Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Dr. Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar, útskrifaðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1985 og lauk doktorsprófi í erfðafræði frá Lundúnaháskóla 1995. Hann hefur stundað vísindarannsóknir við ýmsar stofnanir Lundúnaháskóla. Hann starfar sem vísindamaður í Lundúnarháskóla og við háskólann í Cambridge. Hann er dósent við erfðafræði hjartasjúkdóma í Háskóla Íslands. Hann var forsvarsmaður Rannsóknastofu Hjartaverndar í sameindaerfðafræði áður en hann tók við sem forstöðulæknir Hjartaverndar árið 1999. Hann er einn af aðalforsvarsmönnum Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar og er talsmaður hennar á Íslandi. Eftir hann liggja fjölda vísindagreina sem birst hafa í ýmsum viðurkenndum fræðiritum.

Stærsta rannsókn sinnar tegundar sem hefur verið framkvæmd í heiminum.

Hóprannsókn Hjartaverndar hófst árið 1967. Tilgangur með framkvæmd hennar var að finna út áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hérlendis. Hóprannsóknin hefur verið framkvæmd í áföngum og lauk sjötta áfanga hennar árið 1997. Hún er umfangsmesta faraldsfræðilega hóprannsókn sem hefur verið framkvæmd á Íslandi. Í rannsókninni hafa yfir 30 þúsund Íslendingar verið skoðaðir á 30 ára tímabili.

Öldrunarrannsókn Hjartaverndar er nýjasti áfanginn í Hóprannsókninni og sá langstærsti til þessa. Hún er samvinnuverkefni Hjartaverndar og Öldrunarstofnunar bandaríska heilbrigðisráðuneytisins (National Institute of Aging http://www.nia.nih.gov/). Rannsóknin er stærsta verkefni stofnunarinnar fyrir utan Bandaríkin. Hún er styrkt af bandarísku heilbrigðisstofnuninni (National institute of Health) sem er hluti af bandaríska heilbrigðisráðuneytinu. Rannsóknin nýtur einnig stuðnings frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum sem hluta af stuðningi ríkisins við starfsemi Hjartaverndar.

Fleiri stofnanir innan bandaríska heilbrigðiskerfisins hafa bæst við í framkvæmd rannsóknarinnar frá því að hún hófst. Má þar nefna rannsókn í samvinnu við Augnstofnun og Heyrnastofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins til að rannsaka sjón og heyrn. Rannsókn í samvinnu við Hjarta- og lungnastofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins á tíðni þögulla hjartadrepa þar sem segulómtæki af fullkomnustu gerð er notað til að skoða hjartavöðva sem er síðan borið saman við niðurstöður hjartalínurits. Umfang hennar hefur því aukist.

Hvað stuðlar að heilbrigði á efri árum?

Tilgangur með Öldrunarrannsókninni er að rannsaka heilbrigði öldrunar. Að einbeita sér að þeim þáttum sem auka á gæði öldrunar. Stærstu heilbrigðisvandamál á þessari öld og í framtíðinni verða sjúkdómar tengdir öldrun. Með aukinni þekkingu og þróun í meðferðarúrræðum lifa fleiri einstaklingar af alvarlega sjúkdóma sem áður voru lífshættulegir. Því er fyrirsjáanlegt að sjúkdómar munu í ríkari mæli herja á elstu kynslóðina og hafa þannig afgerandi áhrif á lífsgæði þess. Ætlunin er að finna út hvaða þættir það eru sem auka lífsgæði á fullorðinsárum. Rannsaka þróun og myndun sjúkdóma og það hvernig einstaklingum farnast líkamlega og andlega á efri árum.

Ætlunin er að skoða 8-10 þúsund einstaklinga á fjórum til fimm árum. Þátttakendur í rannsókninni hafa allir tekið þátt í fyrri áföngum Hóprannsóknar Hjartaverndar a.m.k. einu sinni og margir allt að sex sinnum. Þannig verður hægt að bera saman fyrri rannsóknir á þessum einstaklingum við núverandi ástand. Framkvæmd rannsóknarinnar hefur gengið vel frá því hún hófst í maí 2002 og hafa nú 2000 þátttakendur verið skoðaðir. Gert er ráð fyrir að framkvæmd rannsóknarinnar taki um sjö ár.

Framkvæmd

Í rannsókninni eru öll helstu líffærakerfið skoðuð. Þátttakendur koma í Hjartavernd í þrjár heimsóknir. Þeir þátttakendur sem ekki hafa tök á að koma í Hjartavernd geta fengið starfsfólk Hjartaverndar heim til sín og er hluti rannsóknarinnar framkvæmdur þar.

Rannsóknin er mjög viðamikill þar sem margar mælingar fara fram. Þegar eru í gögnum Hjartaverndar miklar upplýsingar um þátttakendur frá fyrri áföngum Hóprannsóknarinnar og eftir þátttöku í Öldrunarrannsókninni verður hægt að skoða niðurstöður með tilliti til fyrri upplýsinga og erfða og umhverfis.

