Orkusparandi vinnuathafnir

Höfundar starfa við heilsu- og vinnuverndarráðgjöf hjá Sólarplexus ehf.

Mannauðurinn er stærsta auðlind hvers fyrirtækis

Fjöldamargir þættir af bæði andlegum og líkamlegum toga hafa áhrif á ánægju og vellíðun á vinnustað. Heilsu- og vinnuvernd snýst því ekki bara um líkamsrækt eða hreyfingu eftir vinnu, heldur að öllum líði vel á vinnustað.

Vissulega er röng líkamsbeiting og lítið úthald oft ástæða líkamlegra óþæginda og vanlíðunar en oft eru það óskýr markmið vinnunnar, ófullnægjandi upplýsingaflæði, óljós verkaskipting eða samskiptaörðugleikar sem valda fólki andlegri og líkamlegri vanlíðan, jafnvel kvíða.

Vinnuumhverfi og heilsuvernd

 

Að mörgu þarf því að huga varðandi vinnuumhverfi. Það þarf að bæði að skoða verklag og aðbúnað hvers og eins og kortleggja þar með þarfir einstaklingsins. Eins þarf að skoða vinnuskipulagið, samskipti, og álag/streitu á vinnustaðnum sem heild. Því er nauðsynlegt að bæði atvinnurekendur/yfirmenn og launþegar séu samhuga í heilsuverndarstarfinu. Til að tryggja árangur heilsuverndarstarfs innan hvers fyrirtækis þurfa markmið þess að vera skýr og öllum kunn.

Vinnuathafnir

 

Margir halda því fram að það geti t.d. ekki verið erfitt að vinna við lyklaborð allan daginn eða við færibandavinnu. Sannleikurinn er hins vegar sá að einhæfar, síendurteknar hreyfingar og léleg vinnutækni valda stöðugu álagi á ákveðna vöðva. Við stöðugt álag dregur úr blóðflæði, vöðvafrumur fá minna súrefni (orku) til sín, úrgangsefni hlaðast upp og erta nærliggjandi æðar, taugar, sinar og vöðva. Ef setið er lengi við, eru aðrir og stærri vöðvahópar að vinna stöðuvinnu (stöðug spenna) og þar með dregur enn frekar úr blóðflæði í öllum líkamanum.

Vöðvarnir starfa best þegar unnin er hreyfivinna (slökun og spenna á víxl). Regluleg hvíld, slökun og teygjur skipta gífurlega miklu máli fyrir þann sem vinnur kyrrstöðuvinnu allan daginn. Ennfremur er nauðsynlegt að standa reglulega upp, láta t.d. prentara og ljósritunarvél standa afsíðis og skipuleggja starfið þannig maður gangi t.d. kílómeter á hverjum degi í vinnunni. Fyrir þá sem standa allan daginn er hins vegar nauðsynlegt að góðir stóla séu tiltækir, t.d. “barstólar”, svo hægt sé að tylla sér niður við vinnuna.

Aðbúnaður starfsfólks

 

Skilningur og vilji fyrir heilsuvernd starfsmanna fer vaxandi hjá atvinnurekendum og ákvæði eru í lögum um aðbúnað á vinnustöðum. Lykilorðið í úrbótum á vinnustað er hreyfanleiki. Á skrifstofum eiga borð og tölvuskjáir að vera hæðarstillanlegir svo þeir henti konum og körlum af öllum stærðum og gerðum, jafnvel þannig að hægt sé að standa við vinnuna. Lyklaborðið á að vera á rúmgóðu svæði svo pláss sé fyrir mús við hliðina á því. Stólar eiga að styðja sérstaklega vel við bakið og fylgja á eftir hreyfingum viðkomandi. Sömu grundvallarreglur gilda að sjálfsögðu einnig hjá öðrum starfstéttum, s.s. fiskiðnaði og matvöruverslunum: hreyfanleiki, fjölbreytileiki og góð vinnuaðstaða

Orkusparandi vinnuathafnir

Í orkusparandi vinnuathöfnum er rík áhersla lögð á rétta líkamsbeitingu til að virkja og nýta stærri vöðva inn í hreyfimynstrið til að hlífa smærri vöðvum. Smáir vöðvar eru viðkvæmir fyrir álagi og því fljótir að stífna upp.

Í þessu sambandi er vert að skoða hversu mikið súrefni berst út í vöðvana með blóðinu. Við öndum að okkur súrefni, það berst út í blóðið gegnum lungun og fer þaðan með slagæðum til vöðva og líffæra.

Grunnöndun er það nefnt þegar brjóstkassinn lyftist og litlir vöðvar milli rifbeinanna og í hálsi og herðum stýra önduninni. Þessir smáu vöðvar þurfa sjálfir mikið súrefni og eru þar af leiðandi að nota talsverðan hluta af því súrefni sem við öndum að okkur.

Þindaröndun er djúpöndun. Þindin er stór vöðvi sem liggur eins og pottlok undir lungunum. Hún þrýstir á maga og þarma og maginn fer örlítið út á við í innöndun. Þegar þindin er notuð við öndun, togar hún súrefni(orku) niður í lungun en notar lítið af því sjálf.

Þindaröndun er því grundvöllur orkusparandi vinnuathafna og ætti að sjá um 70% af allri öndun. Þindin er vöðvi sem þarf að styrkja með því að spenna og slaka á víxl, eins og flesta aðra vöðva. Gott ráð til að styrkja þindina er að mynda mótstöðu með tungunni við útöndun og passa að sitja hvorki hokinn né stífur. Röng líkamsstaða hindrar þindaröndun og brjóstöndun(grunnöndun) tekur yfir.

Lokaorð

Heilsuvernd starfsmanna er skilgreind í lögum um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt þeim eiga atvinnurekendur að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna sinna. Á haustþingi verður væntanlega tekin fyrir mun ítarlegri lagasetning varðandi heilsuvernd starfsmanna.