig studdu foreldrar mínir við bakið á mér þegar þau skildu og svo framvegis.