Sálgreining

Sálgreining er samtalsmeðferð sem ég þekki af eigin reynslu og virkar vel til geðverndar. Hún felst í því að fara reglulega, minnst einu sinni í viku, stundum oft í viku, til sálgreinis, leggjast þar á bekk og segja allt sem í hug kemur.

Þetta er eina reglan sem fara þarf eftir til að rétt sé að farið. Segja allt sem í hug kemur. Þá batnar fólki smátt og smátt, án þess í raun að vita hvers vegna. Batinn kemur svona meðfram, í og með vegna þess að upp á yfirborðið kemur margt sem var hulið, gleymt, bælt og skrumskælt. Við að koma fram í dagsljósið og færast í orð, okkar eigin orð, í þessu sérsniðna samhengi, verður sumt af þessu bælda efni óvirkt. Við sjáum jafnvel að við erum búin að burðast með ótta og kvíða við eitthvað sem við héldum ógnvænlegt, en reynist svo í raun ekki vera neitt sérstakt, bara gömul lunma.

Erfiða korterið

Geðlæknir nokkur í Madison í Wisconsin, James P. Gustafson að nafni, mælir eindregið með því að öllum brögðum sé beitt í leit að betri líðan. Þá skal notuð hugræn atferlismeðferð í bland við sálgreiningu og aðrar aðferðir sem fundnar hafa verið upp í geðverndarskyni. Hann nefnir þennan hnút sem leysa þarf erfiða korterið. Þegar fólk lifir frekar við kvíða og ótta árum saman í stað þess að nefna hlutina sínum réttu nöfnum eða horfast í augu við sannleikann, af ótta við að erfiðleikarnir við það verði okkur um megn. Betra er að ganga í gegnum erfiða korterið en að láta hnútinn menga allt okkar líf, segir hann.

Máttarorð

Sagan um Gilitrutt er mér hjartfólgin, því að hún segir svo vel frá mætti orðanna. Húsfreyja lifir alla meðgönguna í ótta við að hún finni ekki út nafnið á tröllskessunni, sem í skiptum fyrir vaðmálið sem hún vinnur handa húsfreyju vill að hún finni út sitt rétta nafn. Húsfreyja gerir samt ekkert sérstakt í málunum en lætur tímann líða. Loks fer húsbóndi að snuðra, kemst að hinu sanna og færir heim lausnarorðið. Við það springur skessan. Líkt er með mörg önnur vandamál, ef við nefnum þau réttu nafni missa þau ofurmátt sinn á okkur og þau verða það sem þau eru, verkefni sem hægt er að leysa.

Líka sögu má lesa um í bók Marie Cardinal "Les mots pour le dire" eða lausnarorð, þar sem hún segir frá sjö ára langri sálgreiningu sinni á áhrifamikinn hátt. Konan í köflótta stólnum eftir Þórunni Stefánsdóttur er sömuleiðis vel skrifuð og áhugaverð saga konu sem hlaut bata af sálgreiningu.

Samtalsmeðferð jafnhliða lyfjum

Samtalsmeðferð af ýmsum toga reynist hin besta vörn gegn þunglyndi og kvíða, ýmist ein sér eða með lyfjum. Lyf ein og sér eru að mínu mati ekki beysin nema til að halda niðri einkennum. Þau lækna ekki meinið, sem er samfélagslegt í bland við líkamleg einkenni. Fólk ætti að leita sér að þeirri tegund samtalsmeðferðar sem hentar.

Sálgreining er hættulaus með öllu, en hún er óneitanlega tímafrek og dýr. Hún er ekki niðurgreidd af tryggingastofnun. Sálgreinir er ekki lögverndað starfsheiti hér á landi. Nokkuð er misjafnt eftir löndum hvernig námi og þjálfun sálgreina er háttað. Sumir viðurkenna aðeins læknismenntaða sálgreina, sem eru þá geðlæknar í grunninn. Í öðrum löndum er löng hefð fyrir leikmönnum í stéttinni, sem bæta sálgreiningarnámi ofan á annað háskólanám, oft eftir að hafa stundað aðra starfsgrein lengi. Aðalkrafa sem gera má til sálgreinis er löng persónuleg sálgreining samkvæmt því sjónarmiði að ekki sé unnt að hjálpa fólki lengra en við komumst sjálf.

