Ómskoðanir á meðgöngu

Hvað er ómskoðun?

Ómskoðun byggir á mælitæki sem upphaflega var hannað til fiskileitar í sjó. Tækið sendir hátíðnihljóðbylgjur inn í vefi líkamans og síðan endurkastast þær inn í tækið og koma fram sem myndir á skjá. Vefir líkamans eru misþéttir og endurkasta því misvel hljóðbylgjunum. Vefirnir koma því út sem misgráleit svæði á myndinni – því vatnsmeiri sem vefurinn er, því dekkri virkar hann.

Hvernig er ómskoðun beitt í tengslum við meðgöngu?

Algengast er að ómskoðun sé gerð á þunguðum konum í 18. til 20. viku meðgöngu. Ef um áhættuþætti er að ræða, eins og hættu á Downs Syndrome er ómskoðun beitt fyrr, eða um 12. viku. Ennfremur er ómskoðun notuð ef blæðir á meðgöngu til að ákvarða hvort blæðir frá fylgju og ef skoða þarf fóstrið t.a.m. ef vöxtur legsins bendir til vaxtarskerðingar fóstursins.

Þegar lengra líður á meðgöngu er hægt að beita ómskoðun við nánari rannsókn á fóstrinu. Tímasetning ómskoðunar ræðst þó af því við hverju menn vilja fá svör. Sé verið að ákvarða hversu langt kona er gengin með er best að ómskoða nærri tólftu viku meðgöngu. Á hinn bóginn er betra að bíða fram í 19. viku eða þar um bil til þess að athuga hvort fóstrið sé rétt skapað. Það síðarnefnda er algengasta tilefni ómskoðunar.

Hvernig fer ómskoðun fram?

Snemma á meðgöngu – fyrir 10. viku – sést fóstrið best með ómskoðun um leggöng. Þá er notaður langur og mjór ómhaus
sem settur er upp í leggöngin og er með því móti hægt að greina fóstur sem er ekki nema örfáir millimetrar að stærð.

Síðar á meðgöngunni er hægt að ómskoða í gegnum kviðinn. Konan liggur á bakinu á bekk og borið er sérstakt ómskoðunarhlaup á kviðinn. Ljósmóðirin eða læknirinn sem ómskoðar rennir síðan ómhausnum yfir kviðinn þar til fóstrið og fylgjan birtast. Algengast er nú orðið að konan geti líka fylgst með ómskoðuninni á sjónvarpsskjá. Það tekur um 20 mínútur að skoða útlit fóstursins og öll helstu líffærakerfin og ljósmóðirin/læknirinn sem ómskoðar útskýrir fyrir konunni það sem sést á skjánum. Ómskoðunin er sársaukalaus fyrir konuna.

Hvað er rannsakað í ómskoðun?

Þegar ómskoðun fer fram í 19. viku meðgöngu er fóstrið skoðað og mælt á skipulegan hátt. Tekið er mál af höfði og lærlegg til að
reikna út meðgöngulengd. Gengið er úr skugga um að fóstrið hafi handleggi, fætur, magasekk, þvagblöðru, nýru og hvort hryggur og kviðveggur séu heilir . Einnig er skoðað hvort heili og hjarta hafi ekki eðlilegt útlit. Stærð fóstursins er metin í ljósi áætlaðrar meðgöngulengdar og komi fram áberandi misræmi þar á milli er áætlaður fæðingartími endurmetinn.

Einnig er staðsetning fylgjunnar skoðuð. Ef fylgjan liggur neðarlega í leginu er konan fengin aftur í ómskoðun við 34. vikur til að fá endanlega fylgjustaðsetningu því þegar teygist á legvöðvanum færist fylgjan yfirleitt ofar.

Á lokaskeiði meðgöngu er hægt að beita ómskoðun til að athuga hvort fóstrið vaxi með eðlilegum hætti. Einnig er hægt að rannsaka blóðstrauminn í naflastreng fóstursins en þessar rannsóknir leiða í ljóst hvort fylgjan starfi eðlilega, þ.e. hvort hún færi barninu nauðsynlegt magn af súrefni og næringarefnum. Þessar rannsóknir eru einungis gerðar ef ástæða er til ætla að fóstrið dafni ekki eðlilega.

Veitir ómskoðun tryggingu fyrir því að fóstrið sé heilbrigt?

Engin rannsókn getur tryggt að óborinn einstaklingur fæðist fullkomlega heilbrigður. Ómskoðunin gefur ágæta mynd af fóstrinu en minniháttar vanskapanir sjást oft illa og getur jafnvel færasta og best þjálfaða fagfólki yfirsést. Ennfremur eru ekki allir fæðingargallar sjáanlegir jafnvel þótt til staðar sé mikil fötlun.

Er ómskoðun hættuleg fóstrinu?

Á þeim tíma sem ómskoðun hefur verið í notkun hefur umræðan um skaðsemi hennar verið lífleg. Alþjóðlegur starfshópur hefur allan tímann fylgst grannt með öllum frásögnum um skaðleg áhrif ómskoðunar en ekki fundið neina sönnun þess að hún sé hættuleg.