Róandi lyf

Róandi lyf

Róandi lyf eru flest af flokki bensódíazepína en þau lyf eiga það sameiginlegt að vera kvíðastillandi og róandi, og hafa þar að auki flest einhverja svæfandi verkun. Þau eru notuð við ýmiss konar tímabundnum kvíða og taugaveiklunareinkennum. Lyfin hafa engan lækningamátt gagnvart taugaveiklunareinkennum en geta haldið þeim í skefjum og auðveldað þannig aðra meðferð.

Séu bensódíazepínlyf tekin reglulega í langan tíma myndast þol gegn þeim og nauðsynlegt verður að taka sífellt stærri skammta. Ef lyfjatöku er hætt eftir langvarandi notkun bensódíazepínlyfja koma fram fráhvarfseinkenni sem geta varað í margar vikur eftir að töku er hætt. Þetta er einkum kvíði, pirringur, svefnleysi og martraðir. Oft er því ráðlegt að minnka lyfjatöku í áföngum frekar en að hætta snögglega ef þessi lyf hafa verið notuð lengi eða vera viðbúinn fráhvarfseinkennum og sætta sig við þau.

Algengt er að fólk sem háð er áfengi eða öðrum vímuefnum misnoti róandi lyf. Þegar þessi lyf eru tekin með áfengi er verkun þeirra ekki alltaf róandi eða svæfandi og aldrei ætti að gefa fólki sem er undir áfengisáhrifum róandi lyf í því skyni að róa það eða hjálpa því að sofna. Sömuleiðis er talið varasamt fyrir áfengissjúkling, sem tekist hefur að halda sér frá víni um hríð, að taka róandi lyf þar sem slíkt getur æst upp áfengislöngun.

Eitt lyf í þessum flokki, búspíron (Buspirone Orion og Exan), hefur nokkra sérstöðu þar sem það er ekki af flokki bensódíazepína og verkar á aðra viðtaka í heilanum. Þetta lyf líkist að nokkru þunglyndislyfjum og er ekki talið valda fíkn eða fráhvarfi.