Reykbindindisnámskeið fyrir unglinga

Unglingar

Forvarnarstarf á unglingastigi þarf að snúast um nútíðina. Skírskota þarf til þess sem skiptir ungling mestu máli: Að vera viðurkenndur í vinahópnum, að vera sjálfstæður, að prófa eitthvað nýtt, gera ýmislegt eftir sínu eigin höfði og þar fram eftir götunum. Leitast verður við að skapa jákvæðan hópþrýsting um reykleysi. Einnig skiptir máli að unglingar átti sig á því hvaða ábyrgð þeir bera og að þeir séu oft á tíðum fyrirmynd annarra og þá einkum þeirra sem yngri eru. Reykingar eru nátengdar sjálfsímynd þeirra. Þær eru líka félagslegt atferli. Unglingar sem reykja hópa sig gjarnan saman og nota sígarettuna sem „félagsskírteini“ og samskiptahækju. Sá unglingur sem ætlar að hætta að reykja er því undir margþættu álagi. Hann verður ekki eingöngu að glíma við fíkn heldur einnig við félagahópinn.

Námskeið í reykbindindi

Mikið og gott starf hefur verið unnið í tóbaksvörnum í samvinnu við grunnskóla landsins. Ráðgjöfin hjá Krabbameinsfélaginu felst í meginatriðum í því að einstaklingur/vinahópur er boðaður í viðtal til fræðslufulltrúa 1-4 sinnum í um það bil ½-1 klst. í senn, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Í viðtölunum er meðal annars fjallað um reyklaus svæði, fráhvarfseinkenni, nikótínlyf (18-20 ára – ekki er hægt að mæla með nikótínlyfjum handa unglingum, nema í samráði við foreldra og heimilislækni), beinar og óbeinar auglýsingar og langvarandi afleiðingar tóbaksneyslu.

Fyrst er undirbúningsfundur þar sem farið er yfir reykingavenjur þátttakenda. Þegar hópur/einstaklingur hittist í annað skipti er H-dagur (ég er hætt/ur að reykja) – fyrsti reyklausi dagurinn. Hjálpa þarf hverjum og einum þátttakanda að skipuleggja hvernig hún/hann tekst á við fyrsta reyklausa daginn, sem er gífurlega mikilvægur, svo og dagana sem á eftir fylgja.

Sérstaklega þarf að leiðbeina unglingnum um félagslega þætti, þ.e. vinahópinn og samskiptavenjur hans. Mikilvægt er að beita aðferðum sem geta komið hverjum og einum til hjálpar á erfiðum augnablikum og geta falið í sér breytingar á daglegum venjum. Þriðji og fjórði fundur eru svo stuðningsfundir til þess að leiða unglingana í gegnum fráhvarfseinkenni og styrkja þá í ákvörðuninni að hætta að reykja. Í lokin fá svo þátttakendur viðurkenningarskjal fyrir góðan árangur. Eftirfylgni er með sama hætti hjá einstaklingum og hópum. Hringt er í viðkomandi einu sinni í viku í þrjár vikur og síðan eftir 3 og 6 mánuði.

Vert er að taka fram að með reykbindindisnámskeiðunum sem haldin eru fyrir unglinga hér hjá Krabbameinsfélaginu er ekki verið að taka við þeim grunni sem þegar er til staðar í skólum landsins. Ráðgjöfin er hugsuð sem úrræði eftir að skólar (forvarnarfulltrúar, námsráðgjafar) hafa reynt til hins ítrasta að aðstoða unglingana.

Vefur Krabbameinsfélagsins, krabb.is