Óskalisti fyrir fæðingu

Valkostir í fæðingu – óskalisti

Fæðing er einn áhrifaríkasti atburður sem nokkur manneskja upplifir. Reynslan af fæðingunni getur verið neikvæð eða jákvæð. Það veltur mikið á þeim undirbúningi sem gerður er fyrir fæðinguna og því hvernig komið er til móts við þarfir verðandi móður og þeirra sem með henni eru.

Það getur verið góð hugmynd að gera óskalista yfir hvernig þú vilt hafa fæðinguna. Við gerð óskalistans þarf að skoða alla möguleika og virkilega hugsa um það hvað skiptir máli til að fæðingin verði vel heppnuð. Heppilegast er ef foreldrarnir, eða konan og stuðningsaðili hennar gera óskalistann saman því þá gefst tækifæri til að skoða hug beggja til fæðingarinnar og afla sér upplýsinga þannig að sá sem er með í fæðingunni verði konunni betri stuðningur. Í fæðingunni verða flestar konur frekar viðkvæmar og þurfa á allri sinni orku að halda til að einbeita sér að fæðingunni. Þá kemur sér vel fyrir fylginautinn að hafa listann við höndina og geti þannig miðlað óskunum til ljósmæðra og lækna.

Það ber þó að hafa í huga að óskalistinn er aðeins óskalisti og stundum þróast fæðinginn á þann veg að ekki er unnt að fara í öllu eftir óskunum, t.d. ef heilbrigði móður eða barns er ógnað. Því er nauðsynlegt að afla sér sem bestra upplýsinga á meðgöngunni um alla þætti fæðingarinnar.

Hér eru nokkrar tillögur um atriði á óskalista:

 • Hvar viltu fæða?

Það er mikilvægt að þú gerir það upp við þig hvar þú vilt fæða. Hægt er að velja um að fæða á sjúkrahúsi eða heima. Starfræktar eru fæðingadeildir í öllum landsfjórðungum og víðar úti á landi. Athugaðu hvað er í boði nálægt þínu heimili. Á Landspítalanum er fæðingardeild fyrir konur í áhættumeðgöngum en þar fæða líka konur í eðlilegu ferli. Á Reykjavíkursvæðinu og víðar þar sem ljósmæður starfa, geta konur í eðlilegri meðgöngu einnig valið að fæða heima. Sumar konur kjósa að fæða á æskuslóðunum, nálægt foreldrum og ættingjum, þótt þær séu fluttar í annað sveitarfélag. Það er líka einstaklingsbundið hvaða áherslur fólk hefur varðandi fæðinguna og hvar því finnst það öruggast. Mörgum konum finnst þær öruggastar á tæknivæddu sjúkrahúsi þar sem stutt er í skurðstofu og barnadeild á meðan öðrum konum finnst þær öruggastar heima hjá sér í því umhverfi sem þær þekkja og með ljósmóður sem þær hafa kynnst og treysta til að aðstoða við fæðinguna. Ræddu við manninn þinn um hvað þið raunverulega viljið og leitaðu stuðnings og upplýsinga hjá ljósmóðurinni sem annast þig í mæðravernd.

 • Hvernig viltu fæða?

Yfirleitt gengur fæðingin best ef þyngdaraflið fær að vinna með. Það þýðir að stellingar þar sem konan er upprétt, standandi eða sitjandi, gefa aukinn kraft í hríðarnar og legið vinnur betur. Ef konan er einnig á hreyfingu ræður hún yfirleitt betur við hríðarverkina og útvíkkunin verður oft hraðari þar sem kollurinn (eða rassinn) á barninu þrýstir betur á leghálsinn ef konan er upprétt.

