Rétttrúnaðarkirkjan

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Rétttrúnaðarkirkjan

Eastern Orthodox

Hin kristna kirkja klofnaði í Austurkirkjuna (grísku rétttrúnaðarkirkjuna) og Vesturkirkjuna (kaþólsku kirkjuna) á 4. öld eftir Krist. Klofningurinn stafaði fyrst og fremst af landfræðilegum ástæðum, en einnig kom til guðfræðilegur ágreiningur er varðaði ákveðin túlkunaratriði, notkun mismunandi helgigripa, viðhorf til hjónabands presta og notkun latínu við messur. Klofningur þessi leiddi til fulls aðskilnaður Austur- og Vesturkirkjunnar nokkrum öldum síðar. Þær hafa hins vegar færst nær hvor annarri á ný á síðustu áratugum og gildir hið sama um margar aðrar kristnar kirkjudeildir.

Þar sem þjóðkirkjur Austurkirkjunnar eru sjálfstæðar, getur einhver munur verið á milli þeirra hvað varðar áherslur og viðhorf sem þá tengjast e.t.v. fremur menningarlegum en trúarlegum áhrifum.

Rétttrúnaðarkirkjan er stærst í Rússlandi, en hún er einnig útbreidd í Grikklandi, Rúmeníu, Albaníu, Finnlandi, Póllandi, Tékklandi, meðal serba og víðar í Austur-Evrópu. Nokkur hundruð manns sem tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni hafa flust hingað til lands á undanförnum árum.

Helgisiðir

Í rétttrúnaðarkirkjunni er altarisganga miðlæg í trúarlífinu og ganga flestir til altaris ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Fastað er fyrir altarisgöngur en það er misjafnt hversu löng fastan er eða allt frá 6 klukkustundum (í grísku kirkjunni) upp í tvo daga, það er frá og með föstudegi til sunnudags (í rússnesku kirkjunni). Ekki er lögð áhersla á föstu fyrir altarisgöngu þegar sjúklingar eiga í hlut.

Börn eru venjulega skírð innan 40 daga frá fæðingu. Ef framkvæma þarf skemmriskírn og prestur rétttrúnaðarkirkjunnar er ekki til staðar, getur kristinn einstaklingur skírt barnið með því að ausa það vatni og skíra það “til nafns Föðursins, Sonarins og Heilags Anda”.

Samkvæmt hinu gamla tímatali Austurkirkjunnar eru jól haldin 7. janúar og gamlársdagur 14. janúar. Nú orðið á þetta aðallega við um kirkjudeildir í Rússlandi og e.t.v. í einhverjum löndum Austur-Evrópu. Í Grikklandi og víðar er nú farið eftir hinu nýja tímatali og því eru jól og áramót á sama tíma og annars staðar í hinum Vestræna heimi.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Engar sérstakar fæðuvenjur eru í gildi.

Föstur
Fyrir flesta er fasta mikilvægur þáttur í trúarlífinu. Þó að kirkjan hafi gefið út ákveðnar reglur í þessum efnum þá er það strangt til tekið val einstaklingsins hvort hann fastar eða ekki. Þeir sem fasta, fasta þá helst á miðvikudögum og föstudögum, sem þýðir að þeir borða hvorki kjöt né mjólkurafurðir þessa daga og sumir neyta ekki olífuolíu á föstudögum, á það einkum við um Grikki. Svo kölluð sjö vikna fasta er fyrir páska og jól auk nokkurra annarra föstutímabila yfir árið, sem standa ýmist einn eða fleiri daga í senn. Föstuvenjur fólks í rétttrúnaðarkirkjunni geta verið mismunandi eftir því hvaðan það kemur og hverju það hefur átt að venjast.

Börn og sjúklingar eru undanþegnir föstu.

Hreinlæti
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að hreinlæti.

Hreyfing
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að hreyfingu.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Reykingar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að reykingum.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Rétttrúnaðarkirkjan leggur mikið upp út sterkum fjölskyldutengslum og fjölskylduhátíðum.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Rétttrúnaðarkirkjan er samþykk hefðbundinni læknismeðferð sem verndar líf og tekur tillit til vilja sjúklingsins. Rétttrúnaðarkirkjan hafnar líknardauða, en er ekki andvíg því að hætta meðferð sem eingöngu viðheldur lífi algjörlega háðu tæknilegri aðstoð.

Orsakir sjúkdóma
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að orsökum sjúkdóma.

Getnaðarvarnir
Rétttrúnaðarkirkjan er ekki andsnúin getnaðarvörnum, nema þeim sem fela í sér fósturlát s.s. fóstureyðingarpillan.

Fóstureyðingar
Algjört bann er við fóstureyðingum nema líf móður sé í hættu.

