Reykleysi er lífsspursmál

Eftir 35 ára aldur stytta reykingamenn að meðaltali lífshlaup sitt um þrjá mánuði fyrir hvert það ár sem þeir fresta því að drepa í síðustu sígarettunni. Sjúkdómar, minnkandi lungnavirkni og vanmáttur gera vart við sig þegar reykingamenn fara að nálgast efri árin sem lýsir sér í minnkuðum lífsgæðum samanborið við þá sem reyklausir hafa verið. Meira að segja litlar og léttar reykingar er dauðans alvara, sér í lagi með tilliti til hjarta- og æðasjúkdóma,“ segir dr. Robert West, prófessor í sálfræði við University College London.

West, sem staddur var hér á landi fyrir skömmu á vegum lyfjafyrirtækisins Pfizer og Félags íslenskra heimilislækna, hefur tekið þátt í fjölda rannsókna sem tengjast nikótíni og tóbaksnotkun. Hann hefur rannsakað fíkn, fráhvörf og mismunandi leiðir til að hætta að reykja. Rannsóknir hans hafa aukið skilning á nikótínfráhvarfi og hvernig auka megi áhugann hjá þeim sem vilja hætta að reykja. Eftir hann hefur birst fjöldi vísindagreina auk þess sem hann ritstýrir tímaritinu Addiction.

Ekki hólpnir eftir árið

West segir afar þýðingarmikið að reykingamenn gefi reykingar upp á bátinn á meðan þeir eru enn ungir. Fíknin sé þó ákaflega sterk og flókið fyrirbæri. Stuðningur fagmanna á borð við heimilislækna geti því skipt sköpum í því hvort tilætlaður árangur í átt til reykleysis næst eða hvort allar slíkar tilraunir fjúka út í vindinn. Rannsóknir sýna að 75% tilrauna til reykleysis án aðstoðar eða hjálparmeðala verða að engu innan viku og aðeins innan við 5% reykingamanna, sem gera tilraunir til að hætta sjálfir og án aðstoðar, eru enn reyklausir eftir heilt ár. Þrátt fyrir heilt ár án sígarettunnar geta þó 40% reykingamanna átt á hættu að falla á ný í nikótíngryfjuna innan næstu átta ára.

Þrátt fyrir mikla staðfestu er þessi hjalli erfiðastur fyrir þá reykingamenn sem hafa þurft að kveikja sér í um leið og þeir opna augun á morgnana. Yngri reykingamenn eru gjarnan ákveðnari en þeir sem eldri eru í að koma sér undan tóbaksfíkninni þó að þeir yngri séu ólíklegri til að ná tilætluðum árangri. Lítil sem engin tengsl eru á milli þess hve mikið reykingamenn í reynd óska þess að hætta og þess hvaða líkur eru á því að þeim takist það ætlunarverk sitt.

Læknar og lyf geta hjálpað

Nikótínið hefur margþætta virkni á heilann. Það kallar m.a. á sterkar hvatir til að reykja, skapar nikótínhungur og framleiðir óþægileg fráhvarfseinkenni þegar heilinn hefur gengið á nikótínbirgðir sínar. Með góðum stuðningi heimilislækna og þeirra hjálparmeðala sem í boði eru nú til dags eru þó líkur á varanlegu reykleysi mun betri en ef menn ætla sér ekki að nýta þau ráð sem í boði eru.

„Læknar byrja því miður yfirleitt ekki að ræða um reykingar við fólk fyrr en sjúkdómar hafa bankað upp á en það er mjög áríðandi að hvetja ungt fólk til að drepa í svo það geti vænst þess að lifa heilsusamlegu lífi,“ segir West. „Og nú eru til árangursríkar aðferðir fyrir þá sem vilja láta af þessum heilsuspillandi ósið. Því ekki að nota þær? Það þykir ekkert veikleikamerki að taka verkjatöflu við höfuðverk eða sýklalyf við sýkingu. Af hverju ættu þá reykingamenn að hika við að nota nikótíntyggjó, nikótínplástur eða lyfin Zyban eða Champix til þess að bjarga eigin skinni?“

Hann segir mikið í húfi. „Allir reykingamenn telja sig geta hætt sjálfviljugir og án hjálpar en staðreyndin er önnur enda er nikótínfíknin bæði sterk, öflug og skæð. Rannsóknir hafa sýnt að árangursríkasta aðferðin í baráttunni við tóbaksfíknina eru hjálparmeðul samfara stuðningi læknis. Hjálparmeðulin frelsa reykingamenn ekki allt í einu frá tóbaksfíkninni en þau draga úr óslökkvandi löngun eftir sígarettunni og hjálpa til við að halda í viljastyrkinn með því að draga úr fráhvarfseinkennum.“

Hann bætir við að þó fyrsta reykleysistilraun gangi ekki upp sé um að gera að hvetja menn áfram til dáða með öðrum aðferðum. „Ef ekkert gengur, til dæmis með plástri og menn eru enn að bjástra við fráhvarfseinkenni á borð við þunglyndi, einbeitingarskort og pirring, má hugsa sér að prófa lyfseðilsskyldu lyfin Zyban eða Champix næst og sjá hvert það leiðir.“

Boð og bönn virka ekki

West leggur áherslu á að boð og bönn séu ekki líkleg til árangurs. Því ættu heimilislæknar miklu fremur að vera vakandi yfir því að bjóða fram hjálp sína og stuðning þegar ungt fólk leitar sér læknisaðstoðar við hverju sem er. „Flestir reykingamenn hafa reynt að hætta mörgum sinnum og reykingar er yfirleitt ekki hægt að fela því sjaldan lýgur reykingalyktin. Því meira sem við uppgötvum um nikótínfíknina, því flóknari verður hún. Við vitum t.d. að nikótín er ástæða f&ia cute;knar en það er samt ekki nikótínið sjálft sem reykingamennirnir eru ofurseldir þó að nikótínið sé ástæða þess að menn verði háðir sígarettunni. Reykingar eru öllu heldur nautnafullt hegðunarmynstur sem tengist nikótínbúskap í heila. Nikótín í þeim skömmtum sem reykingamenn fá er tiltölulega hættulaust enda veldur nikótín hvorki krabbameini né hjartasjúkdómum. Hinsvegar valda önnur efni í sígarettunni slíkum sjúkdómum,“ segir West.

West segir ofangreind reykleysislyf hafa borið góðan árangur í baráttunni. „Þunglyndi er versta fráhvarfseinkenni þeirra sem leggja sígarettuna frá sér. Það verður allt í einu erfitt að taka sér fyrir hendur verkefni sem útheimta andlega áreynslu líkt og reykleysið svo sannarlega gerir. Í slíkum aðstæðum geta lyfin án efa hjálpað mönnum við að standast freistinguna auk þess sem sálfræðimeðferðir og íþróttaiðkun hafa í sumum tilvikum virkað hvetjandi á fólk til að hætta reykingum,“ segir dr. Robert West og bætir að lokum við að stöðugt sé unnið að klínískum rannsóknum á því hvernig best sé að fá reykingafólk til að leggja sígarettuna varanlega á hilluna.

Fráhvarfseinkennin

* Þunglyndi

* Kvíði

* Einbeitingarskortur

* Reiði

* Svengd

* Munnsærindi

Grein þessi  er eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur blaðamann og birtist fyrst í Morgunblaðinu 16-04-2008