Q10

Almennt um Q10

Kóensímið Q10 er líka kallað Ubiquinone. Ubiquinone er latína og vísar til þess að efnið sé til alls staðar í náttúrunni. Q10 er hjálparefni eða kóensím sem binst orkubúum frumnanna, svokallaðar mítókondríur og er því mikilvægt til að framleiða orku fyrir líkamann. Menn geta framleitt Q10 sjálfir en mest af efninu er innbyrt með matnum.

Hvernig nýtir líkaminn Q10?

Q10 er þáttur í efnaskiptum sem sjá um orkuframleiðslu líkamans. Kóensím Q er samensím sem verður til í líkamanum. Sú einstaka gerð kóensíms sem menn framleiða, er kölluð Q10. Talan 10 vísar til fjölda ákveðinnar kemískrar einingar sem binst efninu – hjá mönnum er þessi fjöldi 10.

Q10 við hjartabilun

Í vissum tilfellum af meðalslæmri og slæmri hjartabilun, virðist sem Q10 geti bætt ástandið ef það er tekið reglulega. Áhrifin eru talin stafa af aukinni framleiðslu á sérstakri orkugeymslu líkamans sem kölluð er ATP. Talið er að þetta auki samdráttarhæfni hjartans.

Q10 við hjartakrampa

Rannsóknir hafa sýnt fram á að hjartaöng (Angina Pectoris) megi ef til vill létta með notkun Q10 í tiltölulega stórum skömmtum (100-200 milligrömm á dag). Sjá skammtana hér á eftir.

Q10 við of háum blóðþrýstingi

Auk þess benda einstaka rannsóknir til þess að Q10 geti ef til vill haft góð áhrif á hækkaðan blóðþrýsting.

Hvaða fæða inniheldur Q10?

Q10 er að finna í kjöti og fiski. Auk þess er það að finna í hnetum, sumum ávöxtum, matarolíu og sumu kornmeti.


Ekki er vitað með vissu hve mikið af Q10 er í matnum sem neytt er daglega en talið er að það séu um það bil 4-6 milligrömm á dag.

Hvað má taka mikið af Q10?

Leggja verður áherslu á það að aldrei hefur verið sannað að skortur á Q10 sé orsök sjúkdóma og það er ekkert sem sannar að ungt fólk og fullorðið fái ekki nóg af Q10 í fæðunni. Ef vilji er til þess að neyta bætiefnis vegna framangreindra ástæðna eru heldur engar sannanir fyrir því að bætiefnið valdi aukaverkunum eða sé skaðlegt til langframa.


Ef skammtarnir eru 100-200 milligrömm verður einstöku sinnum vart við ógleði, höfuðverk og magaverk.

Hvernig lýsir skortur á Q10 sér?

Í líkamanum eru geymd um það bil 1-1,5 grömm af Q10 . Mest af því er í hjarta, lifur og nýrum. Í einum lítra af blóði er um það bil 1 milligramm. Q10-skorti hefur eiginlega aldrei verið lýst og því eru einkenni hans óþekkt. Talið er að líkaminn geti sjálfur framleitt nóg af efninu. En magn Q10 er talið minnka með aldrinum. Magn Q10 virðist líka minnka við vissa sjúkdóma, til dæmis hjartveiki.

Hvað ber að varast?

Það er ekkert sem þarf að varast.

Ekki er vitað til að neysla Q10 hafi skaðað fóstur en lítil reynsla er komin á það. Talið er að Q10 skiljist út í brjóstamjólk.


Þess ber þó að gæta að við töku lyfja sem ætlað er að draga úr storknunarmætti blóðsins, svonefndra segavarnarlyfja, er best að vera varkár þar sem Q10 gæti haft truflandi áhrif. Hafa skal samband við lækni.