Ófrjósemisaðgerðir karla

Ófrjósemisaðgerð (vasectomy) er algeng aðgerð á körlum. Aðgerðin er frekar lítil og gefur karlmönnum varanlega getnaðarvörn. Á hverju ári kjósa u.þ.b. 500 þús. karlmenn í Bandaríkjunum að gangast undir ófrjósemisaðgerð. Þetta er ein aðgerð og hún er næstum því 100% örugg. Aðgerðin er án verulegrar áhættu og ódýr. Aðgerðin hefur ekki áhrif á kynlíf karlmannsins.

Hvernir virkar ófrjósemisaðgerðin?

Sáðfruma sem frjóvgar egg er framleidd í eistunum. Sáðleiðarar liggja frá báðum eistum og bera sáðfrumuna frá hvoru eista til þvagrásarinnar. Þar sameinast sáðfrumurnar vökva frá blöðruhálskirtli og sáðblöðrum og myndar sæði. Sæði er vökvinn sem kemur út um þvagrás við samfarir. Ófrjósemisaðgerðin hindrar sæðisfrumurnar að blandast sáðvökvanum með því að loka fyrir báða sáðleiðarana.

Læknirinn sker sitthvorn sáðleiðarann í sundur, tekur lítinn bút úr honum og lokar síðan fyrir báða enda svo það verði engin leið fyrir sáðfrumurnar að komast um sáðleiðarana og til þvagrásarinnar (mynd 1). Af þessu leiðir að engin sæðisfruma er í sæðinu sem kemur út við sáðlát.

Hvernig fer ófrjósemisaðgerð fram?

Aðgerðin tekur 15-30 mínútur. Venjulega er gefin staðdeyfing þar sem skorið er í punginn. Í einstaka tilfellum er svæft. Skurðurinn er mjög lítill (1 cm) (mynd 2). Sáðleiðarnir eru skornir í sundur og minna en 1 cm bútur tekinn. Það er lokað fyrir báða enda, t.d. hnýtt fyrir. Oft er skurðurinn á húðinni svo lítill að ekki þarf að sauma hann saman. Sauma þarf ekki að fjarlægja síðar. Búturinn sem tekinn var úr sáðleiðaranum er stundum sendur í vefjagreiningu.

Hefur ófrjósemisaðgerð önnur áhrif?

Ófrjósemisaðgerð hefur ekki áhrif á kynlíf (ris, kynlöngun og sáðlát), tilfinningu í limnum eða framleiðslu karlkynshormóna. Eistun halda áfram að framleiða sæðisfrumur sem leysast upp og frásogast. Ófrjósemisaðgerð hefur ekki áhrif á blöðruhálskirtilinn eða sáðblöðrurnar. Bæði líffærin geta haldið áfram að framleiða vökva sem er síðan sprautað út við sáðlát. Þannig hefur ófrjósemisaðgerðin engin áhrif á kynlíf karlmannsins.

Hvað græðum við á ófrjósemisaðgerð?

Ófrjósemisaðgerð er einföld, örugg og áhrifarík. Það getur verið að þér finnist frelsið við að losna við hræðsluna að eignast barn sem þú sækist ekki eftir geti haft mjög góð áhrif á löngun til kynlífs. Löngun til kynlífs gæti orðið sjálfkrafa og oftar.

Hverjar eru aukaverkanir ófrjósemisaðgerðar?

Engar langtímaaukaverkanir eru þekktar eftir ófrjósemisaðgerð. Um 60-70% karlmanna sem gangast undir ófrjósemisaðgerð mynda mótefni gegn sæðisfrumum í blóðinu. Þetta er eins konar ónæmismyndun gegn eigin sæðisfrumum. Enginn hefur sýnt fram á að þetta hafi einhver áhrif á önnur líffæri líkamans.

Hverjir mega fara í ófrjósemisaðgerð?

Í lögum um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir ( nr. 25/1975, 3. kafli, 18. grein) er tekið fram að karlmenn sem orðnir eru 25 ára hafa leyfi að eigin ósk að gangast undir ófrjósemisaðgerð. Sjúklingurinn verður að fylla út stutta greinargerð og skrifa undir til samþykkis og síðan verður læknir einnig að skrifa undir til samþykkis. Greinargerðin er send landlækni.

Koma aðrar getnaðarvarnir til greina en ófrjósemisaðgerð?

Ófrjósemisaðgerð er ekki fyrir alla. Við verðum að líta á ófrjósemisaðgerð sem endanleg getnaðarvörn. Hún er ekki heppileg ef hugmyndin er að bíða með að fjölga í fjölskyldunni. Ýmsar getnaðarvarnir eru mögulegar og margar þeirra hafa góð áhrif. Þar má nefna: Getnaðarvarnarpilluna, lykkjuna, smokk, hettuna og fl. Einnig er möguleiki að konan gangist undir aðgerð á eggjaleiðurum. Settar eru klemmur á eggjaleiðarana en það er einnig endanleg getnaðarvörn.

