Ökklatognanir

Almennt um ökklann

Ökklaliðurinn er hjöruliður sem tengir fótlegginn við fótinn. Tengslin eru styrkt af sterkum bandvefsþráðum sem kallast liðbönd og gera þau það að verkum að ökklaliðurinn þolir töluvert mikið álag og hefur einnig góðan hreyfiferil. Ökklatognun kallast það þegar of mikið tog verður á þessi liðbönd sem veldur því að tognar á þeim umfram getu eða þau rifna ýmist að hluta eða alveg.

Þau liðbönd sem styrkja ökklann eru:

Lig. Tibio-fibular sem liggur á milli sköflungs og dálks.
Lig. Laterale sem í raun eru þrjú bönd og liggja utanvert á ökklanum.
Lig. Mediale sem er sterkt þríhyrningslaga liðband sem liggur innanvert á öklanum.

Helstu orsakir ökklatognana

Algengasta orsök ökklatognana er að einstaklingurinn misstígur sig þannig að fóturinn snýst, ýmist inn eða út á við og togið á liðböndin verður það mikið að það tognar á þeim eða þau rifna. Ganga eða hlaup á ójöfnu undirlagi auka líkurnar á að þetta gerist og ökklatognanir er einnig algengt að sjá hjá íþróttafólki sem stundar íþróttir þar sem hraðinn er mikill og mikið um hlaup og hopp.

Hver eru einkenni öklatognanna?

 • Sársauki
 • Bólga við ökklann
 • Stífni
 • Mar
 • Óstöðugleiki

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Læknir greinir ökklatognanir fyrst og fremst út frá sjúkrasögu og skoðun. Ef grunur leikur á að um brot geti verið að ræða eru teknar röntgenmyndir.

Meðferð

 • Við áverka er best að byrja á að leggja kaldan bakstur við áverkann til að minnka blæðingar og bólgu. Best er að byrja á að setja kaldan bakstur á ökklann í allt að 20 mínútur og taka hann svo af í 20 mínútur og svo koll af kolli í 2–3 klst. eða þar til bólgan hefur minnkað. Kælingu má nota fyrstu dagana á 2–4 klst. fresti eftir að áverkinn kemur til að minnka bólgu og verki. Ekki er ráðlagt að nota hita á áverkann fyrstu dagana.
 • Hvíla á fótinn og hafa hann eins mikið og mögulegt er í hálegu. Það hjálpar til við að minnka bólgur og mar. Það fer eftir því hversu alvarlegur áverkinn er hversu lengi þarf að forðast að setja álag á fótinn en rétt er að forðast álag og jafnvel nota hækjur meðan verkur er í ökklanum.
 • Einnig er mikilvægt að setja þrýsting á ökklann til að minnka bólgu og hreyfingar um liðinn. Það er t.d. hægt að gera með teygjubindi en varast ber að vefja það of fast. Þrýstingur á tognuð liðbönd á að minnka óþægindi í ökklanum en ekki auka þau. Þegar um slæmar ökklatognanir er að ræða getur þurft að setja fótinn í gifsspelku og fer það eftir því hversu slæmur áverkinn er hversu lengi þarf að hafa hana á fætinum.
 • Bólgueyðandi lyf hjálpa til við að minnka bólgur og verki. Fáið ráðleggingar um notkun hjá lækni.
 • Þegar bólgan hefur minnkað er mikilvægt að byrja að hreyfa ökklann til að koma í veg fyrir stirðleika í liðnum. Byrjið varlega og hreyfið bæði upp og niður og í hringi 2–3 sinnum á dag. Þjálfun er einnig mikilvæg til að ná upp styrk í vöðvunum og til að auka stöðugleika í liðnum. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að fá aðstoð sjúkraþjálfara.
 • Notið þægilegan skófatnað, helst með stuðningi við ökklann til að byrja með og verið sérstaklega varkár þegar gengið er á ójöfnu undirlagi.
 • Það getur einnig reynst vel að nota spelku til að styðja við liðinn til að koma í veg fyrir frekari tognanir. Þetta á við þegar aukið álag er sett á liðinn t.d. við íþróttaiðkanir.

Fylgikvillar

 • Takmarkaðar hreyfingar í ökklanum næstu 2 vikurnar og jafnvel enn lengur.
 • Slök liðbönd og óstöðugleiki í ökklaliðnum.
 • Verkir.