Ófullnægjandi umönnun og uppeldisskilyrði barna

Ofbeldi og vanræksla.

Þegar umönnun og uppeldisskilyrði barns eru góð, er þörfum barns sinnt fljótt og vel, tilfinningalegum, líkamlegum, hugrænum og félagslegum. Þegar ungabarnið grætur, tekur umönnunaraðilinn, oftast móðir, það strax upp og reynir að finna út úr því hvað amar að barninu. Hvort það sé svangt, hvort það þurfi að skipta um bleiu, hvort það þurfi að ropa, o.s.frv.

Langtímarannsóknir á umönnun barna hafa sýnt að næmni foreldris á þarfir barns og hversu fljótt foreldri er að sinna þessum þörfum, eykur mjög líkur á því að það skapist traust tilfinningatengsl milli barns og foreldris. Slík börn upplifa sig þess verðug að vera vel sinnt og upplifa traust gagnvart foreldrum sínum sem þau yfirfæra síðan á aðra síðar á lífsleiðinni. Slík börn fara einnig fljótt að skoða umhverfi sitt. Þau upplifa tilfinningalegt öryggi og sjálfstæði, því þau vita að ef eitthvað ber út af, er foreldrið til staðar til þess að sinna því. Jafnframt hafa langtímarannsóknir sýnt að börn, sem eiga foreldra sem eru næmir á þarfir þess og sinna þeim bæði fljótt og vel, eru mun líklegri til að fara eftir reglum foreldra þegar foreldri sér ekki til. Líklegt er að börnin séu farin að fara eftir boðum foreldra, allt niður í 20 mánað aldur, ef þörfum þeirra hefur verð vel sinnt.

Börn, sem ekki er sinnt fljótt og vel, eru hins vegar líklegri til að þróa ótraust tilfinningatengsl við foreldra. Þeim er hætt við að upplifa sig sem óverðug, þar sem þeim er illa sint og þau vanreysta foreldrum sínum. Slíkt vantraust geta þau síðan yfirfært yfir á aðra á fullorðinsárum.

Eldri börn krefjast minni líkamlegrar umönnunar, en þarfnast meiri hugrænnar örvunar frá foreldri. Öll börn þroskast, sem þýðir að breytingar eiga sér sífellt stað hjá barninu. Til þess að slíkar breytingar geti farið fram eðlilega og barnið þroskist þar með á eðlilegan hátt, er nauðsynlegt fyrir fyrir foreldra barnsins að stuðla að auknum þroska barnsins með örvun. Hægt er að taka dæmi af fimm ára gömlu barni sem er að fara í skóna sína. Það vill fara út að leika og fer sjálft í skóna, en þegar kemur að því að reima skóna, er barnið stopp. Það kallar á foreldri og biður það að reima skóna. Barnið fylgist með hvernig foreldrið reimir skóna. Í næsta skipti þegar barnið fer í skó, reimar foreldrið hægt og rólega skóna, og sýnir barninu jafnvel endurtekið hvernig það er gert, því það hefur tekið eftir áhuga þess á að læra að reima skó. Í næsta skipti fær barnið að prófa með hjálp foreldris að reima skóna, og síðan endurtekur það sig, þar til barnið hefur náð tökum á því sjálft að reima skó eftir nokkur skipti. Þessi samvinna foreldris og barns í að bæta sífellt meiri þekingu og færni við reynslusögu barnsins, er kallað „scaffolding“ á enskri tungu. Tilfinningaleg hlýja er mjög mikilvæg á öllum stigum uppeldisins, frá barnæsku til fullorðinsára. Hún þróast einnig frá mikilli snertingu þegar barnið er yngra og mikilli líkamlegri umönnun sem einkennist af hlýju, út í meiri andlega hlýju í gegnum tilfinningalegan stuðning við barnið. Félagsleg færni barna þróast einnig smám saman og er því mikilvægt fyrir foreldri að örva hana á svipaðan hátt, með því að eiga jákvæð og uppbyggjandi samskipti við barnið og með því að gefa barninu tækifæri til að umgangast jafnaldra, t.d. í gegnum leikskóla, skóla og tómstundir, auk jafnaldra í nágrenni.

