Prófkvíði

Prófkvíði er óttinn við að mistakast í aðstæðum þar sem mat á frammistöðu fer fram. Prófkvíði er tilfinningalegt ástand og hugarástand. Tilfinningin einkennist af mikilli spennu og hugsunin einkennist af ótta við að mistakast. Hinn prófkvíðni sýnir ekki hámarksgetu í prófum og getur það haft áhrif á árangur hans í prófum og líðan hans í námi.

Spennu fylgir venjulega aukin virkni sem getur virkað hvetjandi í prófum og próflestri. Nemandinn leggur sig allann fram og athygli hans er einskorðuð við prófundirbúning og lausn verkefna á prófinu. Spennan ein og sér virkar þá sem hvatning. Þegar spennunni fylgir hinsvegar ótti við mistök, vanmetakennd eða að nemandinn gerir óraunhæfar kröfur til sín getur spennan snúist upp í andhverfu sína og virkað lamandi og heftandi. Nemandinn nær ekki árangri í samræmi við kunnáttu og getu.

Í nútímasamfélagi þar sem mikil áhersla er lögð á menntun eru próf algengur mælikvarði á kunnáttu. Það er því áhyggjuefni að sumir nemendur virðast ekki aðlagast prófaðstæðum þrátt fyrir síendurtekið mat á frammistöðu og líta á próf sem ógn fremur en áskorun.

Rannsóknir og mælingar fræðimanna á prófkvíða hafa leitt í ljós að einstaklingsmunur er á tilfinningalegum viðbrögðum nemenda í prófum og líta sumir fræðimenn á prófkvíða sem aðstæðubundna lyndiseinkunn. Hér er um að ræða kenningar um þáttakvíða og ástandskvíða þar sem þáttakvíði er tilhneiging til kvíða í tilteknum aðstæðum og ástandskvíði eru viðbrögð einstaklingsins við þeim aðstæðum. Hinn prófkvíðni hefur tilhneigingu til kvíða því þegar mat á frammistöðu fer fram og bregst við með sterkum tilfinningalegum viðbrögðum. Prófkvíðinn byggir á tveimur þáttum, tilfinningasemi og áhyggjum. Tilfinningasemin vísar til aukinnar virkni í sjálfvirka taugakerfinu þ.e. mikilli spennu og áhyggjur eru ávísun á stöðugar og endurteknar áhyggjur af frammistöðu og afleiðingum þess að mistakast. Áhyggjur af frammistöðu, mikil sjálfsgagnrýni og vanmetakennd trufla athygli og einbeitingu og geta haft áhrif á frammistöðu í prófi. Hinum prófkvíðna tekst ekki að beina athyglinni að verkefnunum á prófinu og líkur aukast á mistökum. Ýmis mælitæki hafa verið hönnuð til að meta prófkvíða og innhalda þau flest mælingar á áhyggjuþættinum og tilfinningaseminni sem einkennir prófkvíða. Má þar nefna; TAS (Test Anxiety Scale) , (Sarason l958) en hann er auðveldur í fyrirlögn og aðgengilegur, TAI (Test Anxiety Inventory), ( Spielberger l980) en hann hefur verið þýddur og staðlaður af Helgu Kristinsdóttur og Stefaníu Ægisdóttur (l980).

Mismunandi er hversu miklum kvíða nemendur finna fyrir í prófum og fer það eftir reynslu þeirra af mismunandi námsgreinum, mikilvægi prófa og stundum öðrum ytri þáttum eins og skólaskipum, skiptingu yfir á efra skólastig, eða erfiðleikum í einkalífi, veikindum í fjölskyldu eða áföllum sem hafa átt sér stað eða eru að eiga sér stað á sama tíma. Þeir sem eiga við prófkvíða að etja eru heldur ekki einsleitur hópur og ástæður kvíðans og undanfarar ekki alltaf hinir sömu. Nemendur með prófkvíða geta haft slæma reynslu af prófum eða jafnvel skólagöngunni, nemendur með sértæka námsörðugleika geta átt á hættu að þróa með sér prófkvíða vegna sífelldra vonbrigða í námi og hinn prófkvíðni getur átt við önnur sálfræn eða félagsleg vandamál að etja. Í sumum tilvikum virðist prófkvíði vera hreinræktaður þ.e. eingöngu koma fram í prófaðstæðum eða þar sem frammistöðumat fer fram en í öðrum tilvikum er um flóknari mynd að ræða þar sem hinn prófkvíðni sýnir kvíða í öðrum aðstæðum s.s í samskiptum við aðra, við ókunnuga, og í hópi fólks eða þegar hann telur að óformlegt mat á framkomu hans eða frammistöðu eigi sér stað. Þá getur prófkvíði verið hluti af félagslegum kvíða. Hugrænar kenningar um kvíða beinast að áhrifum hugsana á kvíðann. Kenningin gerir ráð fyrir að í kvíða séu hugmyndir okkar um okkur sjálf aðra og umheiminn aflagaðar og við kvíðaáreiti eins og t.d. hjá þeim sem eiga við alvarlegan prófkvíða að etja virkjast hinar aflöguðu hugmyndir, hugsunarhátturinn bjagast og sjálfvirkar neikvæðar hugsanir eins og „ég get ekkert á prófinu“, „ég næ aldrei þessu prófi“ verða ríkjandi í hugsuninni. Hinar neikvæðu hugsanir og hugsunarhátturinn sem einkennist af alhæfingum út frá einstaka atvikum eða atriðum eins og slök frammistaða á einu prófi eða vankunnáttu á einni prófspurningu viðhalda hinni neikvæðu mynd sem nemandinn hefur af sjálfum sér og viðheldur þannig prófkvíðanum. Þannig getur myndast vítahringur sem nemandinn á erfitt með að komast út úr af eigin rammleik.

