Ráðleggingar til ferðamanna

Ferðalög
Áður en lagt er af stað
Ónæmisaðgerðir
Ferðaapótek
Ferðaniðurgangur
Vatn
Matur
Háfjallaveiki
Sól
Skordýrabit
Snákabit
Hundaæði (rabies)
Böð í sjó eða ferskvatni
Kynsjúkdómar, þar með talið alnæmi
Varnir gegn lifrarbólgu
Varnir gegn malaríu
Við heimkomu

 • Ferðalög
 • Íslendingar eru mikið á faraldsfæti, t.d. hafa verið skráðar hartnær 170-180 þús. ferðir til og frá landinu árlega undanfarin ár. Af þeim hópi fóru vafalaust margir í sumarleyfisferðir á suðlægar slóðir og langflestir til Miðjarðarhafslanda og suðurhluta N-Ameríku, þótt ferðum til Suðaustur-Asíu, Afríku og víðar fari fjölgandi. Viðhorf ferðalanga til umhverfisins geta verið breytileg allt frá því að „vilja lifa eins og innfæddur" til þess að borða einungis hangikjöt, hákarl og svið sem haft var með í farteskinu.

  Engar upplýsingar eru til um tíðni sjúkdóma meðal Íslendinga á ferðalögum. Ýmsar rannsóknir meðal nágrannaþjóða benda þó til að 5-20% ferðalanga þjáist af ýmsum kvillum meðan á ferðalagi stendur. Tíðni þessara kvilla fer að sjálfsögðu mjög eftir því hvert er farið. Haldbærasta ráðið gegn þeim er að reyna að koma í veg fyrir þá strax í upphafi og tryggja þannig ánægjulegt ferðalag. Í þeim tilgangi eru eftirfarandi ráðleggingar settar fram. Þær ættu engan að hræða enda setja þær í fæstum tilvikum neinar teljandi hömlur á hegðun ferðalanga. Rétt er að hafa í huga að langþráð og dýr ferð verður til lítils ef tímanum er eytt í niðurgangspest á hótelherbergi.

 • Áður en lagt er af stað
 • Ef menn ætla til Evrópulanda (þar með talið Kanaríeyja, Azóreyja og Madeira), N-Ameríku, Japans, Ástralíu og Nýja Sjálands er engra sérstakra ráðlegginga þörf varðandi ónæmisaðgerðir eða lyfjatöku í varnarskyni umfram það sem um var getið í almennum ráðleggingum um bólusetningar fullorðinna. Ferðalangar sem ætla annað þurfa að gera sér grein fyrir viðeigandi ráðstöfunum í tíma, þar sem stundum þarf nokkrar vikur svo hægt sé að framkvæma nauðsynlegar bólusetningar. Allir sem eru með langvinna sjúkdóma, t.d. lungnasjúkdóma, hjartasjúkdóma, sykursýki eða nýrnasjúkdóma ættu að ræða við lækni sinn fyrir brottför. Ástæða kann að vera til að hafa með sér stutta lýsingu læknis á sjúkdómi og meðferð og jafnvel nýlegt hjartalínurit. Sé meira en nokkurra daga ferð ráðgerð er sjálfsagt að fara til tannlæknis nokkrum vikum fyrir brottför. Gott er að hafa meðferðis auka gleraugu eða augnlinsur og einnig ávísun á ný gleraugu.