Barnauppeldi fylgir mikil vinna og ábyrgð sem foreldrar eru misjafnlega í stakk búnir til að veita. Þegar brestur verður á umönnun og uppeldi barns, flokkast það undir ofbeldi eða vanrækslu barns. Mun algengara er að börn verði fyrir vanrækslu en ofbeldi. Þegar ofbeldi á sér stað, gerir foreldrið barninu eitthvað sem getur valdið því skaða. Hins vegar þegar vanræksla á sér stað, er það skortur á viðeigandi umönnun barns sem getur valdið barninu skaða.

Ofbeldi er síðan hægt að flokka niðu rí andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi, en vanrækslu má flokka í líkamlega, sálræna/andlega og tilfinningalega vanrækslu.

Vanræksla

Hafa ber í huga þegar þessi kafli um vanrækslu er lesinn, að þegar um vanrækslu er að ræða, telst það að öllu jöfnu ekki vanræksla þegar þörfum barns er ekki sinnt nægilega í einstök skipti. Barnauppeldi er afar krefjandi og því eðlilegt að foreldrum verði einhvern tímann á að sinna ekki þörfum barns, eða passa ekki upp á barn sem skyldi. T.d. verður flestum foreldrum kannski á að missa sjónar af barni sínu sem er nýfarið að ganga í skamman tíma, eða að klæða barn sitt einhvern tímann í of hlý eða ekki nægilega hlý föt miðað við veður. Það telst hins vegar vanræksla þegar umönnun barns er ábótavant og slíkt endurtekur sig aftur og aftur.

Líkamleg vanræksla

Þegar barn fær ekki fæði við hæfi eða nægilegt fæði miðað við þroska þess, þrátt fyrir gefin fyrirmæli frá ungbarnaeftirliti eða öðrum aðilum heilbrigðiskerfis, er um vanrækslu að ræða.

Vanræksla getur einnig komið fram í því að hreinlæti barns er alvarlega ábótavant, t.d. ef barn er baðað svo sjaldan að það lykti, eða ef barn er ekki tannburstað reglulega og fær óvenju mikið af tannskemmdum miðað við aldur.

Óviðeigandi húsnæðisaðstæður eru ein tegund vanrækslu. Ef t.d. lágmarkshreinlæti er ekki til staðar eða skortur er á því sem að öllu jöfnu er til staðar í venjulegu heimilishaldi, svo sem hita eða rafmagni. Þegar barn er ekki klætt á fullnægjandi hátt miðað við þarfir þess eða veður, er um vanrækslu að ræða. T.d. ef barn er í of litlum skóm sem meiða fætur þess, eða ef barn er klætt í bol og þunnan jakka í vetrarveðri.

Þegar barn þarfnast heilbrigðisþjónustu sem foreldri veitir barninu ekki aðgang að, er um vanrækslu að ræða, t.d. ef foreldri fer ekki með barn til læknis, þrátt fyrir að heilsa barns gefi tilefni til þess. Barn gæti t.d. verið með slæmt og langvarandi kvef, slæman hósta, eða mikinn hita og ef foreldri bregst ekki við með því að fara með barnið til læknis og barninu versnar vegna þess, er um vanrækslu að ræða.

Jafnframt er um vanrækslu að ræða ef foreldri hefur farið með barn til læknis og læknir hefur mælt með lyfjameðferð fyrir barnið, en foreldri fer ekki eftir fyrirmælum læknisins um lyfjameðferðina. Ef foreldri passar ekki upp á að barn fái bólusetningar á réttum tíma, getur það einnig flokkast undir vanrækslu.

Skortur á viðeigandi umsjón og eftirlitsleysi

Þegar foreldri veitir ekki barni sínu viðeigandi umsjón er um vanrækslu að ræða. Þannig getur barn verið í aðstæðum þar sem hættur eru og foreldri verndar ekki barnið fyrir hættunum. Ef barn er t.d. ekki sett í barnabílstól eða sett á það öryggisbelti, eftir því sem er viðeigandi miðað við aldur barns. Önnur dæmi um vanrækslu vegna eftirlitsleysis eru ef foreldri fer endurtekið frá barni á skiptiborði og barnið dettur niður af skiptiborðinu eða ef foreldri skilur endurtekið töflur eftir á glámbekk sem barnið kemst í, og veldur því skaða. Þegar barn er skilið eftir eftirlitslaust, flokkast það einnig undir vanrækslu. T.d. ef barn er skilið eftir eitt heima, sem er of ungt til að geta séð um sig sjálft eða ef foreldri fær einhvern til að passa barnið sem er ekki fær um að sinna þörfum þess, t.d. af því að sá aðili er of ungur, eða vegna þess að hann er undir áhrifum áfengis og vímuefna. Það flokkast einnig undir vanrækslu ef foreldri fær einhvern til að passa barn og sá aðili beitir barnið einhvers konar ofbeldi eða vanrækir það á einhvern hátt og foreldrið veit af því.