Hugrænar kenningar um félagslegan kvíða geta vel átt við prófkvíða. Það sem er sameiginlegt hjá hinum prófkviðna og þeim sem eiga við félagslegan kvíða að etja er að það mat sem viðkomandi gengst undir eða telur sig gangast undir ógnar honum. Við slíkar aðstæður beinist athyglin inná við. Athyglin einskorðast við kvíðatilfinninguna eða spennuna s.s. líkamlega svörun eins og lömunartilfinningu, það að „lokast“, „frjósa“ og hugsunina um að geta ekkert, standa á gati, muna ekkert eða að falla á prófinu. Á sama tíma virkjast hugmyndir eins og „ég er heimskur“, “ ég er ekki á réttir hillu“, „ég er algerlega misheppnaður“, „ég geri allt vitlaust“, „ég er að gera eitthvað allt annað en aðrir“. Undirliggjandi er óttinn við mistök og afleiðingar þess að mistakast, „fólk kemst að því hvernig ég raunverulega er hræðilega misheppnaður og heimskur“. Sjálfsathyglin og þær hugsanir sem fylgja henni valda því að hinn prófkvíðni getur ekki einbeitt sér að verkefnum prófsins. Kvíðinn vex og verður yfirþyrmandi og truflar minnisstarfssemi og æðri vitsmunastarfssemi þannig að nemandinn kemur ekki frá sér þekkingu sinni á námsefninu. Einfaldir hlutir verða jafnvel flóknir og ómögulegt er að muna einföldustu atriði, hvað þá eitthvað annað sem mikið kapp hefur verið lagt á að læra. Það getur liðið nokkur tími áður en nemandinn nær tökum á kvíðanum og þannig lendir hann venjulega í tímaþröng sem aftur hefur áhrif á kvíðann.

Flestir nemendur vilja ná árangri í námi og námstíll og námvenjur þeirra eru árangursmiðaðar. Vel aðlagað námferli einkennist af áhuga á námsefninu þekkingarinnar vegna. Sjálfsmat nemandans er þá óháð einkunnum á prófum eða frammistöðu annarra samanborið við hann sjálfan. Nemendur sem haldnir eru prófkvíða virðast ekki alltaf öðlast þessa ánægju sem fylgir námi í sjálfu sér, þeir læra oftast til að forðast mistök. Þeir eru árangursmiðaðir en námstíll þeirra veldur þeim oft hugarangri og álagi í námi og námið verður erfið vinna. Jafnvel nemendur með prófkvíða sem lengra eru komnir í námi og hafa valið sér sjálfir námsleið kvarta yfir því að þó þeim langi til að afla sér þekkingar með því að lesa tiltekna bóka eða læra tiltekið efni þá setji að þeim kvíða sem truflar þá við að hefjast handa og námið verður álag og erfiði og ánægjan af námi hverfur.

