Röntgenmyndir

Hvað eru röntgenmyndir?

Næstum 100 ár eru liðin síðan farið var að taka röntgenmyndir af innviðum líkamans í þeim tilgangi að finna breytingar og greina sjúkdóma. Röntgentækninni hefur fleygt fram frá því að einungis var hægt að taka einfaldar myndir af líffærum og vefjasvæðum og er þróunin gífurleg. Tæknin er orðin ómissandi þáttur á mörgum sviðum læknisrannsókna.

Hvernig eru röntgenmyndir teknar?

Venjulegar röntgenmyndatökur, til dæmis lungnamyndatökur eða röntgenmyndatökur vegna slysa, hafa verið notaðar reglubundið í áratugi.

  • Röntgenmyndavélin sendir geisla, t.d. gegnum lungu, hönd eða fót, og með því næst skuggamynd á röntgenfilmuna. Stundum er að auki notað skuggaefni, til að fá mynd af holrúmum, göngum og leiðslum í líkamanum. Það geta verið æðar, innanverður magi og þarmar, gall- eða þvagrásir.
  • Ef rannsaka á magann og skeifugörnina þarf að drekka skuggaefnið fyrir myndatökuna.
  • Ef rannsaka á ristilinn er skuggaefninu dælt inn í gegnum endaþarminn, upp allan ristilinn.
  • Við rannsókn á nýrum er skuggaefninu sprautað í æð, og skilst það síðan frá í nýrunum, og nýrnaskjóðan, þvagleiðararnir og þvagblaðran koma í ljós.

Hvað er sneiðmyndataka (CT-skan)?

Einn háþróaðasti búnaðurinn sem notaður er til röntgenrannsókna eru svokallaðar sneiðmyndavélar. Þær hafa verið í þróun á undanförnum 20-30 árum.

  • Sneiðmyndavélin er röntgentæki, þar sem röntgenmyndavélinni er komið fyrir í búnaði sem sjúklingnum er rennt liggjandi í gegnum.
  • Við myndatökuna sendir röntgenmyndavélin geisla í millimeters þykkum sneiðum, t.d. gegnum höfuð sjúklingsins, brjóstkassa eða kviðarhol. U.þ.b. 1000 litlir móttakarar taka síðan við geislunum eftir að þeir hafa farið gegnum líkamann, en röntgenmyndavélin fer í hringi kringum sjúklinginn. Þetta tekur örfáar sekúndur, og á þeim tíma fást meira en milljón upplýsingar. Því næst vinnur viðeigandi tölva úr upplýsingunum, og innan hálfrar mínútu má sjá framúrskarandi skýra mynd.

Er hættulegt að fara í röntgenmyndatöku?

Allar röntgenmyndatökur og sneiðmyndatökur hafa í för með sér röntgengeislun. En með nútíma tækjum er geislunin svo væg að um smámuni er að ræða samanborið við kostina við slíkar rannsóknir.