Sálræn/andleg vanræksla

Þegar barn þarfnast geðheilbrigðisþjónustu sem foreldri veitir barninu ekki aðgang að, er um vanrækslu að ræða. T.d. geta fulltrúar leikskóla eða skóla mælt með því að foreldri fari með barn í mat á andlegri eða geðrænni heilsu þess, vegna hegðunar, útlits eða staðhæfinga barns sem benda til verulegrar takmörkunar. Ef foreldri fer ekki eftir slíkum ábendingum er um vanrækslu að ræða. Jafnframt ef foreldri leitar læknis með barn vegna andlegra eða geðrænna vandkvæða og læknirinn mælir með lyfjameðferð sem foreldri framfylgir ekki, er um vanrækslu að ræða.

Tilfinningaleg vanræksla

Þegar tilfinningalegum þörfum barns er ekki fullnægt, sem nauðsynlegt er til þess að barn geti þroskast eðlilega, á sér stað tilfinningaleg vanræksla. Tilfinningaleg vanræksla getur komið fram á ýmsan máta, t.d. ef ungt barn hágrætur en er ekki sinnt fyrr en eftir að það hefur grátið í margar mínútur. Einnig ef foreldri á ekki samskipti við barnið á eðlilegan og nærandi hátt eða ef skortur er á eðlilegum tilfinningatengslum milli foreldris og barns.

Tilfinningaleg vanræksla getur líka komið fram í því að foreldri sniðgengur barn dags daglega. Til dæmis gæti foreldri verið of upptekið af eigin vanlíðan eða vandamálum til að veita barninu athygli og hlusta á það, þegar barnið segir foreldri sínu frá einhverju. Það er með tilfinningaleg vanrækslu, eins og aðra vanrækslu, að það telst ekki vanræksla nema um endurtekið mynstur sé að ræða. Mjög líklegt er að allir foreldrar lendi í þeirri aðstöðu einhvern tímann, að geta ekki hlustað á barnið sitt á tiltekinni stundu, vegna þess að foreldri er í símanum, eða að horfa á fréttir, svo dæmi séu tekin, og flokkast slíkt ekki undir vanrækslu. Hins vegar þegar það er orðið vani og hegðunarmynstur að foreldri veiti því ekki athygli sem barnið segir og svari því, flokkast það undir vanrækslu.

Ofbeldi

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi á sér stað, þegar foreldri gerir það af vana að móðga barn, kalla það ónöfnum, eða koma fram við það dags daglega á niðurlægjandi eða ómanneskjulegan hátt. T.d. ef foreldri er sífellt að setja út á eiginleika barns, svo sem útlit þess eða skap, eða ef foreldri setur sífellt út á það sem barnið gerir.

Allir foreldrar þurfa að skamma börn sín einhvern tímann og setja börnum sínum mörk. Slíkt er nauðsynlegum þáttur í uppeldi barna, en mikilvægt að slíkt sé gert á þann hátt að það valdi barninu ekki skaða.

Líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi getur verið skilgreint út frá athöfn, eða athöfn og afleiðingum. Ef líkamlegt ofbeldi er skilgreint út frá athöfn, er það að slá með flötum lófa, kýla eða sparka í barn. Hins vegar ef skilgreint er út frá athöfn og afleiðingum, er áverki sem kemur fram á barni eftir að foreldri hefur lagt hendur á barnið merki um að það hafi verið beitt ofbeldi. T.d. telst það líkamlegt ofbeldi ef áverki er á barni af völdum foreldra, svo sem marblettur eða roði, er ennþá til staðar eftir 24 tíma víða í Bandaríkjunum. Slíkt hefur miklar takmarkanir, þar sem hægt er að slá árs gamalt barn með flötum lófa í andlit, en roði á andliti barnsins gæti þó einungis verð til staðar í fáeina klukkutíma og teldist því ekki líkamlegt ofbeldi.

