Öryggi barna á leið í skólann

Strax í byrjun skólagöngu er mikilvægt er að huga að öryggi barnsins á leið í skólann. Athuga þarf á hvað hátt barnið ferðast í skólann. Búi barnið í næsta nágrenni skólans og þarf ekki að fara yfir hættulegar umferðagötur þá ætti barnið að ganga í skólann. Sé barninu ekið þarf að ýmsu huga, s.s. öryggi barnsins í bílnum og fleiru.

Endurskinsmerki
Því miður eru það afar fá börn og fullorðnir sem nota endurskinsmerki hér á og landi. Þau eru hins vegar lífsnauðsynleg slysavörn þar sem skammdegið hér er mikið.

Auðveldast er að fá endurskinsmerki í lyfjaverslunum en einstaka stórmarkaðir selja þau líka. Velja á merki sem hægt er að líma eða sauma á fatnað – þau sem fest eru með öryggisnælum duga skammt þegar börn eru annars vegar. Endurskinsborðar virka vel en reynslan sýnir að með tímanum hætta flest börn að nota þá ef ekki er sífellt verið að minna þau á þá, heima og í skólanum.

Örugg gönguleið í skólann
Mjög mikilvægt er að yngstu börnunum sé fylgt í skólann fyrstu dagana eða alveg þangað til að barnið er öruggt að ganga sjálft og sýnir að það kann og veit hvernig það á að komast í skólann á öruggan hátt. Mikilvægt er að stysta og öruggasta leiðin sé valin.

Það þarf líka að ganga með börnunum sem byrjuðu í skólanum í fyrra, því yfir sumarmánuðina hafa þau að mestu gleymt öllu sem snýr að umferðareglum.

Örugg aðkoma að skólum
Margir foreldrar vilja ekki láta barnið ganga í skólann af því að þeir eru hræddir um að ekið sé á barnið vegna þess hversu mikil umferð er við skólann. En þarna eru það í raun foreldrarnir sjálfir sem eru að orsaka þessa miklu umferð við skólann, þ.e. foreldrarnir sem eru að aka börnum í skólann. Síðasta vetur var undirrituð að fylgjast með umferð fyrir utan grunnskóla að morgni. Orð fá því varla lýst að hverju ég varð vitni. Þarna komu nánast allir akandi með börnin og á síðustu tíu mínútunum fyrir skólabyrjun. Þau fáu börn sem komu gangandi áttu fótum sínum fjör að launa þar sem þau stukku þvers og kruss yfir göturnar í kringum skólann. Sumir foreldrar nenntu ekki að aka inn að lóðinni þar sem aðkeyrsla er fyrir bíla svo hægt sé að hleypa börnunum út á öruggan hátt. Og margir þeirra sem þó notuðu innkeyrsluna gerðu það ekki rétt, þ.e. þeir stöðvuðu bílinn um leið og þeir komu inn í aðkeyrsluna – og komu þannig í veg fyrir að nokkrir aðrir kæmust þar inn – í stað þess að aka fremst svo rými væri fyrir fleiri bíla. Við þetta myndaðist bílaröð langt út á akbrautina fyrir framan skólann. Þeir sem þar voru urðu mjög stressaðir vegna tímaskorts og hleyptu börnunum út úr bílnum út á miðja götu en þar voru fyrir aðrir foreldrar að gefa í því þeir voru að verða of seinir í vinnuna. Og allt gerðist þetta í kolniða myrkri. Þarna eru foreldrar búnir að skapa vítahring hættuástands við skólana og það eru þeir einir sem geta leyst hann upp.

Er barnið öruggt í bílnum?
Þennan sama morgun var líka ýmislegt að sjá sem athugavert var varðandi búnaðinn á börnunum í bílum.

Stór hluti barnanna sat í framsæti bílanna en þar eiga börn alls ekki að sitja nema að þau séu orðin 150 sm á hæð. Í nánast öllum nýjum og nýlegum bílum er öryggispúði farþegamegin í mælaborði. Lensi bílinn í árekstri springur púðinn út og hann getur banað barninu sem situr fyrir framan hann. Örugglega átta ekki allir foreldrar sig á þessu og halda að þetta eigi bara við um yngri börn. Til að barn geti byrjað að nota eingöngu bílbeltið, til að vera öruggt í bíl, þarf það að verða orðið 36 kíló. Bílbelti eru hönnuð fyrir fullorðið fólk og noti barn sem er undir 36 kíló beltið þá getur það stórslasað barnið. Barnið á að vera á bílpúða eða bílpúða með baki. Þennan morgun sá ég því miður ekki eitt einasta barn í slíkum búnaði, eins og fyrr segir sátu þau flest í framsæti bíls, andspænis öryggispúða og í venjulegu bílbelti. Rannsóknir hafa sýnt það, aftur og aftur, hversu alvarlega börn geta slasast í árekstri ef þau eru í röngum búnaði. Erfitt getur verið fyrir eitt og eitt foreldri að fá sitt barn til að nota réttan búnað, miðað við stærð, ef það sér að hin börnin gera það ekki. En foreldrar í bekknum geta t.d. tekið sig saman um að allir noti réttan öryggisbúnað í bílnum.

Frá Landlæknisembættinu