  Sjá töflu barnabólusetningar
  Sjá töflu bólusetningar fullorðinna

  Sjálfsagt er að hafa ferðatryggingu og í sumum tilvikum er það nauðsynlegt. Kostnaður vegna sjúkdóma og slysa sem verða á Norðurlöndum eða í Bretlandi er greiddur af viðkomandi ríki og þarf ferðalangurinn yfirleitt ekki að hafa áhyggjur af því. Ef slíkt hendir í öðrum löndum endurgreiðir Tryggingastofnun hér kostnað að hluta og er upphæðin miðuð við kostnaðarverð sams konar þjónustu hérlendis. Þetta er á stundum of lág upphæð, sérstaklega getur heilbrigðisþjónusta í Bandaríkjunum orðið mönnum dýrkeypt. Þá fæst 50-75% kostnaðar greiddur, en afganginn verður ferðalangurinn (eða ferðatrygging hans) að bera. Þetta gildir einungis um kostnað vegna slysa og veikinda, ekki heilbrigðiseftirlits (t.d. mæðraeftirlits og bólusetninga) á ferðalagi. Ennfremur verður ferðalangurinn að eiga lögheimili á Íslandi til að fá þennan kostnað greiddan.

 • Ónæmisaðgerðir
 • Hægt er að fá almennar upplýsingar um bólusetningu á öllum heilsugæslustöðvum landsins, Landspítalanum og á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík. Á þessum stöðum eru bólusetningar einnig framkvæmdar. Skyldubólusetningar er nú einungis krafist gegn gulusótt (yellow fever) og aðeins við komu til tiltekinna landa. Í þeim tilvikum þarf ferðalangurinn gilt bólusetningarvottorð viðurkennt af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Vottorð um bólusetningu gegn gulusótt eru gefin út á heilsuverndarstöðinni í Reykjavík, á Landspítalanum og einnig á Akureyri. Skv. tilmælum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er skyldubólusetningar gegn kóleru ekki lengur krafist. Aðrar bólusetningar og varnaraðgerðir eru síðan ráðlagðar í ákveðnum tilvikum samanber töflur:

  Sjá töflu barnabólusetningar
  Sjá töflu bólusetningar fullorðinna

  Sérstök ástæða er til að minna á endurnýjun bólusetningar gegn stífkrampa og mænusótt hafi það ekki verið gert fyrr. Mikilvægt er að huga að bólusetningum í tíma, lítið gagn er að bólusetningu sem gefin er brottfarardag.

 • Ferðaapótek
 • Fólk sem tekur lyf að staðaldri ætti að taka með sér nægilegt magn af lyfjum sínum svo það endist þeim alla ferðina. Í sumum löndum eru hættuleg efni í lyfjum sem seld eru án lyfseðils við algengum kvillum eins og niðurgangi. Á stöku stað eru fólki gefnar sprautur í lyfjabúðum og er ekki víst að þær séu ætíð sótthreinsaðar. Þeir sem þurfa á sprautum að halda, t.d. sykursýkissjúklingar, ættu að hafa nægilegt magn af eigin nálum og sprautum með í ferðinni. Hér á eftir fer tafla yfir ferðaapótek hins almenna ferðalangs. Það fer að sjálfsögðu eftir þörfum og áfangastað hvort menn hafa þetta allt með sér. Sé ferðinni heitið annað en til hinna venjulegu ferðamannastaða, á staði þar sem búast má við að erfiðlega gangi að ná til læknis, þarf stundum að bæta við þennan lista.

  1. Nægilegt magn af þeim lyfjum sem menn þurfa að taka að staðaldri.
  2. Sárabindi, plástur.
  3. Skordýrafælandi úði eða smyrsl.
  4. Sólaráburður.
  5. Joðlausn (2% joðspritt), klórhexidín (Hibiclens) eða aðrar upplausnir til sótthreinsunar sára.
  6. Væg verkjalyf (t.d. Magnyl eða parasetamól).
  7. Sýrubindandi lyf.
  8. Lyf við ferðaveiki.
  9. Niðurgangslyf, t.d loperamid (Imodium) eða diphenoxylat (Retardin).
  10. Malaríulyf: Klórókín (Avloclor), proguaníl (Paludrine) eða meflókín (Lariam) eftir því sem við á.