 • Fæðing í fæðingarrúmi. Þá getur þú legið eða setið í rúmi sem má stilla á ýmsa vegu eftir þínum þörfum. Áður var andúð á þessari aðferð því þá var konan látin liggja á bakinu með fæturna uppi í stoðum. Það þýddi að þetta var gífurleg áreynsla og konan gat ekki nýtt sér þyngdarlögmálið. Nú til dags býður fæðingarrúmið hins vegar upp á marga möguleika. Þú getur sjálf ákveðið stillinguna þannig að hún sé sem þægilegust fyrir þig og það er vel hægt að sitja, krjúpa eða vera á fjórum fótum í fæðingarrúminu. Mörgum konum finnst líka gott að liggja á hliðinni í sjálfri fæðingunni.
 • Fæðing í hrúgustól. Þá getur þú setið eða legið í hrúgustól á gólfinu. Kosturinn við hrúgustólinn er að hann inniheldur litlar kúlur sem laga sig alveg eftir líkamanum þannig að auðvelt er að skipta um stellingar. Ef þér líður vel í hrúgustólnum er ekkert því til fyrirstöðu að þú fæðir í honum.
 • Fæðing í vatni. Þá getur þú setið eða flotið í laug eða baðkari, á meðan hríðirnar vinna að útvíkkuninni. Ef þú situr í hlýju vatni slakar þú betur á og finnur ekki eins sárt fyrir hríðunum. Líkaminn virkar léttari í vatninu og allar hreyfingar verða auðveldari. Fyrir vikið þarf yfirleitt minna af verkjalyfjum og jafnvel er hægt að sleppa þeim alveg. Á fæðingardeildum víða um land eru komnar fæðingarlaugar en það er misjafnt eftir stofnunum hvort gefinn er kostur á að sjálf fæðingin fari fram í vatni eða einungis hríðatímabilið. Einnig bjóða a.m.k. tvær ljósmæður sem taka á móti heima upp á vatnsböð í fæðingunni.

Hvaða fæðingarstellingar henta þér best?

Bestu fæðingarstellingarnar eru þær sem notast við þyngdaraflið til að vinna með leginu. Hin gamalreynda aðferð að liggja á bakinu er ekki lengur mikið notuð þar sem konan þarf að rembast upp í móti og getur heldur ekki nýtt sér þyngdaraflið. Flestum konum finnst líka óþægilegt að liggja á bakinu þar sem legið þrýstir þá á meginæðarnar sem liggja frá hjartanu þannig að hún fær yfirliðstilfinningu. Í þessari stellingu skerðist einnig blóðflæðið til legsins og fylgjunnar og barninu fer að líða illa.

Hálfuppisitjandi stellingar eru fremur algengar, því fæðingarrúmin bjóða helst upp á þá stellingu. En þannig stellingar eru ekki endilega mjög hagstæðar því þá situr konan á rófubeininu og þrengir þannig grindarútganginn. Einnig getur hún þurft að draga til sín fæturna, eða spirna í stoðir og þá fer orkan í annað en að einbeita sér að fæðingunni.

Mörgum konum finnst gott að standa upp við eitthvað eða halla sér upp að fylginaut sínum. Þannig nýtist þyngdaraflið vel en stundum verður konan þreytt, bæði í baki og fótum.

Hægt að sitja alveg upprétt á þar til gerðum kolli og nýta þannig þyngdaraflið. Það kemur sér vel ef konan er of þreytt til að standa en vill vera í uppréttri stöðu.

Sumar konur kjósa að sitja á hækjum sér. Sú stelling er mikið notuð af frumstæðum konum og er líklega elsta fæðingarstellingin. Í þeirri stellingu næst víðasta mál á mjaðmagrindinni og oft næst aukinn kraftur í rembinginn þannig. Margar konur verða þó þreyttar í hnjám og baki ef þær eru lengi í þessari stellingu og þá er gott að geta hangið á einhverju(m) eða standa upp og ganga um milli hríða til að létta á álaginu.

Að vera á fjórum fótum er einnig mjög góð stelling og hentar sérstaklega vel þeim konum sem eru með grindarverki því þá er minnst spenna á mjaðmagrindinni.

Engin ein stelling endist þó alla fæðinguna og því nauðsynlegt að skipta um stellingu eins og þörf krefur. Veldu það sem hentar þér best á hverjum tíma. Hreyfðu þig um og prófaðu hvernig þér líður í hverri stellingu fyrir sig.

Það er líka gott að finna þær stellingar sem þér líkar best við áður en kemur að fæðingunni og jafnvel æfa þær með fæðingarfélaganum.