Sálgreining er erfið og sársaukafull tilfinningalega. Hún er erfið af því að þegar losað er um hömlur og stíflur vill sannleikurinn brjótast fram á of miklum hraða að því er virðist. Líkt og kvíði og þunglyndi er þungbært vegna þess að ekki verður ráðið við margar tilfinningingar og atvik í einu, er batinn erfiður því að margt skellur á í sama mund. Þegar við höfum vanist erfiðum aðstæðum er það vissulega breyting þegar þær hverfa og betra tekur við. Breyting sú getur verið þungbær þótt hún sé í átt til bata. Allt þetta er hægt að tala um í sálgreiningu. Sniðugt er að fjölga tímum til að hafa undan að nefna það sem kemur upp úr kafinu.

Hnausþykk þögn

Stundum ríkir þögnin. Ýmist er okkur tregt tungu að hræra vegna þess að okkur dettur ekkert í hug, eða vegna þess að við viljum ekki segja það sem vill brjótast fram. Það er ekki pent að segja það, það gæti spælt sálgreininn, það gæti komið upp um þjóðþekkta persónu, eða hvað sem er. Þögnin er í sjálfri sér talandi. Hún er stundum fylgifiskur tára eða endurminninga um svíðandi atvik.

Draumar

Sigmund Freud fann upp sálgreininguna þegar vinur hans, Breuer, gafst upp á að sinna Berthu Pappenheim. Bertha ofbauð á vissan hátt sómatilfinningu Breuers og endaði svo á að leita á hann full ástríðu. Þá flúði Breuer en Freud tók við og þoldi allt sem upp kom. Þau Bertha fundu út að við að tala um hlutina misstu þeir tök á henni svo að hún hætti að finna til doða í handleggjum, falla í mók og finna til alls kyns annarra óþæginda. Þar með var talmeðferðin komin, eins og Bertha kallaði hana, þegar hún kallaði hana ekki skorsteinshreinsun til gamans.

Freud sagði að d raumar væru konungleg leið að ómeðvitundinni. Ef við skoðuðum þá vel og segðum það sem upp í hugann kæmi, væri hægt að ráða í hvað væri að leita sér leiðar til meðvitundar okkar. Mismæli hjálpar líka. Þá erum við kannski að reyna að segja það sem hæfir, það sem er pent og leyfilegt, en hið ósagða og bælda reynir að frussast meðfram og koma fram í dagsljósið. Brandarar, orðaleikir, gleymska og mistök eru líka hjálparkokkar sálgreiningar.

Stökkbreyttir sálgreinendur

Stundum er þvílík hamingja á ferð að okkur dettur helst í hug að hætta sálgreiningunni. Þá er kominn dýrlegur tími til sagna, því að gleði og hamingja skila sérlega miklum bata og baða aðra tíma sálgreiningarinnar dýrðarljóma.

Dívanliggjandinn er sálgreinandinn í sögunni, sem segir sálgreininum hugsanir sínar. Sálgreinirinn segir fátt enda eru staður og stund frátekin handa sálgreinandanum. Fleira er það en orðin sem lætur sálgreininguna ganga. Draumar og mismæli hafa áður verið nefnd til sögunnar. Ýmislegt háttarlag bendir einig til breytinga og bata. Fólk fer að klæða sig öðruvísi, skiptir um hárgreiðslu, flytur, skiptir um vinnu, um vinahóp o.fl. Það sem brýst fram er persónan sjálf og fólk finnur að það þráir að verða það sjálft og fá loksins að tjá sig með eigin orðum og athöfnum.