 • Ferðaniðurgangur
 • Niðurgangur er einn af óþægilegustu kvillum ferðalanga og jafnframt einn sá algengasti. Búast má við að 10-40% ferðamanna fái niðurgang. Þetta hrjáir einkum íbúa norðlægari slóða sem sækja suður á bóginn. Tvær mismunandi myndir sjúkdómsins geta komið fram

  1. Vatnskenndur niðurgangur, oftast án hita og verulegra almennra einkenna. Langalgengasta orsök er þarmabakterían E. coli sem veldur niðurganginum með framleiðslu eiturefnis. Aðrar orsakir eru veirur (rotaveirur, Norwalk veirur), einfrumungurinn Giardia lamblia, matareitranir af völdum staphylokokka og Clostridia og (örsjaldan) kólera. Ennfremur getur niðurgangurinn stafað af öðrum þáttum en sýklum t.d. breyttu mataræði, spennu, þreytu o.fl.

  2. Alvarlegri niðurgangur eða blóðkreppusótt með hita, hrolli, höfuðverk, kviðverkjum og niðurgangi með slími og jafnvel blóði. Helstu sökudólgar eru bakteríur á borð við Salmonellu, Camphylobakter, Shigella, ífarandi E. coli og amöbur.

  Niðurgangssýklarnir berast undantekningarlítið til fólks með matvælum. Þess vegna ættu menn að forðast matvæli sem kunna að vera menguð. Ferska ávexti ætti að þvo vandlega og síðan afhýða. Grænmeti og salat þarf einnig að þvo áður en þess er neytt. Forðast ætti illa soðinn eða steiktan mat svo og sósur og majones sem ekki hefur verið geymt við nægilega köld skilyrði. Einnig ætti að forðast ósoðið vatn, þar með talið ísmola.

  Unnt er að koma í veg fyrir ferðaniðurgang með því að taka sýklalyf í varúðarskyni. Almennt er þó ekki ástæða til slíks, enda er nokkuð um aukaverkanir og ennfremur er hætta á að bakteríur verði ónæmar fyrir viðkomandi sýklalyfjum þegar á að nota þau til lækninga. Í undartekningartilvikum kemur þó til greina að nota varnarmeðferð með sýklalyfjum, t.d. hjá fólki með ákveðna langvinna sjúkdóma, ef ferðast er í tiltekinn tíma um svæði þar sem með öllu er útilokað að fá hreint vatn, eða ferðin sé sérlega mikilvæg, t.d. alþjóðleg íþróttakeppni. Vismut töflur (bismut subsalicylat) geta ennfremur dregið verulega úr líkum á ferðaniðurgangi, séu 2 töflur teknar reglulega, fjórum sinnum á dag. Lyfið fæst án lyfseðils. Tunga og hægðir verða svört af völdum vismúts og einnig getur borið á suði fyrir eyrum. Notkun vismuts er því fremur óhentug enda lyfið lítið notað.

  Mikilvægasta varnaraðgerðin er þó að forðast menguð matvæli eins og áður segir. Eftirfarandi atriði ber að hafa í huga varðandi meðferð:

  1. Sérstök meðferð er oft óþörf þegar sjúkdómurinn er vægur.

  2. Þó þarf ætíð að varast að líkaminn þorni um of með því að drekka mikið af vökva t.d. gosdrykki, ávaxtasafa eða fyrirfram blandaða „orkudrykki". Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með að blanda eftirfarandi í einn lítra af soðnu vatni:

  a. 1/2 teskeið (3,5 g) af matarsalti (natríum klóríð). b. 1/2 teskeið (2,5 g) af bökunarsóda (natríum bikarbónat). c. 1/4 teskeið (1,5 g) af gervisalti (kalíum). d. 4 matskeiðar (20 g) af sykri.

  Blanda má þessu dufti saman fyrir brottför í litla pakka í plastpokum.

  3. Vismut töflur (bismut subsalicylat): 2-3 töflur á hálftíma fresti átta sinnum í mesta lagi. Eins og áður sagði fellur mörgum lyfið illa og er það lítt notað.