Hvað ef ég breyti um skoðun eftir ófrjósemisaðgerð?

Við lítum á ófrjósemisaðgerð sem endanleg getnaðarvörn. Aðgerðina skal ekki gera á karlmönnum sem hafa í huga að eignast börn e.t.v. síðar. Við skulum ekki gleyma því að stundum koma fyrir atvik sem ekki verða séð fyrir. Eiginkona og/eða börn geta dáið. Skilnaður getur átt sér stað. Það er hægt að gera endurtengingu á sáðleiðurum en árangurinn er ekki fullkominn. Það kostar bæði óþægindi og peninga. Enginn skyldi gangast undir ófrjósemisaðgerð nema hafa íhugað þetta gaumgæfilega.

Er hægt að geyma sæði í sæðisbanka sem er tekið fyrir ófrjósemisaðgerð?

Tæknilega er það framkvæmanlegt en bankinn geymir einungis takmarkað magn af sæði og þjónar meira sem hugarró frekar er en öruggi um áframhaldandi frjósemi.

Aðgerðin

Aðgerðin er gerð án innlagnar og oftast utan sjúkrahúss. Ekki þarf að fasta fyrir aðgerðina nema sjúklingurinn eigi að gangast undir svæfingu. Rétt er að fara í sturtu að morgni. Best er að koma með íþróttabindi eða pungbindi, annars vera í nærbuxum sem halda vel að kynfærum.

Að lokinni ófrjósemisaðgerð

Algengustu aukaverkanir eru minniháttar blæðingar sem koma í umbúðir, minniháttar óþægindi og bólga í kringum skurðsaárið. Þessi einkenni ganga að mestu til baka á þremur sólarhringum. Stundum er mar á pungnum og limnum eftir aðgerðina. Það hverfur á nokkrum dögum. Sjaldan getur þó smá æð blætt og myndað fyrirferð sem oftast eyðist á nokkrum dögum. Í einstaka tilfellum þarf að fara aftur með sjúklinginn í aðgerð, opna punginn og stöðva blæðinguna. Innlögn á sjúkrahús og svæfing gæti verið nauðsynleg í einstaka tilvikum. Algengasta aukaverkunin eftir á eru dálítil óþægindi í eista sem venjulega lagast með bólgueyðandi lyfjum, hitabökstrum og pungbindi. Mjög sjaldgæft er að sjúklingur hafi óþægindi í eistum í mörg ár á eftir.

Sjúklingi er ráðlagt að taka sér frí frá vinnu sama dag og aðgerðin er gerð og í undantekningartilfellum einnig daginn eftir, en þetta getur verið einstaklingsbundið. Mönnum er ráðlagt að bíða með kynlíf fyrstu þrjá sólarhringana eftir aðgerðina.

Er aðgerðin alltaf örugg?

Hún á að vera örugg þó að undantekningar séu frá reglunni. Í stórum rannsóknum hefur það sýnt sig að færri en tvær af þúsund mistakast. Í slíkum tilvikum hafa sáðleiðararnir gróið saman og gangarnir opnast, en þá þyrfti að endurtaka aðgerðina. Sáðfrumur verða áfram í sæðinu næstu vikur eftir aðgerðina. Það tekur allmörg sáðlát eða 2-3 mánuði að hreinsa alveg sáðfrumurnar úr sáðleiðara. Þess vegna er mönnum ráðlagt að nota aðrar getnaðarvarnir fyrstu 2-3 mánuðina. Þremur mánuðum eftir aðgerðina er þeim ráðlagt að fara með sæði í rannsókn til þess að ganga úr skugga um að engar sæðisfrumur séu eftir í sæðinu.

Samantekt

Ófrósemisaðgerð er örugg og tiltölulega ódýr getnaðarvörn. Rétt er að gera sér grein fyrir þeim afleiðingum sem hér er lýst að undan áður en karlmaður gengst undir slíka aðgerð. Einnig skal það ítrekað að karlmennskan verður á engan hátt skert.

Tilvitnanir

– The Vasectomy Book. A complete guide to deciscion making. Mark Goldstein, M.D, and Michel Feldberg, Ph.D. 1982.
– Lipshultz LI, Benson GS. Vasetomy: an anatomic, physiologic and surgical review. In: Cunningham GR, Schill WB, Hafez ESE, eds. Regulation of Male Fertility. The Hague, Netherlands: Martinus Nijhoff Publishers; 1980:169-186.
– Lipshultz LI, Benson GS. Vasectomy – 1980. Urol Clin North Am. 1980;7:89-105.
– Kim ED, Lipshultz LI. Standards of care for vasectomy. Contem Urol. 1996;8:41-55.
– McClure RD. Microsurgical vasal reconstruction: vasovasostomy. Atlas urol Clin North Am. 1996;4:21.