Vinnubrögð í námi hjá prófkvíðanemandum einkennast oft af „öruggum vinnubrögðum“ yfirlæra námsefni læra utanbókar niður í smæstu atriði til þess að koma í veg fyrir kvíða. Hugmyndin er sú að „ef ég kann allt þá mistekst mér ekki“ og „ég verð ekki kvíðinn“. Innihaldið í áhyggjum hins prófkvíðna endurspegla einnig að hluta viðleitni til að komast hjá vonbrigðum og tapaðri sjálfsvirðingu ef allt mistekst. Prófkvíðnir nemendur sem standa sig vel í skóla og fá jafnan góðar einkunnir heyrast stundum segja „ég er örugglega fallin á þessu prófi“ ég gat ekkert á prófinu“ og þora ekki að líta á einkunnir af ótta við mistök. Sjálfsmat þessara nemanda er bjagað í þá veru, að það sem miður fer er oftúlkað og litið mark tekið á því sem vel gengur, það er tekið sem sjálfsagt. Hinn prófkvíðni gerir einnig óraunhæfar kröfur til sín, hann á alltaf að standa sig betur en hann getur. Smávægileg mistök eru túlkuð sem vangeta og heimska og ógna sjálfsvirðingu hans.

Hugræn atferlismeðferð virðist einkar hentug við prófkvíða. Meðferðin beinist að þeim þáttum sem eru ríkjandi í prófkvíða þ.e. áhyggjuþættinum eða hinum hugræna þætti og tilfinningsemi eða spennunni. Reynt er að leiðbeina hinum prófkvíðna að brjótast út úr kvíðavítahringnum með því að endurmeta þær hugmyndir sem hann hefur um eigin getu og viðhorf hans til prófa. Þannig er lögð áhersla á raunhæft mat á stöðu hans í tiltekinni námsgrein og hvar hann stendur sem námsmaður. Leitast er við að hjálpa honum að sjá prófin sem áskorun í stað ógnar og að einkunnir séu takmarkaður mælikvarði á tiltekna kunnáttu eða hæfni en ekki alsherjarmat á persónu hans og hæfileika. Hinum prófkvíðna eru kennd slökun til þess að auðvelda honum að takast á við prófáreiti og prófaðstæður og leiðbeint í árangursríkum vinnubrögðum í námi.

Margir námsráðgjafar hafa fengið sérstaka þjálfun í ráðgjöf við prófkvíða og bjóða sumir skólar uppá námskeið við prófkvíða fyrir nemendur. Eðlilegt er að nemendur leiti fyrst til námsráðgjafa ef þeir telja sig eiga við prófkvíða að etja, enda eru þeir best í stakk búnir til að finna úrræði til handa nemendum eða vísa þeim áfram til annarra sérfræðinga ef það á við. Sálfræðingar og geðlæknar hafa hlotið menntun og þjálfun í meðferð á kvíða og hafa sumir sérhæft sig í meðferð á prófkvíða.

Heimildir.

Clark, D.M og Fairburn, C.G. (ritsjt.) (1997), Science and Practice of Cognitive Behaviour Therapy, Oxford Unversity Press, USA.

Convington, M.V. (l989). Self-Esteem and Failure in School: Analysis and Policy Implications in the Social Importance of Self Esteem. Ritsj. Mecca AM., Smelse, NJ., og Vasconcellos J., University of California Press, Berkely, CA,.

Culler, Ralph E. og Holahan, C.J. (l980). Test Anxiety and academic Performance: The Effects of Study-Related Behaviours. Journal of Educational Psychology, 72(1), 16-20.

Helga Kristinsdóttir og Stefanía Ægisdóttir (l990). Íslensk stöðlun prófkvíðakvarða Spielbergers og samband prófkvíða og námsvenja. BA verkefni í sálarfræði.

Hollandsworth, J.G., Glazeski,R.C.jr., Kirkland, K.,Jones,B.E. og Van Norman, L.R. (l979). An Analysis of The Nature and Effects of Test Anxiety: Cognitive, Behavioural, and Physiological Components. Cognitive Therapy and Research, 3, 165-180

Libert, RM, og Morris, LW. (1967). Cognitive and Emotional components of Test Anxety: A Distinction and some Initial Data. Psychological Reprots, 20, 975-978.

Sieber, J.E. (l980). Defining Test Anxiety: Problems and Approaches. Í I.G. Sarason (Ritstj.), Test Anxiety: Theory, Research, and Applications. New Jersey: Lawrence Erlbaum. Spielberger, C.D., Conzales, H.P., Taylor, C.J. , Anton, W.D., Algaze, G.R. Ross og Westberry, L.G. (l980). Test Anxiety Inventory. Preliminary Professional Manual. California: Consulting Psychologists Press.

Spielberger,CD, og Vagg PR, (Ritstj,), (1995). Test Anxiety; Theory, Assessment, and Treatment. Washington: Taylor and Francis.

Wells, A (1999). Cognitive Therapy of Anxiety Disorders, A Practice Manual and conceptual Guide. England: John Wiley & Sons Ltd.