Öryggi barna í bílum


Takið notkun öryggisbelta alvarlega – margir iðrast þess að gera það ekki.

Alltof mörg börn slasast sem farþegar í bílum. Á hverju ári slasast 35 til 40 börn 6 ára og yngri og 90-95 börn á aldrinum 7-14 ára. Með góðum öryggisbúnaði hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg þessara slysa og draga verulega úr áverkum í öðrum tilfellum.

Hverjir eiga að nota öryggisbúnað í bílnum – hvað segja lögin?

Í 71. grein umferðarlaga segir m.a : ,,Hver sá , sem notar sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti, skal nota beltið þegar bifreið er á ferð. Barn yngra en 6 ára skal í stað öryggisbeltis eða ásamt með öryggisbelti nota barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- og verndarbúnað ætlaðan börnum”. Síðar í sömu grein stendur. ,,Ökumaður skal sjá um að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað í samræmi við 1.-4.mgr.”

Hvað er öruggur barnabílstóll?

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja frá mars 1998 segir: ,,Barnabílstóll skal vera viðurkenndur og E- merktur skv. ECE reg..nr. 44.03. eða viðurkenndur skv. viðeigandi FMVSS 123 -CMVSS stöðlum. ECE reg. nr. 44.03 eru í gildi í nær öllum (Federal Motor Vehicle Safety Standard.)” Hér á landi tóku þessar reglur gildi 1. október 1998.

Er í lagi að nota eldri barnabílstól?

Engar reglur eru til um hvað barnabílstólar mega að vera gamlir. Sumir framleiðendur ábyrgjast ekki lengri notkunartíma en 10 ár aðrir mæla með 6 ára notkun. Vertu viss um að þekkja sögu barnabílstóls áður en þú kaupir notaðan stól. Ekki er ráðlegt að nota barnabílstól sem hefur verið í bíl í árekstri þar sem farþegar hafa orðið fyrir meiðslum. Kauptu aðeins stól, sem er með einhverja af þessum viðurkenningum (ECE R. 44 03 FMVSS 123 eða CMVSS).

Hvaða öryggisreglum á að fylgja í bílnum?

Það fylgir því áhætta og mikil ábyrgð að aka bíl. Því er eðlilegt að farið sé eftir vissum öryggisreglum þegar ekið er með börn.

  • Í öllum bifreiðum þarf að kanna, hvort bílstóllinn sé rækilega festur.
  • Aldrei skal setja neitt undir barnið í bílstólnum því að þá helst barnið ekki á sínum stað ef óhapp verður. Ef ólin er of víð á að þrengja hana þannig að hún sé mátuleg fyrir barnið. Allir nýir barnabílstólar eru með beltastrekkjara.
  • Allir í bíl eiga að nota viðeigandi öryggisbúnað, barnabílstól eða öryggisbelti. Akið ekki af stað fyrr en allir eru fast spenntir.
  • Ekki skal vera með læti í bílnum. Hróp og köll og hamagangur geta truflað bílstjórann og þar með ógnað örygginu.
  • Það er hlutverk foreldra, eða hinna fullorðnu, að festa og losa öryggisbelti barnanna. Áríðandi er að hjálpa barninu að spenna bílbeltið og gæta þess að það sé gert á réttan hátt.
  • Ef barnið losar belti sitt skal aka út í vegarbrún á öruggum stað og ekki leggja af stað aftur fyrr en barnið er tryggilega spennt í stólnum. Aðeins skal ekið af stað ef allir eru spenntir í öryggisbelti.
  • Ekki má vera með þunga, lausa hluti í bílnum, þeir geta kastast fram af miklu afli við árekstur og slasað farþegana. Slíkir hlutir eiga að vera í farangursgeymslunni.
  • Aldrei má skilja barn eftir eftirlitslaust í bíl, hvort sem er í barnabílstól eður ei hvorki sofandi eða vakandi. Það getur farið sér að voða.

Sjá heimasíðu Umferðarráðs