Meðganga
Rússneska rétttrúnaðarki rkjan er afar tortryggin á meðgöngueftirlit, sem felur í sér athuganir s.s. sónar eða athugun á fósturgenum án sérstakra tilefna. Almenna reglan er sú að hún samþykkir slíkt aðeins ef óttast er um velferð eða heilsu móður eða barns. Þá er kirkjan andvíg tæknifrjóvgun.

Líffæraflutningar
Ekki er andstaða við líffæraflutninga svo fremi að það sé að vilja sjúklingsins og/eða aðstandenda hans. Einstaklingur getur gefið líffæri úr sjálfum sér til bjargar öðrum. Er þá litið á slíkt sem sjálfsfórn í trúarlegum skilningi og verður einstaklingurinn að gera sér fulla grein fyrir afleiðingunum. Þó er það ekki leyfilegt setji það gefanda í lífshættu.

Verkjameðferð
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að verkjameðferð.

Blóðgjafir
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að blóðgjöf.

Krufningar
Rétttrúnaðarkirkjan er ekki alfarið á móti krufningu liggi góð læknisfræðileg rök að baki svo og samþykki aðstandenda.

Snerting

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við þá er tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni sem lýtur að snertingu.

Samskipti

Fjölskyldur eru vanar að vaka yfir sjúklingi hvort sem hann er deyjandi eða ekki og vilja dveljast sem mest hjá honum.

Lögð er áhersla á að sjúklingur deyi ekki einn. Ef ættingjar og vinir eru ekki til staðar er nauðsynlegt að einhver heilbrigðisstarfsmaður sé hjá sjúklingnum við andlát.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Ekki eru gerðar aðrar ráðstafanir varðandi umönnun sjúkra og deyjandi en þær sem jafnan gilda við slíkar aðstæður. Þó verður að gera ráð fyrir að aðstandendur geti dvalist sem mest hjá sjúklingnum hvort sem um deyjandi sjúkling er að ræða eða ekki. Sjúklingar eða aðstandendur kunna að vilja hafa einhvern helgigrip í augsýn og eru það þá helst íkonar sem eru helgimyndir, einkennandi fyrir rétttrúnaðarkirkjuna.

Það er einstaklingsbundið val sjúklingsins hvort hann óskar eftir að fasta, skrifta og fá sakrament á sjúkrabeði. Komi þessar óskir fram er rétt að hafa samráð við sjúklinginn, m.a. um það hvort hann þiggi þjónustu annað hvort prests þjóðkirkjunnar eða kaþólsku kirkjunnar, ef prestur rétttrúnaðarkirkjunnar er ekki til staðar. Venjulega kunna einstaklingar sem tilheyra Austurkirkjunni því vel að prestur heimsæki þá daglega og hafi bænastund við sjúkrabeðið. Það er hluti af trúarlífi þeirra og menningu.

Margir sjúklingar sem tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni vilja deyja heima, nærri fjölskyldu sinni, ef því verður við komið.

Lögð er áhersla á að sjúklingur deyi ekki einn. Hefðin er sú að lesið er úr Biblíunni, einkum úr sálmunum, fyrir deyjandi sjúkling, nema hann óski sérstaklega eftir að slíkt sé ekki gert. Eftir andlátið er gjarnan höfð bænastund og lesnir textar úr sálmunum og kveikt á kerti við íkon.

Venjulega fer umönnun eftir andlát fram á hefðbundinn hátt. Hafa skal samráð við ættingja varðandi sérstakar venjur eða óskir sem þeir kunna að hafa. Þeir gætu til að mynda óskað eftir því að taka þátt í aðhlynningunni.

Umhverfi

Ekki þarf að gera neinar sérstakar ráðstafanir varðandi umhverfi sjúklings aðrar en þær, að gera ráð fyrir að aðstandendur geti dvalist sem mest hjá honum. Sjúklingar eða aðstandendur gætu kosið að hafa einhvern helgigrip hjá sér og eru það þá helst íkonar (helgimyndir) sem eru einkennandi fyrir rétttrúnaðarkirkjuna.

Útför og greftrun

Jarðaförin fer fram helst innan sólarhrings frá andláti að höfðu samráði við útfararstofu.

Rétttrúnaðarkirkjan er ekki samþykk bálför.

Minningarguðsþjónusta um hinn látna er síðan haldin 40 dögum eftir andlátið eða jarðaförina (sbr. upprisu Krists). Þessar minningarstundir gegna mikilvægu hlutverki í sorgarferli fjölskyldunnar. Þá tíðkast það í rétttrúnaðarkirkjunni að hafa árlegan minningardag helgaðan framliðnum.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda