Öryggið á oddinn!

Umræða hér á landi um HIV og alnæmi, smit og smitleiðir hefur legið í láginni í langan tíma. Álit margra virðist að lyfjameðferðin nýja, sem hófst hér 1996, hafi leyst allan vanda. En því miður er ekki svo. Allt frá 1993 hefur nýgengi HIV smits aukist og hafa allt að 12 ný smit greinst á ári. Það sem af er þessu ári hafa fjögur ný smit greinst og það er fjórum smitum of mikið! Og enn er fólk að deyja hér á landi úr alnæmi.

Engin lækning

 

Margir virðast álíta að lyfin geti læknað einstaklinga sem smitast hafa af HIV-veirunni og þess vegna sé ekkert mál að smitast, bara að taka pillu og allt búið! En því miður er ekki svo. Enn sem komið er finnst engin lækning við alnæmi, lyfin halda veirunni í skefjum, þau líkna en lækna ekki. Lyfjameðferðin er að auki mörgum afar erfið vegna margþættra aukaverkana. Því má ennfremur bæta við að enginn veit með vissu hve lengi lyfin virka hjá hverjum og einum.

Smitleiðir

 

Smitleiðir eru í raun einungis tvær: sýkt blóð í blóð og sýkt sæði í blóð. Hér á landi hefur allt blóð verið skimað vel á annan áratug, þannig að smit verður fyrst og fremst við óvarðar samfarir og/eða vegna samnýtingar á sprautum.

Til eru ráð

 

Einfaldast væri að segja sprautufíklum að hætta að sprauta sig, en í það minnsta: samnýtið aldrei sprautur. Við samfarir er einfalt og tiltölulega ódýrt ráð: setjið smokinn á oddinn – og góða skemmtun, til frambúðar!

Forvarnarverkefni

 

Alnæmissamtökin á Íslandi eru nú að hrinda af stað fræðslu- og forvarnarverkefni fyrir nemendur í 9. og 10. bekkjum grunnskóla og verða allir grunnskólar landsins heimsóttir. Til þessa verkefnis hafa samtökin fengið fjárhagsstuðning frá Landlæknisembættinu og Hjálparstarfi kirkjunnar, sem gerir kleift að hrinda verkefninu af stað. Þótt fræðslan snúist einkum um HIV og alnæmi varðar hún varnir gegn kynsjúkdómum almennt og miðar að því að uppfræða unglingana um mikilvægi þess að sýna ábyrgð í eigin athöfnum. Smit er dauðans alvara sem ekki verður aftur tekið!

Rétt – rangt

 

  • HIV smitast í sundlaugum! Rangt!
  • HIV smitast við snertingu! Rangt
  • Stúlkur smitast ekki ef þær eru á pillunni eða nota hettuna! Rangt!
  • HIV er í blóði og sæði smitaðra einstaklinga! Rétt!
  • HIV smitast með hnerra og tárum! Rangt!

Desember 2002
Birna Þórðardóttir
formaður Alnæmissamtakanna á Íslandi

Frá Landlæknisembættinu