  4. Hvílist, forðist hita og sólskin, neytið ekki kaffis, alkóhóls og mjólkurafurða meðan niðurgangur varir.

  5. Ef niðurgangur er ekki af alvarlegra taginu (sjá að ofan) má taka niðurgangslyf, lóperamíð (Imodium) eða difenoxýlat (Retardin). Takið þau ekki ef niðurganginum fylgir hiti, hrollur, blóðugar eða slímugar hægðir.

  6. Ef ofangreind meðferð hefur ekki borið árangur í sólarhring og niðurgangur er ekki alvarlegur má nota sýklalyf á borð við cíprófloxacín, ófloxacín eða súlfametoxazól og trímetóprím (Primazol, Bactrim). Þau skal taka tvisvar á dag í 3 daga.

  Ferðalöngum er eindregið ráðlagt að leita læknis:

  1. ef niðurgangur varir lengur en í 5-7 daga. 2. ef blóð eða mikið slím er í hægðum. 3. ef sjúklingur fær hita með skjálfta (einkum ef hiti varir lengur en í 1-2 sólarhringa) eða ef ógleði eða uppköst verða veruleg. 4. ef niðurgangur er mikill og mjög tíður (á hálftíma fresti). 5. ef sjúklingur finnur fyrir svima eða liggur við yfirliði. 6. ef sjúklingurinn er barn (5 ára eða yngri).

 • Vatn
 • Kranavatn utan landa í NV-Evrópu og N-Ameríku getur verið mengað þó það sé hreinsað í ýmsum stærri hótelum í stórborgum. Því ber að forðast neyslu þess, bæði rennandi vatns og ísmola nema ljósar upplýsingar liggi fyrir um öryggi. Annars á alltaf að sjóða kranavatnið og nægir að sjóða það í 2-5 mínútur. Óhætt er að neyta gosvatns (mineralvatns), gosdrykkja, öls og vína án þess að óttast mengun. Sama gildir um heitt kaffi og te. Margir virðast telja að sterk vín sótthreinsi vatn og ísmola, slíkt er mikill misskilningur.

  Á stöðum þar sem ekki er hægt að sjóða vatn eða fá aðra drykki er unnt að hreinsa vatnið með joði. Setja má 4-6 dropa af 2% joðspritti (spiritus jodi) í 1 l af vatni ef það er tært, en 10 dropa í gruggugt eða mjög kalt vatn. Vatnið þarf síðan að standa í að minnsta kosti hálftíma áður en þess er neytt.

 • Matur
 • Eins og segir hér að framan ber að forðast ósoðinn eða illa soðinn mat. Ennfremur getur kaldur eða endurhitaður matur verið varasamur. Forðast ber hrátt grænmeti og ávexti sem ekki þarf að flysja svo og hráan skelfisk. Nýsoðinn matur sem borinn er fram snarpheitur er öruggastur. Mat sem eldaður er nokkrum klukkutímum fyrir neyslu þarf að geyma við hitastig undir 10°C eða yfir 60°C til að öryggi sé tryggt. Matvæli sem geymd eru við umhverfishita (15-40°C) í meira en 4-5 klst. eru einna hættulegust að þessu leyti þar sem sýklum (ef þeir eru í matnum) getur fjölgað í matnum við þau skilyrði. Ferðamenn ættu því að muna algengt ráð:

  „Elda, skræla, annars ekki" („Cook it, peel it, or leave it").

 • Ferðaveiki
 • Hægt er að forðast ferðaveiki (bílveiki, sjóveiki, flugveiki) með því að taka ferðaveikitöflu (meclozin o.fl.) um 1-2 klst. fyrir brottför og síðan á 12 klst. fresti. Einnig er unnt að setja plástur með skópólamíni (Scopoderm) á húð bak við eyra 5-6 klst. fyrir brottför. Verkun varir í um þrjá sólarhringa. Hvort tveggja getur valdið sljóleika og syfju og ættu menn ekki að stjórna ökutæki undir áhrifum lyfjanna.

  Ferðalangar sem fljúga yfir marga lengdarbauga mega búast við flugþreytu og ættu að gera ráð fyrir því að þeir þurfi 1 dag til að ná sér fyrir hverja 1-2 klst. tímabreytingu.