Líkamlegt ofbeldi er yfirleitt einnig flokkað eftir því hvort athöfnin var viljandi eða óviljandi. T.d. ef foreldri rekst óvart í barn, svo það dettur og meiðir sig, flokkast að öllu jöfnu ekki undir líkamlegt ofbeldi. Hins vegar ef foreldri hrindir barni viljandi, þannig að það dettur og meiðir sig á sama hátt, flokkast slíkt undir ofbeldi. Málið vandast þó þegar atvikið sem á sér stað lendir á „gráu svæði“. Dæmi um það er ef foreldri skammar barn og ýtir við því um leið og það skammar það. Foreldrið ýtir við barninu viljandi, en ætlar sér ekki að meiða það. En við það að barninu er ýtt, dettur það kannski á borðbrún og meiðist. Í slíkum tilfellum má deila um hvort um ofbeldi sé að ræða, þar sem foreldri ætlaði sér ekki að meiða barnið, en gerði þó eitthvað sem olli meiðslum barnsins.

Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðisleg áreitni eða ofbeldi getur tekið á sig ýmsar myndir. Til dæmis geta klúrir brandarar og klámspólur flokkast undir kynferðislega áreitni, þar sem slíkt er óviðeigandi þegar börn eru annars vegar. Óviðeigandi snerting kynfæra, eða svæða nálægt kynfærum eru einnig dæmi um kynferðislega áreitni. Munnmök og samfarir eru jafnframt dæmi um kynferðislegt ofbeldi.

Nokkur atriði skipta meginmáli í því hversu alvarleg áhrif kynferðisleg áreitni/ofbeldi hefur á viðkomandi barn. Ef gerandinn er einhver sem barnið þekkir og er tengt tilfinningalega, eins og foreldri, eru áhrifin líklegri til að verða verri fyrir barnið, heldur en ef um ókunnugan er að ræða. Eftir því sem tímabilið er lengra, fjöldi skipta er meiri, og því lengra sem gengið er, þeim mun líklegra er að afleiðingarnar verði verri fyrir barnið.

Framferði foreldra sem er skaðlegt börnum

Foreldrar geta haft bein skaðleg áhrif á börn, með því að beita þau ofbeldi eða vanrækja þau, en foreldrar geta einnig haft slæm áhrif á börn sín á annan hátt með framferði sínu á óbeinan hátt. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að ef ofbeldi á sér stað milli foreldra, hefur það svipuð áhrif á börn en vægari, eins og þau væru sjálf beitt ofbeldi af foreldrum.

Hávær rifrildi eða ofbeldi milli foreldra hefur bæði bein og óbein áhrif á börn. Beinu áhrifin lýsa sér í hræðslu og tilfinningalegu óöryggi barns þegar það upplifir t.d. öskur, barsmíðar eða brothljóð vegna hluta sem grýtt er. Óbeinu áhrifin lýsa sér í því að þegar foreldrarnir eru í miklu uppnámi vegna spennu sín í milli, eru þeir illfærir um að annast barn sitt eins vel og þeir gætu ef þeir væru í andlegu jafnvægi.

Önnur dæmi um framferði foreldra sem eru skaðleg börnum, er ef foreldri reynir að fá barn eða ungling tilað taka inn eiturlyf, eða til að stunda vændi. En slíkt getur átt sér stað hjá foreldrum sem eru sjálfir langt leiddir fíkniefnaneytendur.

Samábyrgð foreldra gagnvart börnum sínum

Báðir foreldrar eru ábyrgir fyrir barni sínu og ber því báðum foreldrum að vernda barn sitt. Er því annað foreldrið samsekt hinu ef það horfir upp á hitt foreldrið beita barn þeirra ofbeldi án þess að reyna að stöðva það á einhvern hátt eða leita aðstoðar. Ef það gerir það ekki, bregst það skyldu sinni að vernda barnið. Ef foreldrar eru í sambúð eru báðir aðilar ábyrgir ef um vanrækslu barns er að ræða.

