Öryggi barna í bílum – 2002

Könnun á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Árvekni, og Umferðarráðs

Elva Möller, Árvekni
Herdís Storgaard, Árvekni
Sigrún Þorsteinsdóttir, Slysavarnafélagið Landsbjörg
María Finnsdóttir, Umferðarráð
Margrét Sæmundsóttir, Umferðarráð

Nú er lokið hinni árvissu könnun á öryggisbúnaði barna í bílum. Þetta er 7. árið sem slík könnun er gerð með aðstoð nemenda á 1. ári á leikskólabraut K.H.Í. og félögum í deildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.Við hvetjum ykkur til að skoða niðurstöðurnar sem fylgja bréfinu en þær er einnig að finna í blaðinu Björgun, sérriti í miðju blaðsins, en blaðinu er verið að dreifa til allra leikskóla. Þar eru einnig ýmsar hagnýtar upplýsingar um öryggisbúnað barna í bílum. Niðurstöðurnar eru á heimasíðum Umferðarráðs, Árvekni og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skoða niðurstöður nánar.

Niðurstöðurnar sýna í stuttu máli að enn eru börn laus í bílum. Tæplega fjórðungur barna nýtur ekki þess öryggis sem þau eiga rétt á.

Könnunin var gerð við 74 leikskóla á 33 stöðum á landinu. Fleiri börn reyndust vera laus í bílum en í fyrra eða samtals 209 af þeim 2224 börnum sem könnunin náði til þ.e. 10% af heildinni. Sem betur fer notuðu færri börn nú bílbeltið eingöngu eða 270 börn þ.e. 13% af heildinni en fyrir börn á þessum aldri telst það vera rangur búnaður. 77% barna (1663 börn) notaði öryggisbúnað í bílum en því miður var hann ekki alltaf notaður á réttan hátt.

Í ljós kom að talsvert af börnum sátu laus við hliðina á mjög góðum öryggisbúnaði, 35 börn sátu í framsæti með öryggispúða fyrir framan sig, en það er lífshættulegt börnum. Mikið var um að búnaðurinn hæfði ekki þyngd barnanna, eitthvað var um að hann væri ekki rétt festur og þá bar á að notaður var mjög lélegur búnaður sem uppfyllir alls ekki lágmarkskröfur um gæði.

Með því að láta börn ekki nota réttan öryggisbúnað í bílum er brotið á rétti þeirra til að njóta eins mikils öryggis og kostur er.

Hvetjum alla foreldra til að huga vel að öryggi ,,litlu gullmolanna sinna” með því að nota góðan og rétt festan öryggisbúnað í bílum – alltaf.

Með kveðju,

Árvekni
Slysavarnafélagið Landsbjörg
Umferðarráð