 • Háfjallaveiki
 • Bráð háfjallaveiki einkennist af höfuðverk, ógleði, uppköstum, svefnleysi og slappleika. Allt að helmingur þeirra sem fara hratt uppí 3000-4000 m hæð yfir sjávarmál (t.d. í Kletta-, Andes- og Himalayafjöllunum) geta fengið háfjallaveiki við þessar aðstæður. Á sumum stöðum, t.d. í Klettafjöllunum, er unnt að aka í venjulegum bíl upp í u.þ.b. 4000 m hæð, svo menn þurfa ekki að stunda mikla fjallamennsku til að geta fengið háfjallaveiki. Sjúkdómurinn getur valdið lungna- og heilabjúg og leitt þannig til dauða. Meðferð er fólgin í gjöf súrefnis og þvagræsilyfja, en meginatriðið er að fara sem fyrst niður aftur. Unnt er að komast hjá þessu með því að fara hægt upp og dvelja í nokkra daga í 2000-2500 m hæð áður en lengra er haldið. Hægt er að flýta aðlögun með töku acetazolamíðs (Diamox), en lyfið þarf ekki að koma í veg fyrir háfjallaveiki.

 • Sól
 • Fölir íbúar norðurálfu brenna fljótt ef aðgát er ekki sýnd við sólböð. Fyrstu 1-2 dagana ættu sólböð ekki að vara lengur en 15-20 mínútur. Sjálfsagt er að nota einhver sólvarnarefni. Sólvarnarolíur eða krem sem innihalda para-amínóbensosýru eru áhrifaríkust þeirra mörgu sólvarnarefna sem eru á markaðnum. Mikilvægt er að bera á sig sólvörnina áður en farið er út í sólina. Þegar dvalið er nærri sjó eða í snjó margfaldast hættan á sólbruna og þá er nauðsynlegt að nota sólvörn frá fyrstu stundu. Ef fólk svitnar mikið eða syndir þarf að bera sólvörnina á sig oft á dag. Sólvarnarefni eru miskröftug, og er styrkleikinn gefinn upp sem „faktor". Faktor 8 þýðir að með efninu þolir húðin sólarljós 8 sinnum lengur en þegar hún er óvarin. Oftast nægir faktor 8 fyrstu dagana og síðan lægra faktorgildi. Rauðhært fólk ætti þó að nota faktor 15 eða 20 í byrjun og sama gildir um þá sem þegar eru lítilsháttar brenndir. Við vægum sólbruna er best að nota sérstakan sólaráburð („after sun") og forðast sól í 1-2 daga, en við alvarlegri bruna má nota hydrókortisónkrem í litlum mæli.

  Varast ber mikla áreynslu í hita. Vökvatap með svita undir slíkum kringumstæðum getur valdið blóðþrýstingsfalli og yfirliði. Sjaldgæft er að menn fái sólsting, en einkenni hans eru rugl, meðvitundarleysi og líkamshiti yfir 40°C. Strax og örlar á þessum einkennum verður að leita læknis.

  Fróðleikur um sólarvarnir

 • Skordýrabit
 • Skordýr bera ýmsa sjúkdóma, fyrir utan að vera fólki yfirleitt til leiðinda. Mörg skordýr, þ.á.m. moskítóflugan sem ber malaríu, fara einkum á kreik eftir að skyggja tekur og eru mest áberandi við vötn og á votlendi. Miklu máli skiptir að nota flugnanet að næturlagi á slíkum svæðum sé gist utan loftræstra hótela, svo ekki sé minnst á næturstaði í tjöldum úti á víðavangi. Til að forðast skordýrabit eftir að skyggja tekur er mikilvægt að hylja húðina, helst með víðum klæðnaði með löngum ermum og síðum skálmum. Þetta á einkum við á malaríusvæðum. Smyrsl eða úðar til að fæla skordýr koma að góðu haldi, en einungis ætti að nota efni sem innihalda meira en 30% dietyl toluamid (DEET) en þau eru að sjálfsögðu seld undir ýmsum nöfnum. Þegar menn hafa lokað tjaldi sínu eða herbergi að kvöldi er skynsamlegt að úða það að innan með flugnafælandi efni (inniheldur pyrethrum). Sporðdrekabit geta verið mjög sársaukafull en yfirleitt eru þau ekki hættuleg nema fyrir smábörn. Slík bit er unnt að forðast með flugnanetum og með því að líta vel í skóna sína á morgnana.

