Ófrjósemi karla

Talið er að um helming ófrjósemisvandamála megi rekja til vandamála hjá karlmanninum. Ýmsar ástæður eru fyrir ófrjósemi karla, m.a. vandamál við að framleiða nægilega mikið af heilbrigðum frumum til að synda upp eggjaleiðara konunnar og frjóvga egg. Fyrsta skrefið í greiningu á ófrjósemi karla er rannsókn á sæðinu.

Þegar pör leita sér aðstoðar vegna ófrjósemi ætti alltaf að byrja á að rannsaka sæði mannsins, jafnvel þótt vitað sé um vandamál hjá konunni. Þetta er einfalt ferli sem getur veitt mikilvægar upplýsingar.

Einnig á að athuga sæði þeirra manna sem áður hafa getið barn, því að margt gæti hafa breyst frá þeim tíma.

Í sæðisrannsókn eru eftirfarandi atriði skoðuð:

  1. Hve margir ml sæðisvökva eru í sáðlátinu.
  2. Hversu margar sæðisfrumur eru í hverjum ml. sæðisvökva.
  3. Hlutfall virks sæðis.
  4. Gæði hreyfanleika þess.
  5. Fjöldi frumna með eðlilega lögun.
  6. Fjöldi hvítra blóðkorna í sæði

Sæðismagnið er talinn mikilvægasti þátturinn og er talinn í milljónum frumna á hvern millilítra sæðis. Hreyfanleiki sæðis, eða fjöldi frumna sem hreyfa sig, er talinn í prósentum af heildarfjölda frumnanna.

Uppsund frumnanna er mæling á því hversu vel frumunum tekst að synda áfram. Uppsundið er mælt á skalanum 0-4 þar sem 0 er hreyfanleiki án þess að fara fram á við og 3 er eðlileg hreyfing fram á við.

Í leiðinni er einnig hægt að leita að mótefnum gegn sæðinu í líkamanum. Ef að sæði hefur komist í snertingu við ónæmiskerfi líkamans vegna áverka eða aðgerðar gæti líkaminn hafa myndað mótefni gegn því. Mótefnið veldur því að sæðið kekkjast og dregur úr frjóvgunarafli sæðisins.

Eftirfarandi læknisfræðileg hugtök ná yfir það þegar einn eða fleiri af þessum þáttum er í ólagi:

Aspermia — einstaklingurinn framleiðir ekkert sæði.

Azoospermia — einstaklingurinn framleiðir sáðvökva með engum sæðisfrumum í.

Oligozoospermia eða oligospermia — sæðismagnið er of lítið, minna en 20 milljónir á millilítra.

Asthenozoospermia eða asthenospermia — Færri en 50% frumnanna hafa eðlilegan hreyfanleika.

Teratozoospermia eða teratospermia — meira en 70% frumnanna eru með óeðlilega lögun.

Oligoasthenoteratozoospermia (OATS) — færri en 20 milljónir á millilítra með minni en 50% hreyfanleika og meira en 70% af þeim með óeðlilega lögun.

Necrospermia — Allar sæðisfrumurnar eru dauðar.

Pyospermia eða leucospermia — mikill fjöldi hvítra blóðkorna í sæðinu, oftast vegna sýkingar.

Ef sæðisrannsókn leiðir eitthvað óeðlilegt í ljós verður að fara fram nánari rannsókn á sæðinu til að komast að því hvað veldur.

Ástæður ófrjósemi í körlum

Ástæður ófrjóseminnar geta verið hormónatengdar, vegna litningagalla eða vegna einhverra líkamlega þátta.

Hormónavaldar

Í sumum tilfellum eru of lítið af hormónunum í líkamanum sem eru nauðsynleg fyrir sæðisframleiðslu. Í fáum tilfellum má auka frjósemina með hormónagjöf eða lyfjum sem bæla niður ákveðin hormón. Því miður er ekki hægt að lækna alla hormónagalla. Sem dæmi má taka það þegar frumur æxlunarfæranna sem eiga að stuðla að sæðisframleiðslunni eru ónæmar fyrir hormónunum sem venjulega hvetja þær til dáða. Þegar svo háttar til er ekki möguleiki á að bæta þar úr og niðurstaðan verður engin sæðisframleiðsla.