Til að framkvæma rannsóknina hefur Hjartavernd sett á laggirnar myndgreiningardeild af fullkomnustu gerð, er áfram með rannsóknarstofu sína sem hefur verið stækkuð verulega og svo aðstöðu til að framkvæma ýmsar sérhæfðar mælingar í rannsókninni. Hjartavernd flutti starfsemi sína í sérhannað húsnæði að Holtasmára 1 í Kópavogi þar sem starfsemi Hjartaverndar er á 3 hæðum áður en þessi rannsókn hófst.

Í Öldrunarrannsókninni eru framkvæmdar allar þær mælingar eins og þ&ae lig;r sem voru gerðar í fyrri áföngum Hóprannsóknar Hjartaverndar. Þessar mælingar eru m.a. almenn blóðprufa með áherslu á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, lungnamæling, hæð og þyngd, hjartalínurit o.fl. Auk þess eru margar aðrar mælingar framkvæmdar þar sem öll helstu líffærakerfi eru skoðuð og starfsemi þeirra metin. Þar að auki er lífstíll, mataræði og fleiri þættir metnir.

Hreyfifærni og styrkur stoðkerfis er metin með ýmsu móti eins og gönguprófi og jafnvægisprófi. Heilbilun er könnuð með ítarlegum vitrænum prófum og segulómskoðun er gerð af heila.

Ítarlegar rannsóknir fara fram á hjarta- og æðakerfi með tölvusneiðmyndatækni þar sem reynt er að greina kalk í kransæðum.

Ómskoðun er gerð til að átta sig á þykkt hjartaveggjar, samdráttargetu hjartavöðvans og fleiru.

Beinþynning er vaxandi vandamál aldraðra, brot á beinum, bæði samfallsbrot á hrygg og lærleggsbrot eða handabrot er stórt vandamál hjá öldruðum. Þátttakendur fara í gegnum sérstaklega þróaða tölvusneiðmyndatöku af hrygg og mjöðmum til að meta beinþéttni. Tölvusneiðmyndir eru teknar af lærlegg og lærleggshaus. Beinþéttni í hælbein er mæld.

Með hækkandi aldri minnkar vöðvamassi einstaklingsins. Vöðva- og fitudreifing líkamans er könnuð með tölvusneiðmyndatöku af kvið og í gegnum læri.

Einstaklingar fara í heyrnar- og sjónmælingu og augnbotnamyndir eru teknar.

Ítarlegur spurningalisti er lagður fyrir alla þátttakendur þar sem m.a. mataræði, lífstíll og fleiri þættir eru kannaðir.

Hver þátttakandi fer í læknisviðtal þegar öllum þessum rannsóknum er lokið og farið er yfir niðurstöður úr rannsókninni. Þegar ástæða þykir til er fólki vísað á viðeigandi úrræði í heilbrigðiskerfinu.

Öll gögn úr rannsókninni er geymd á rafrænu formi og hefur Hjartavernd eina öflugustu úrvinnslumiðstöð í Evrópu á myndum í myndgreiningu sem eru í svokallaðir ofurtölvu sem keypt var í tengslum við úrvinnslu gagna rannsóknarinnar.

Öllum gögnum úr rannsókninni verður stillt saman í vísindagrunn sem er notaður til úrvinnslu. Vísindagrunnur Hjartaverndar er dulkóðaður.

Ávinningur

Ávinningur fyrir einstaklinginn sem tekur þátt í þessari rannsókn er að hann fær ítarlega skoðun.

Ávinningur fyrir komandi kynslóðir er sá að upplýsingar fást sem nýta má í fyrirbyggjandi læknisfræði til að auka færni einstaklingsins á efri árum og þar með auka lífsgæði hans. Líklegt er að upplýsingar munu fást um framlag gena til þróunar sjúkdóma sem herja á aldraðra. Hóprannsóknin hefur reyndar í fyrri áföngum skilað mikilvægum upplýsingum um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma.

Vonast er til að niðurstöður úr Öldrunarrannsókninni muni nýtast til að fækka sjúkrahúslegum og seinka verulega sjúkdómum sem herja á ellina.

Aukin umsvif

Umsvif Hjartaverndar hafa aukist verulega í tengslum við framkvæmd þessarar rannsóknar og eru starfsmenn nú orðnir um 90 manns en voru um 20 áður en undirbúningur rannsóknarinnar hófst. Starfsmenn eru með þverfaglegan bakgrunn og eru margir í framhaldsnámi við Háskóla Íslands tengt starfi sínu í Hjartavernd.

Samtökin Hjartavernd voru stofnuð árið 1964 og eru því í ár 40 ár frá stofnun þeirra. Hjartavernd hefur notið velvildar þjóðarinnar frá upphafi. Án framlagi þátttakenda í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar væri ekki unnt að framkvæma rannsóknina og stendur Hjartavernd því í mikilli þakkarskuld við þjóðina.

Vg/230204

Hjartavernd vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa komið og tekið þátt í rannsókninni og þar með gert kleift að framkvæma þessa rannsókn.