  Fróðleikur um geitungastungur og skordýrabit

  Fróðleikur um skógarskorkvikindi

 • Snákabit
 • Snákar eru landlægir víða og eru helst á ferli að næturlagi. Því er viturlegt að vera í uppháum skóm með skálmar ofan í sé fólk á ferli á snákasvæðum að næturlagi. Móteitur er til gegn ýmsum snákabitum og er oftast til reiðu á þeim svæðum þar sem viðkomandi snákur á heimkynni sín.

 • Hundaæði (rabies)
 • Hundaæði er veirusjúkdómur sem berst oftast með biti dýra og leiðir þá sem sjúkdóminn fá nær ætíð til dauða. Sjúkdómurinn berst ekki einungis með hundum heldur geta kattabit og/eða bit frá nautgripum ekki síður borið sjúkdóminn. Veiran getur einnig borist frá hrossum, kindum og jafnvel svínum. Veiran finnst einnig í mjög mörgum villtum dýrum, sérstaklega refum, úlfum, sjakölum, skúnkum, þvottabjörnum, villiköttum, smáöpum og leðurblökum. Hins vegar þarf ekki að óttast bit lítilla nagdýra, fugla og skriðdýra hvað þetta varðar. Tiltölulega fá lönd heims virðast vera laus við veiruna, þau eru helst Ástralía, Bermuda, Finnland, Gíbraltar, Ísland, Írland, Japan, Malta, Nýja-Sjáland, Noregur (nema Svalbarði), Kyrrahafseyjar, Portúgal, Spánn, Svíþjóð og Bretland. Ferðamönnum sem starfs síns vegna eru líklegir til að komast í nána snertingu við húsdýr og/eða villt dýr utan þéttbýlis í öðrum löndum er ráðlögð bólusetning fyrir brottför. Gefnir eru 3 skammtar bóluefnis í röð á 3-4 vikna tímabili (dagur 0, 7, 21 eða 28).

  Ef aðrir, óbólusettir ferðamenn eru bitnir eða sleiktir af einhverju ofangreindra dýra á svæðum þar sem hundaæði er þekkt þarf að gera varúðarráðstafanir strax, t.d. þvo sárið vel með sápuvatni. Sérstaklega á þetta við um bit dýra sem ráðast á menn án tilefnis. Ef dýrið er villt og ekki næst til þess er nauðsynlegt að leita læknis þar sem vera kann að þörf verði á meðhöndlun með bóluefni og mótefni gegn sjúkdómnum. Náist hið villta dýr er með sérstakri skoðun á heila þess hægt að kanna hvort það var sýkt af hundaæði. Ef dýrið er heimilisdýr og bólusett við hundaæði er ekki ástæða til ótta en sé svo ekki þarf eigandinn að gæta þess að fylgjast vel með því næstu 10-14 daga en á þeim tíma koma fram einkenni hjá dýrinu hafi sjúkdómurinn verið til stað ar á annað borð. Það er hægt að veita virka vörn gegn hundaæði eftir bit slíkrar skepnu. Meðferðin felst í mótefnagjöf og bólusetningu, sem gefa þarf fimm sinnum (dagur 0, 3, 7, 14 og 28).

