Reykingar dauðans alvara …

Inngangur

Bæklingur þessi er gefinn út af Hjartavernd

Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf starfsemi sína árið 1967. Rannsóknir stöðvarinnar hafa lagt grunn að þekkingu á helstu áhættuþáttum hjarta-og æðasjúkdóma hérlendis. Frá upphafi hefur fræðsla til almennings á þessum áhættuþáttum verið samtvinnuð allri starfsemi Hjartaverndar. Mikilvægt atriði í forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma er að þjóðin þekki þessa áhættuþætti og tileinki sér lífsstíl til að forðast þá.

Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi

Helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma hérlendis samkvæmt niðurstöðum rannsókna Hjartaverndar eru: reykingar, blóðfitutruflanir, hækkaður blóðþrýstingur, sykursýki og kyrrseta. Fleiri þættir koma til eins og ofþyngd og streita. Margir þessara áhættuþátta eru þess eðlis að með ákveðnum lífsstíl er hægt að draga verulega úr áhrifum þeirra.

Útgáfa Hjartaverndar

Hjartavernd hefur frá upphafi gefið út tímaritið HJARTAVERND og á s.l. árum fjórblöðunga sem hefur verið dreift til allra landsmanna. Á heimasíðu Hjartaverndar: www.hjarta.is er að finna frekari fræðslu. Í kaflanum um forvarnir er m.a. umfjöllun um reykingar.

 

Á næstu misserum mun Hjartavernd gefa út ritröð bæklinga þar sem hver og einn af fyrrgreindum áhættuþáttum verður tekinn fyrir. Við ríðum á vaðið með þeim áhættuþætti sem þjóðinni stafar einna mest ógn af, reykingum. Bæklingurinn er ætlaður fólki á öllum aldri og er honum dreift á hvert heimili og fyrirtæki í landinu. Tilgangur hans er að auka við skilning fólks á skaðsemi reykinga á hjarta- og æðakerfið. Markmiðið er að reykingafólk hætti reykingum og reyklausir byrji aldrei.

Reykingar

Íslensk reynsla

Reykingar margfalda áhættuna á að deyja úr kransæðastíflu

Niðurstöður Hjartaverndar eru byggðar á hóprannsóknum sem staðið hafa frá árinu 1967. Þær hafa gert kleift að kanna afdrif þess stóra hóps sem hefur tekið þátt í þessum rannsóknum.

Af 9.326 körlum sem voru þátttakendur í hóprannsókn Hjartaverndar voru 3.179 látnir í árslok 1997 og af 10.062 konum voru 2.255 látnar á sama tíma.

Þáttur reykinga hefur sérstaklega verið kannaður (þ.e. hvort viðkomandi reykti og hve mikið). Hjartavernd hefur borið saman hópinn sem aldrei hafði reykt eða var hættur að reykja við hópinn sem reykti. Við slíkan samanburð kemur í ljós að úr hópnum sem reykti einn pakka af sígarettum á dag dóu nálægt þrefalt fleiri karlar og fjórfalt fleiri konur úr kransæðastíflu fyrir sjötugt en í reyklausa hópnum.

Dánartíðni af völdum heilablóðtappa og annarra blóðrásarsjúkdóma var einnig meiri en tvöföld miðað við reyklausa hópinn.

Í meðfylgjandi súluritum eru hlutfallslegar dánarlíkur hópanna sýndar. Hlutfallslegar dánarlíkur, sem voru settar 1,0 hjá þeim sem aldrei höfðu reykt, fóru upp í 7,4 hjá konum sem reyktu meira en 1 pk/dag. Það þýðir að hættan á að deyja úr kransæðastíflu meira en sjöfaldast hjá konu sem reykir meira en 1 pk/dag.

Reykingar

Dánarorsakir

Reykingar magna upp skaðleg áhrif annarra áhættuþátta fyrir æðasjúkdómum s.s. hækkaðrar blóðfitu, hækkaðs blóðþrýstings og sykursýki. Hafir þú einn þekktan áhættuþátt hjarta- og æðasjúkdóma magnar þú hann með því að reykja. Suma þætti, eins og kyn, aldur og ætt, getum við ekki haft áhrif á en reykingar er sá áhættuþáttur sem algjörlega er í okkar valdi að forðast.

Fólk með hækkaðan blóðþrýsting eða hækkaða blóðfitu á ekki undir nokkrum kringumstæðum að reykja. Reykingar auka dánarlíkur verulega. Allir deyja einhvern tímann, en reykingar geta flýtt fyrir. Súluritið hér fyrir neðan sýnir hvernig dánarlíkur fyrir sjötugt margfaldast hjá reykingafólki. Líkur einstaklings sem ekki reykir á að deyja fyrir sjötugt eru settar 1.0.

Meðal annars má lesa úr súluritinu að það er fimm sinnum líklegra að kona sem reykir meira en 1 pk/dag deyi fyrir sjötugt en reyklaus kona.

Ævilíkur

-Styttri hjá reykingafólki

Hver hefur áhuga á að stytta líf sitt um nokkur ár? Fólk beitir ýmsum ráðum til að lifa lengur og er oft tilbúið að eyða töluverðu fjármagni í það.

Ævilíkur eru líkurnar á hvað viðkomandi á eftir mörg ár ólifuð. Með hækkandi aldri minnka ævilíkurnar hjá öllum einstaklingum. Reykingarmenn minnka ævilíkur sínar meira en þeir sem ekki reykja.

Niðurstöður hóprannsókna Hjartaverndar gera mögulegt að reikna út að ævilíkur þeirra sem reykja eru verulega styttri í árum talið en & thorn;eirra sem ekki reykja.