Litningagallar

Algengasti litningagallinn sem leiðir til ófrjósemi karla er Klinefelters syndrome, þar sem maðurinn hefur auka X kynlitning í stað hinna venjulegu XY litninga sem karlmenn hafa. Langflestir karlar með þennann galla framleiða ekkert sæði. Gallinn er ólæknandi og eina leiðin sem þessir menn geta farið til að eignast börn er að notast við gjafasæði. Sum tilfelli oligozoospermia og azoospermia (sbr. orðalista hér að ofan) má líka rekja til litningagalla. Þá er talið að Y litningurinn sé gallaður.

Ef sáðfrumur eru til staðar í sæðinu má notast við glasafrjóvganir eða smásjárfrjóvganir. Taka verður þó tillit til þess að gallinn gæti erfst áfram og að sveinbörnin sem gætu fæðst gætu orðið ófrjó líka. Hjá sumum mönnum er til staðar stífla í sáðrásinni sem hindrar sæðið í því að komast sína venjulegu leið frá eistunum og út úr líkamanum. Ein sáðrás er við hvort eista og þær sameinast svo á miðri leið. Þess vegna getur sáðrás verið stífluð öðru megin eða báðum megin. Í meirihluta tilfella þar sem þetta er vandinn er orsökin stökkbreytt gen sem einnig geta valdið sjúkdómnum slímseigjuvanþrifum (e. cystic fibrosis).

Hægt er að sækja sæðið með ástungu hjá þes sum mönnum og nota í smásjárfrjóvgunum. Þegar litningagallar eru orsök ófrjósemi er mjög mikilvægt fyrir parið sem um ræðir að fá ráðgjöf og fræðslu um litningagalla og að litningar þeirra beggja séu skoðaðir vel vegna möguleika á að afkvæmin beri arfgenga sjúkdóminn slímseigjuvanþrif sem áður var minnst á.

Líkamlegar orsakir

Önnur ástæða stíflu í sáðrás getur verið sýking, uppskurður eða áverkar. Ef maður hefur engar sáðfrumur í sæðinu er mikilvægt að athuga hvort að ástæðan sé stífla í sáðrás eða hvort að engar sáðfrumur séu framleiddar. Einfalt hormónapróf getur yfirleitt gefið þessar upplýsingar. Ef stíflan er aðeins öðrum megin gæti fjöldi frumnanna verið færri en venjulega gerist. En ef hún er báðum megin, sem leiðir til azoospermia (engar sáðfrumur í sæði), er hægt að ná í sæðið með ástungu á eistnalyppu eða eista. En vegna þess hve fáar frumur nást og vegna þess að margar þeirra eru óþroskaðar verður að notast við smásjárfrjóvgun þegar þessari aðferð er beitt.

Aðrar orsakir

Því miður er ekki hægt að greina alla gallana með sæðisrannsókn. Sæði með góðan hreyfanleika og eðlilegt útlit getur stundum ekki frjóvgað egg vegna lífefnafræðilegra orsaka. Það hvernig sáðfruma og egg mætast er flókið ferli og það er langt frá því að vísindamenn hafi fullan skilning á því öllu. Sáðfrumur eru mjög sérhæfðar frumur. Þær hafa langan hala sem hjálpar þeim að sjálfsögðu að synda í átt til eggsins. Halinn nær einnig upp þeim þrýstingi sem þarf til þess að komast í gegnum ysta lag eggfrumunnar, (e. zona pellucida) svo frjóvgun geti átt sér stað.