 • Böð í sjó eða ferskvatni
 • Menn geta smitast af ýmsum niðurgangssjúkdómum í hitabeltislöndum við það að synda í sjó eða stunda sjóböð, en á venjulegum ferðamannastöðum er slíkt mjög ólíklegt. Sund í ferskvatni á vissum stöðum í Afríku, löndum fyrir botni Miðjarðarhafs, S-Ameríku og Karabíska hafinu getur leitt til sjúkdóms af völdum ákveðinna orma (schistosomiasis, bilharziasis). Sund í sundlaugum þar sem klóri hefur verið bætt í vatnið er öruggt. Hætta af hákörlum er mjög lítil eða engin á venjulegum ferðamannastöðum.

 • Kynsjúkdómar, þar með talið alnæmi
 • Ferðamenn geta lent í sérstakri hættu á að fá kynsjúkdóma. Þeir eru fjarri heimahögum og oft á stöðum sem geta komið þeim í náin tengsl við einstaklinga úr hópum þar sem tíðni kynsjúkdóma er há (vændi bæði karla og kvenna, eiturlyfjaneysla). Alnæmi og ýmsir aðrir kynsjúkdómar eru sérstaklega útbreiddir í Mið-Afríku og í löndum Karabíska hafsins auk þess sem mjög ber á sjúkdómnum í Bandaríkjunum og Evrópu. Tíðni alnæmis er einnig mikil í Suðaustur-Asíu, t.d. Thailandi. Langflestir þeir sem sýkst hafa af alnæmisveiru bera þess engin merki og eru heilbrigðir að sjá þó þeir séu mjög smitandi. Hætta á sýkingu af alnæmi og öðrum kynsjúkdómum eykst í samræmi við fjölda þeirra einstaklinga sem kynmök eru höfð við. Áður hefur verið minnst á hættu af og varnir gegn lifrarbólgu B.

  Kynsjúkdómar eru flestir auðveldir meðhöndlunar. Undantekning er þó alnæmi (eyðni), en engin raunhæf meðferð né bóluefni hefur enn fundist gegn því. Varast má smit af völdum alnæmis og annarra kynsjúkdóma með því að

  1. Forðast kynmök við ókunnuga.
  2. Nota smokk við kynmök.
  3. Nota aldrei óhreinar nálar eða sprautur.

  Á ferðalagi er rétt að forðast blóðgjafir ef unnt er og einnig lyf gefin í sprautum. Ef blóðgjöf verður ekki umflúin, á ferðalangur og/eða félagar hans að ganga úr skugga um að leitað hafi verið að sýkingu af völdum alnæmis eða lifrarbólgu B hjá blóðgjafanum. Ef ekki er hægt að tryggja það kemur til greina að afla blóðs frá ferðafélögum eða öðrum sem telja verður ólíklegt til að hafi fengið þessa sjúkdóma.

 • Varnir gegn lifrarbólgu
 • Lifrarbólga A er algengasta tegund lifrarbólgu sem hrjáir ferðamenn. Sjúkdómurinn er af völdum veiru sem berst til manna með menguðu vatni og matvælum. Þetta er algengur sjúkdómur, sérstaklega utan Norðvestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Hættan er lítil á þeim slóðum en sé búið við frumstæð skilyrði í þróunarlöndum og jafnvel Suður-Evrópu er smithætta nokkur. Ef fólk býst við að neyta matar við óþrifalegar kringumstæður eða „vill lifa eins og innfæddir" er bólusetning sjálfsögð, enda bóluefnið mjög virkt og laust við aukaverkanir. Áður voru gefin mótefni (pooled gammaglobin) til varnar gegn lifrarbólgu A.

  Varnir gegn lifrarbólgu B.

 • Varnir gegn malaríu
 • Malaría er landlæg í Suður- og Mið-Ameríku, Afríku, Austurlöndum nær, Indlandsskaga, Suðaustur- og Austur-Asíu. Malaríusýkillinn berst með moskítóflugum. Á malaríusvæðum er minnst smithætta á þéttbýlum svæðum (fyrst og fremst stórborgum) og hátt til fjalla. Ennfremur er smithætta mjög lítil á flestum baðströndum ferðamanna. Unnið er að bóluefni gegn malaríu, en það er ekki til reiðu enn. Hægt er að verjast sjúkdómnum með lyfjatöku, en yfirleitt er ekki ástæða til varnarmeðferðar þar sem smithætta er mjög lítil.