Afleiðingar ofbeldis og vanrækslu á börn

Afleiðingar ofbeldis og vanrækslu barna geta verð margvíslegar. Þeim hefur verið skipt í tvo megin flokka, innhverf vandamál og úthverf vandamál. Dæmi um innhverf vandamál eru þunglyndi og kvíði, en dæmi um úthverf vandamál eru hegðunarvandamál. Algengara er að úthverf vandamál komi fram hjá drengjum, en að innhverf vandamál birtist hjá stúlkum. Jafnframt er algengara að drengir fái aðstoð en stúlkur, þar sem vandamál þeirra eru sýnilegri en stúlkna.

Langtímaáhrif ofbeldis og vanrækslu geta komið fram á ýmsan máta, t.d. geta áhrifin komið fram í langvarandi þunglyndi eða kvíða, áfengis- og fíkniefnaneyslu og persónuleikatruflunum. Auk þess eru kynlífsvandamál afar algeng á fullorðinsárum hjá börnum sem hafa verið áreitt kynferðislega eða verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt er fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu í barnæsku, líklegra til að vanrækja eða beita börn sín ofbeldi en aðrir foreldrar. En bandarískar rannsóknir sýna að í um 30% tilfella endurtaka foreldrar ofbeldi eða vanrækslu á eigin börnum, sem birtist þá ekki endilega í sömu mynd og eigin reynsla. En um 5% foreldra sem hafa hlotið uppeldi án ofbeldis eða vanrækslu, vanrækja eigin börn eða beita þau ofbeldi.

Foreldrar sem hafa verið beittir ofbeldi eða orðið fyrir vanrækslu í æsku, eru ekki eins líklegir til að endurtaka það með eigin börn, ef þeir gagnrýna eigið uppeldi og eru ósáttir við gildi sinna foreldra, hafa verið í sálrænni meðferð, gengið vel í skóla, bæði í námi og félagslega, og hafa planað líf sitt með tilliti til makavals og atvinnu.

Þættir sem auka líkur á því að börn verði fyrir ofbeldi eða vanrækslu Rannsóknir, flestar gerðar í Bandaríkjunum, hafa sýnt að ýmsir þættir auka líkur á að börn geti verð beitt ofbeldi eða vanrækslu og aðrir þættir draga jafnframt úr líkum á því. Áhættuþættir hafa verið greindir í fimm flokka sem tengjast foreldrunum, börnunum, fjölskyldunni, samfélaginu og menningunni.

Þættir sem tengjast foreldrunum

Þrátt fyrir að ofbeldi og vanræksla barna hafi átt sér stað í gegnum aldirnar, varð það ekki að umhugsunarefni félagsvísinda fyrr en snemma á sjöunda áratugnum. Í fyrstu var talið að orsök slíks lægi eingöngu hjá foreldrunum.

Áhættuþættir sem tengjast foreldrunum eru ennþá taldir vega þungt í ofbeldi og vanrækslu barna. Má þar nefna óhóflega áfengisneyslu eða fíkniefnaneyslu foreldra, þunglyndi eða önnur geðræn vandkvæði, greindarskort og skort á samúðartilfinningum.

Þættir sem tengjast börnunum

Seint á sjöunda áratugnum komu fram hugmyndir um áhrif barna á líkur þess að verða beitt ofbeldi eða vanrækt. Jafnframt á sameiginleg áhrif foreldra og barna. Fram hefur komið að ýmis einkenni barna geta aukið líkur á því að þau séu beitt ofbeldi eða vanrækt. Til dæmis eru fyrirburar í meiri hættu en önnur börn, einnig fötluð börn eða börn með einhvers konar sérþarfir eða hegðunarvandamál.

Ef foreldrar hafa vandkvæði sem eru í andhverfu við vandkvæði barnsins, aukast líkurnar ennþá meira á ofbeldi eða vanrækslu. Til dæmis ef foreldri er þunglynt og barn er ofvirkt, er hætt við að foreldrið skynji barnið sem ennþá erfiðara en það í rauninni er.

Þættir sem tengjast fjölskyldunni

Komið hefur fram að tilteknir þættir í fjölskyldu eru tengdir ofbeldi og vanrækslu barna. Má þar helst nefna spennu eða ofbeldi milli foreldra sem einn stærsta áhættuþáttinn í þessum flokki, þar sem áætlað er í að 30% til 60% tilfella sem kona er beitt ofbeldi á heimili, sé barn einnig beitt ofbeldi og öfugt. Jafnframt hefur óstöðugleiki í fjölskyldu verði tengdur við fobeldi og vanrækslu barna. Til dæmis þegar foreldri á í mörgum stuttum og óstöðugum ástarsamböndum, eða mikil óregla er á heimilishaldi og matmálstímum.