 • Hvað viltu sjálf gera til að deyfa sársaukann við fæðinguna?
 • Rannsóknir hafa sýnt að kona sem hefur náinn vin eða ættingja með sér ræður betur við fæðinguna. Einnig hefur umhverfið mikið að segja og þyngst vegur öryggistilfinning konunnar. Konu sem líður vel, ef frá eru skildir hríðarverkir, gengur alla jafna betur að fæða en konu sem er óörugg og hrædd. Aflaðu þér því sem mestrar þekkingar um fæðinguna á meðgöngunni og taktu með þér fæðingafélaga sem þú treystir og veitir þér stuðning.

  Ef þú hefur ánægju af tónlist er sniðugt að hafa eftirlætistónlistina meðferðis. Tónlist virkar róandi og veitir slökun – best áhrif hefur klassísk tónlist eða róleg slökunartónlist.

  Reyndu líka að hreyfa þig um í fæðingunni. Það getur virkað á verkina, að ganga um milli hríða og halla sér fram í hríðunum og rugga í mjöðmum.

  Nudd linar verki og flestum konum finnst gott að láta strjúka yfir spjaldhrygginn í hríðunum. Ef þú telur að það geti hjálpað þér er ekki úr vegi að maðurinn þinn eða fæðingarfélaginn æfi hvernig nudd þér finnst best áður en kemur að fæðingunni.

  Mörgum konum líður vel af að fara í hlýja sturtu. Vatnið og hitinn slaka á vöðvum og hríðarnar verða bærilegri. Ef hægt er að koma því við að fara í bað eða nuddpott á fæðingardeildinni þá er það verkjastillandi fyrir flestar konur. Vatnið og hitinn dregur úr verkum og hjálpar þér að slaka á og vinna með hríðunum.

  Til viðbótar er hægt að fá heita eða kalda bakstra, nota svæðanudd eða nálarstungur, gefa rafbylgjur (TENS) eða sprauta litlum vatnsbólum í húðina. Allt þetta hefur verkjastillandi áhrif án þess að til þurfi að koma lyfjagjöf. Það er þó gott að þú sért búin að kynna þér hvaða valkostir eru varðandi lyfjagjafir ef á þarf að halda og hafa mótaðar skoðanir á óskum þínum þar að lútandi.

  Viltu fá barnið upp á magann eftir fæðinguna?

  Í dag er það alvanalegt að leggja barnið beint á maga móðurinnar strax eftir fæðinguna. Það er gert til þess að varðveita náið samband móður og barns. Barnið finnur öryggistilfinningu við að heyra hjartslátt móðurinnar og á líka betra með að halda á sér hita.

  Viltu að faðirinn/fylginauturinn klippi á naflastrenginn?

  Yfirleitt býður ljósmóðirin föðurnum að klippa á naflastrenginn. Það er táknræn athöfn að skilja að móður og barn og mörgum finnst það bera vott um virka þátttöku í fæðingunni.

  Viltu hafa barnið á brjósti?

  Ef þú hefur í hyggju að hafa barnið á brjósti skaltu fá aðstoð við að leggja barnið við brjóstið sem fyrst eftir fæðinguna. Fyrstu klukkustundina er barnið yfirleittvel vakandi og þá er gott að grípa tækifærið og bjóða því brjóstið. Þannig fer brjóstagjöfin best af stað og auknar líkur eru á að hún verði farsæl.

  Má faðirinn/fylginauturinn taka ljósmyndir eða myndband af fæðingunni?

  Marga langar til að festa minninguna um fæðinguna á filmu eða myndband. Fæðingin er stórviðburður. Gerðu þér samt ljóst hvort þú kærir þig um að láta mynda þig á öllum stundum og hversu miklum tíma fylginauturinn á að verja í ljósmyndarastarfið. Hann er þarna fyrst og fremst til að hjálpa þér og styðja.

  Mega nemar vera viðstaddir?

  Á fæðingardeildinni eru læknanemar, ljósmóðurnemar og hjúkrunarnemar. Gerðu upp við þig hvort þú kærir þig um að þeir séu viðstaddir fæðinguna ef um það er að ræða. Það er þáttur í námi þeirra að vera viðstaddir og taka þátt í fæðingum, en þú átt fullan rétt á að neita ef þér finnst það óþægilegt. Gerðu þér ljóst hvað þú vilt og láttu starfsfólkið vita.