  Meginlyfið er klórókín, en frekari lyfjagjöf (proguaníl, meflókín) fer eftir næmi malaríusýkilsins fyrir klórókíni (sjá töflu). Til eru fjórar mismunandi undirtegundir malaríusýkilsins, en einungis ein (Plasmodium falciparum) er stundum ónæm fyrir klórókíni. Veldur hún einnig alvarlegustu tegund malaríu sem stundum getur verið banvæn. Í töflunni hér á eftir eru í stórum dráttum teknar saman ráðleggingar um lyfjatöku eftir landsvæðum. Byrja þarf að taka lyfið 1 viku fyrir komu og ljúka 4 vikum eftir brottför frá svæðinu. Þungaðar konur og börn geta tekið klórókín og proguaníl án áhættu, en meflókín getur valdið fósturskemmdum. Ákvörðun um lyfjatöku skal alltaf tekin í samráði við lækni. Minna þarf ferðalanga á að engin varnarmeðferð gegn malaríu kemur algerlega í veg fyrir sjúkdóminn. Varnir gegn skordýrabiti (sjá að framan) glata ekki mikilvægi enda þótt varnarmeðferð gegn malaríu sé notuð, enda smitast mun fleiri sjúkd ómar með skordýrum en malaría ein. Ef ferðamaður gerir ráð fyrir að dvelja lengur en 3-4 vikur á malaríusvæði og sérstaklega þar sem erfitt eða illmögulegt er að fá læknishjálp er rétt að hafa ímeð sér malaríulyf til meðferðar ef menn fá hita eða önnur möguleg einkenni malaríu og ekki næst til læknis. Lyfjaval fer eftir landsvæðum og hvernig varnarmeðferð er notuð, helst eru notuð pýrimetamín-súlfadoxín (Fansidar), kínin, meflókín eða halófantrín.

  Varnir gegn malaríu

  1. Næmi malaríusýkils við klórókíni gott (Mið-Ameríka, Austurlönd nær, Kína (nema suðurhluti)):
  a. klórókín (Avloclor)
  b. smithætta mjög lítil: engin meðferð

  2. Næmi við klórókíni lélegt (Indlandsskagi, Indónesía):
  a. klórókín + proguanil (Paludrine)
  b. smithætta mjög lítil: engin meðferð

  3. Næmi við klórókíni ekkert (Suðaustur Asía, Suður Kína, Suður Ameríka, Afríka):
  a. meflókín (Lariam)
  b. doxycyclín (Doxytab)
  c. smithætta mjög lítil: engin meðferð

  Lyfjaskammtar

  (lyfin eru gefin frá 1-2 vikum fyrir komu til 4 vikum eftir brottför af malaríusvæði):

  Klórókín (Avloclor): 300 mg (2 töflur) vikulega

  Proguanil (Paludrine): 200 mg (2 töflur) daglega

  Meflókín (Lariam): 250 mg (1 tafla) vikulega í 4 vikur, síðan aðra hverja viku

  Doxycyclín (Doxytab): 100 mg daglega

 • Við heimkomu
 • Stundum gera sjúkdómar sem menn smitast af á ferðum sínum ekki vart við sig fyrr en heim er komið. Því er nauðsynlegt, að leitað sé til læknis vegna bráðs sjúkdóms eða óþæginda í kjölfar ferðalags, að menn geti gert góða grein fyrir ferðum sínum áður en þeir veiktust. Slíkar upplýsingar geta orðið lækni að ómSetanlegu gagni við greiningu sjúkdómsins. Ef ferðalangur verður fyrir biti er rétt að láta lækni vita og sérstaklega um hverjar ráðstafanir voru gerðar eftir bitið.