Reykingar ungra kvenna

Tilefni þessarar smásjárskoðunar á konum og reykingum er “Evrópuvika gegn krabbameini 2001” þar sem reykingar ungra kvenna eru í brennidepli. Áratugum saman hefur rannsóknarstarf beinst að því að greina sjúkdómsvalda í umhverfi okkar eða lifnaðarháttum í því skyni að fjarlægja eða minnka áhættu einstaklinga á sjúkdómum. Ógrynni vísindagreina hafa sýnt skaðleg áhrif reykinga á heilsu þess sem reykir og nú á seinni árum einnig á heilsufarsskaða þeirra sem verða fyrir óbeinum reykingum. Íslenskar rannsóknir hafa sýnt sambærilegar niðurstöður. Í Hóprannsókn Hjartaverndar hefur mátt skoða þátt reykinga í sjúkdómstíðni þátttakenda frá upphafi og sýndi sig fljótt að þeir sem reyktu höfðu m.a. aukna tíðni á kransæðasjúkdómi og lungnakrabbameini. Lífslíkur þeirra voru einnig verri en hinna sem ekki reyktu. Það þarf því ekki að efast um að þessi þekking eigi við á Íslandi. Þó er hvetjandi að sjá hve sjúkdómsáhætta sem fylgir reykingum lækkar hratt eftir að þeim er hætt.

Sérstaða kvenna með tilliti til reykinga.

Flestir sjúkdómar sem reykingar valda eru lengi að búa um sig í líkamanum. Það skýrir hve oft er erfitt fyrir einstakling að átta sig á tengslum reykinga við sjúkdóma. Auk þess að valda krabbameinum og ótímabærri æðakölkun (í hjarta og heila) eiga reykingar stóran þátt í þróun langvinnra lungnasjúkdóma og hraða öldrun líkamans. Þessa verður vart í ríkara mæli hjá konum en körlum og sést í hærri áhættu þeirra á þessum sjúkdómum. Konur sem reykja fara einnig í tíðahvörf 2 – 3 árum fyrr en reyklausar konur og frjósemisskeið þeirra styttist. Þeim er hættara við beinþynningu og fleira mætti telja til.

En hvað með ungu konurnar?

Konur á aldrinum 20 til 35 ára sem reykja verða helst varar við reykingahósta sem er berkjubólga, algeng afleiðing reykinga. Frjósemi þeirra sem hóps er minnkuð og fósturlát eru tíðari. Konur sem reykja á meðgöngu fæða að meðaltali léttari börn, fyrirburafæðingar eru tíðari og hætta á vöggudauða aukin. Noti kona getnaðarvarnarpillur samhliða reykingum er aukin hætta á aukaverkunum af þeim. Að öðru leyti eru þessar konur í blóma lífsins og það er seinna á ævinni sem alvarlegri sjúkdómar gera vart við sig, ef reykt er áfram. Árlega deyja á Íslandi 42 konur úr lungnakrabbameini (þar af 10 – 11 fyrir sextugt) og 48 karlar (7 eru yngri en 60 ára). Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbamein hjá konum eftir 55 ára aldur. Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er verulega hærri hjá konum sem reykja en reyklausum. Þannig er fjórföld hætta á að deyja úr kransæðastíflu fyrir sjötugt hjá konu sem reykir en hjá reyklausri og tvöföld hætta á dauða vegna heilablóðfalls.

Nýleg úttekt á heilsufari kvenna á Íslandi leiddi í ljós að ungar konur hér á landi vinna mikið og lýsa aukinni vinnustreitu. Þó hefur mörgum þeirra tekist að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl með aukinni líkamsrækt og þeirra fæðuval er fituminna en karla á sama aldri. Því miður er ekki sömu sögu að segja um reykingavenjur. Tíðni reykinga meðal kvenna hér á landi er mjög há og var fyrir fáum árum eitt af tíu hæstu löndum sem skráð voru hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Slíkur samanburður fæst ekki lengur en þó reykleysi sé auðvitað almenna reglan reykja nú um 26% kvenna. Reykingar á meðgöngu eru þó ívið sjaldgæfari en áður og er það vel.

Það er full ástæða fyrir ungar konur sem reykja að hugsa alvarlega um að hætta, ekki bara vegna barneigna, heldur sjálfra sín vegna. Sífellt fjölgar valkostum í ráðgjöf og stuðningi við konur sem vilja hætta að reykja. Því er boltinn nú hjá þeim konum sem reykja að taka ábyrgð á eigin heilsu – í tíma.