Viðbrög umhverfisins

Stundum eru engin viðurlög við breytingunum. Það er á vissan hátt spælandi að hafa hagað sér eins og hrædd mús öll þessi ár og mega svo alveg breyta um stíl án þess að nokkur hreyfi mótbárum. Líka er spælandi að frelsast og gleðjast og finna umhverfið spyrna við fótum.

Algengt er að bestu vinir og fjölskylda láti orð falla um asnalega sálgreiningu. "Af hverju ferðu ekki heldur í leikfimi/jóga/gestalt? Það er arfavitlaust að grufla í fortíðinni, taktu frekar lyf og farðu svo í hugræna atferlismeðferð…" Fólk sem vill vel getur hræðst hið óþekkta og misst út úr sér vanhugsuð orð.

Komdu til sjálfrar þín/ finndu sjálfan þig

Ég er guðfræðingur og hef lært margt nýtt af sálgreiningu. Að sama skapi held ég að aðrar starfsstéttir finni sitthvað við sitt hæfi í ljósi sálgreiningar. Franski sálgreinirinn Marie Balmary lagði það á sig að læra grísku og hebresku til að leiða fram í dagsljósið sameiginlegt misminni margra vina sinna um ýmsa texta Biblíunnar. Hún fetti fingur út í umsagnir Freuds um trúarbrögðin, sem hann taldi stafa af taugaveiklaðri þörf eftir að hylja sannleikann. Hún sýnir fram á sérstaka áherslu Guðs á að kalla fólk til þess að verða það sjálft. Þannig hrifsaði Guð Abraham og Söru út úr gamla landinu til að fara út í óvissuna. Hefð okkar les þarna hversu hlýðinn Abraham var, vildi m.a.s. fórna sínum eigin syni handa Guði. En Marie segir að Guð hafi verið að kalla þessi hjón burt frá endalausri hringrás örlaganna og hefða ættbálksins til að taka frekar upp spennandi líf óvissunnar, þar sem fólk leitast við að verða það sjálft. Og Ísak, einkasonur þeirra sem Guð hafði lofað þeim, þau áttu ekkert að fórna honum, heldur varð Abraham að gefa honum frelsi, viðurkenna að Ísak ætti sig sjálfur, til að hann gæti orðið frjáls eins og foreldrarnir.

Veldu þá lífið

Í Mósebókunum er brýnt fyrir lýð Guðs að taka á móti gjöfum hans og velja frekar það sem er til heilla en til óheilla. Taldar eru upp góðar gjafir Guðs og handleiðsla hans alla tíð. Það er boðið upp á að halda sig við þá gæsku og gleði með því að velja meðvitað þá leið sem Guð býður, velja lífið en ekki það sem gæti leitt til glötunar. Þannig erum við gerendur á eigin lífsleið en ekki leiksoppar blindra örlaga. Sem gerendur viljum við stýra lífi okkar og færa það til eins góðrar leiðar og okkur er unnt. Ef á bjátar er nauðsynlegt að leita sér hjálpar. Hana má upp að vissu marki finna í bókum.

Sigurjón Björnsson þýddi rit Freuds á íslensku og skrifaði bók um sálkönnun og sállækningar. Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir hefur skrifað bókina "Hvað gengur fólki til?- Leit sálgreiningar að skilningi" þar sem hún setur fram á skýran hátt margt sem til hjálpar getur komið. Eins er mikinn fróðleik að finna í þunglyndissíðum á netinu sem Ólöf I. Davíðsdóttir heldur til haga og finnast á slóðinni http://www.gospelcom.net/cdp/is

Jesús frá Nasaret spurði fólk "Viltu verða heill? Viltu verða heil?" Hér er nefnilega um val að ræða. Viljum við halda áfram að velkjast um í greipum vanans eða þorum við að taka skref út í óvissuna á leið til bata? Ég sting upp á að fólk lesi sér til eða hugsi sig um og leiti sér svo hjálpar þar til það finnur það sem hentar best.