 

Meðfylgjandi tafla sýnir hvað reykingamaður getur búist við að stytta ævi sína um mörg ár. Hún sýnir svo ekki verður um villst að ævilíkur styttast verulega með reykingum.

Lengra líf

Einföld leið

Góðu fréttirnar eru þær að með því að hætta að reykja færðu hugsanlega tækifæri til að bæta mörgum góðum árum við ævina. Fertugur einstaklingur sem reykt hefur einn pakka af sígarettum á dag og ákveður að hætta að reykja fær þannig tækifæri til að bæta við ævina 6-7 árum, fimmtugur bætir við sig 5-6 árum, sextugur 4-5 árum og sjötugur einstaklingur getur bætt við 3-4 árum.

Maðurinn hefur frá örófi alda leitað að lausninni að lengra og betra lífi. Hér er áhrifarík lausn fyrir reykingafólk: Hættu að reykja, lífslíkur þínar aukast og heilsan batnar.

Fimmta hvert dauðsfall er af völdum reykinga

Daglega deyr einn Íslendingur vegna þeirra

Á árunum 1991-1995 dóu að meðaltali 1.780 Íslendingar árlega. Samkvæmt útreikningum Hjartaverndar má áætla að 370 þeirra hafi dáið af völdum sjúkdóma sem rekja megi til reykinga. Með öðrum orðum, a.m.k. fimmta hvert dauðsfall á Íslandi má rekja til reykinga. Þannig deyr að meðaltali einn Íslendingur á hverjum degi vegna reykinga. Hlutfallið er enn hærra í aldurshópnum 35-69 ára og má rekja nær þriðja hvert dauðsfall hjá fólki í blóma lífsins til reykinga.

Súluritið sýnir fjölda þeirra Íslendinga sem ætla má að deyi á einu ári af völdum mismunandi sjúkdóma sem tengjast reykingum. Flestir gera sér grein fyrir því að reykingar geta valdið krabbameini, en færri tengja þær við hjarta- og æðasjúkdóma.

Helmingur dauðsfalla sem tengjast reykingum er vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Súluritið sýnir ekki þann stóra fjölda fólks sem þjáist af ýmsum sjúkdómum sem rekja má til reykinga án þess að þeir valdi dauða.

Afleiðingar reykinga eru eitt helsta heilbrigðisvandamál á Íslandi í dag.

Ayðveldara að venja sig á en af

Það er tiltölulega auðvelt að ánetjast tóbaki, öllu meira mál er að losna undan því. Fáir sem byrja að „fikta“ við reykingar hafa í hyggju að verða háðir þeim fram í rauðan dauðann.

Unga kynslóðin

Unglingur sem byrjar að fikta við reykingar ætlar sér ekki að reykja alla ævi. Í nýlegri rannsókn þar sem kannað var af hverju unglingar byrjuðu að reykja kom m.a. í ljós að þeir sem byrjuðu ætluðu sér ekki að verða reykingamenn. Unglingur gerir sér hvorki grein fyrir afleiðingunum né hve sterk tóbaksfíknin er. Afleiðingar reykinga á hjarta- og æðakerfið koma oft ekki í ljós fyrr en mörgum árum eftir að viðkomandi byrjar að reykja. Unglingurinn er ekki mikið að velta því fyrir sér hvort hann fái kransæðastíflu um miðjan aldur. Fertugsaldurinn er svo óralangt fjarri áhyggjulausum unglingi.

Reykingar hafa veruleg áhrif á heilsuna. Við verðum að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir að börnin okkar byrji að reykja. Sýnt hefur verið fram á, að áhættan er sérstaklega mikil, ef reykingar hefjast fyrir 15 ára aldur. Börn og unglingar eru skynsamt fólk. Áhrifaríkasta forvörnin er að koma þeim í skilning um að sleppa alfarið reykingum. Hér er verk að vinna sem ætti að skila miklum árangri.

Konur

Niðurstöður Hjartaverndar hafa leitt í ljós að áhættan á að fá kransæðastíflu eykst hlutfallslega enn meira hjá konum en körlum sem reykja. Nýlegar tölur benda til vaxandi reykinga meðal ungra stúlkna og kvenna. Því leggjum við sérstaka áherslu á að konur og ungar stúlkur reyki ekki.

Og allir…

Sá hópur fullorðinna sem reykir er enn allt of stór (25-30%).

Við þennan hóp segjum við: Það er aldrei of seint að hætta! Það borgar sig alltaf.

Niðurstöður rannsókna Hjartaverndar hafa sýnt fram á að meðal þeirra sem hættu að reykja, á hvaða aldri sem er, minnkar áhættan á að fá hjarta- og æðasjúkdóm verulega.

Fólk sem fengið hefur kransæðastíflu og reykir fær hana síður aftur ef það hættir að reykja. Því fyrr sem hætt er að reykja, þeim mun betra.

Ýmsar leiðir til að hætta reykingum

Það að hætta reykingum er eitt hið besta sem hægt er að gera fyrir heilsuna. Til að auðvelda leiðina eru á boðstólnum ýmiss konar námskeið. Margir nota níkótínlyf. Einnig er til lesefni fólki til stuðnings til að hætta reykingum. Tóbaksvarnanefnd býður upp á ráðgjöf í reykbindindi í síma 800 6030.

Reykleysið hefst hjá þér: Taktu ákvörðun um að hætta og fylgdu henni eftir.

Birt með góðfúslegu leyfi Hjartaverndar. Áður birt á Heimasíðu Hjartaverndar www.hjarta.is Ábyrgðarmaður bæklings: Gunnar Sigurðsson, læknir, formaður Hjartaverndar
Samantekt: Ástrós Sverrisdóttir, fræðslufulltrúi Hjartaverndar, astros@hjarta.is