Lýðfræðilegir þættir og samfélagsþættir

Mikil gagnrýni kom fram á áttunda áratugnum á það að einblína einungis á foreldra, börn og fjölskyldu sem orsakaþætti ofbeldis og vanrækslu og bent á að aðrir þættir tengdir samfélaginu skiptu meginmáli. Ýmsar rannsóknir hafa stutt þá hugmynd. Fram hefur komið að fátækt er einn stræsti áhættuþátturinn hvað varðar samfélagsþætti. Atvinnuleysi og félagsleg einangrun eru einnig miklir samfélagslegir áhættuþættir.

Helstu lýðfræðilegir áhættþættir eru hins vegar ungur aldur foreldra og lítil menntun. Einnig eru börn einstæðra foreldra og börn í stjúpfjölskyldum í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi og vanrækslu en börn í kjarnafjölskyldum. Jafnfram hefur komið fram aukin áhætta á ofbeldi og vanrækslu barna í barnmörgum fjölskyldum.

Menningarlegir þættir

Hugmyndafræði hverrar menningar endurspeglast í reglum og lögum sem stofnanir vinna eftir og þar á meðal menningarlegt viðhorf til barna og foreldra þeirra. Mismunandi er milli þjóða hversu mikinn forgang börn og umönnun þeirra hlýtur í þjóðfélaginu.

Jafnframt geta sérstök menningargildi ýtt undir ofbeldi eða vanrækslu á börnum. Til dæmis er mikið um ofbeldi í amerísku samfélagi og í amerískum kvikmyndum. Þar eru byssur einnig löglegar. Ofbeldi er almennt umborið mun meira í Bandaríkjunum en flestum öðrum vestrænum löndum, sem endurspeglast jafnframt í viðurkenningu á líkamlegri refsingu barna. Hins vegar þykir almennt ekki viðeigandi að beita líkamlegum refsingum á Íslandi, en hér á landi hefur hins vegar tíðkast talsvert að ung skólabörn séu ein heima tímunum saman á daginn. Slíkt myndi flokkast undir vanrækslu í Svíþjóð og Bandaríkjunum, þar sem ólöglegt er að börn innan við 10 ára aldur séu ein heima.

Samspil áhættuþátta og þátta sem draga úr áhættu ofbeldis og vanrækslu barna Sýnt hefur verið fram á að ofantaldir flokkar áhættuþátta auka líkur á ofbeldi og vanrækslu barna. Því fleiri áhættuþættir, því meiri líkur eru á að barn verði fyrir ofbeldi og vanrækslu. Hins vegar eru ýmsir þættir til sem draga úr líkum á ofbeldi og vanrækslu barna og eru því verndandi þættir.

Verndandi þættir geta bæði verið formlegir og óformlegir. Dæmi um formlega verndandi þætti eru fjárhagslegur stuðningur við barnafjölskyldur, t.d. fæðingarorlof og barnabætur. Meðlag og mæðra/feðralaun eru jafnframt sértækur stuðningur fyrir einstæða foreldra. Leikskólar eru dæmi um mikilvægan formlegan verndandi þátt, þar sem afar krefjandi getur verið fyrir foreldra að hafa börn allan sólarhringinn, auk þess sem þeir gera foreldrum kleift að stunda vinnu og fá tekjur.

Hins vegar eru óformlegir verndandi þættir einnig mjög mikilvægir í að draga úr áhættu á ofbeldi og vanrækslu barna. Dæmi um óformlega verndandi þætti er stuðningur frá fjölskyldu og vinum, t.d. tilfinningalegur stuðningur og barnapössun.

Þannig getur ungt, einstætt foreldri, sem á við þunglyndi að stríða og er með lágar tekjur, verið í áhættu að vanrækja barn sitt eða beita það ofbeldi. Hins vegar ef það hefur leikskólapláss fyrir barnið og nýtur stuðnings fjölskyldu og vina, dregur það úr líkum á því að barnið verði fyrir ofbeldi eða vanrækslu.