Höfuð sáðfrumunnar er samsett úr tveimur hlutum, kjarnanum sem umlykur litningamengi sáðfrumunnar og verndar það á leiðinni upp leggöngin, og sáðfrumuhjálminum. Sáðfrumuhjálmurinn inniheldur ensím sem aðstoða frumuna að komast í gegnum ysta lag eggsins, (zona pellucida). Þegar sáðfruma kemst í snertingu við eggið losnar sáðfrumuhjálmurinn frá sáðfrumunni, ensímin losna og við það tengist ákveðinn staður sáðfrumuhöfuðsins himnu eggsins og losar genaupplýsingarnar yfir í eggið. Litningarnir verða þá að losna aðeins frá til að geta sameinast litningum eggsins.

Lífefnafræðilegar orsakir geta raskað þessu ferli og þannig komið í veg fyrir frjóvgun. Mjög erfitt er að uppgötva þessa galla og þess vegna er jákvæð niðurstaða úr sæðisrannsókn alls ekki trygging fyrir því að allt sé í lagi með sæðið.

Meðferðir

Í mjög fáum tilfellum er hægt að lækna ófrjósemi karla. Því beinast meðferðir við ófrjóseminni að því að hjálpa okkur að fara fram hjá vandamálinu. Glasafrjóvganir geta aðstoðað menn að feðra barn með sínu eigin sæði, en hann verður áfram ófrjór og mun að öllu óbreyttu þurfa aðstoð aftur ef hann langar í annað barn seinna.

Glasafrjóvgun getur heppnast ef til staðar eru fáar frumur með góðan hreyfanleika því að sáðfrumurnar eru settar alveg við eggið. Einnig er hægt að flokka sáðfrumurnar þannig að aðeins þær virkustu fara í glasið hjá egginu en hinar eru sigtaðar frá. Líkur á því hvort glasafrjóvganir heppnist eru mjög einstaklingsbundnar og fara eftir því hvar vandamálið liggur.

Tímamót urðu fyrir karlmenn haldna ófrjósemi þegar smásjárfrjóvganir (e. ICSI – intra cytoplasmic sperm injection) hófust. Þetta er aðferð þar sem einni sáðfrumu er stungið inn í hvert egg og er hægt að framkvæma hana þó að aðeins mjög fáar frumur séu til staðar. Hægt er að ná góðum árangri með smásjárfrjóvgun þegar sæðið er sótt í eistnalyppu eða eista og einnig ef um lítinn hreyfanleika er að ræða. Oft er þessi aðferð einnig notuð ef erfiðlega hefur gengið að frjóvga egg í glasafrjóvgun. Um 60-70% eggja frjóvgast með smásjárfrjóvgun, sem er svipað því sem gerist við glasafrjóvgun.

Framtíðin

Þar sem þessi tækni hefur gefið mönnum tækifæri til að eignast börn sem ekki gátu það áður hafa áhyggjur vaknað um það hvort að ófrjósemi karla erfist og um möguleikann á öðrum litningagöllum. Rannsóknir hafa sýnt örlitla, um 3% aukningu á kynlitningagöllum hjá börnum fæddum með hjálp smásjárfrjóvgunar. Aukningin er ekki talin afleiðing tækninnar sem notuð er, heldur frekar rakin til galla sem börnin hafa erft frá föðurnum.

Skilningur okkar á ófrjósemi karla og á hegðun sæðis hefur aukist verulega undanfarin ár. Tilkoma smásjárfrjóvgunar gerði það að verkum að í dag eru mjög fáir menn sem ekki eiga neinn möguleika á að feðra barn. En þróuninni í átt til lækningar á ófrjósemi karla miðar því miður lítið áfram. Engin lyf eru til sem lækna ófrjósemina og mjög fátt sem hægt er að gera til að auka magn heilbrigðra sæðisfrumna.

Margir sjúklingar velta því fyrir sér hvort að það sé eitthvað sem þeir geti gert til að auka fjölda frumnanna. Svarið er bara að lifa eðlilegu heilbrigðu lífi. Framtíðarrannsóknir ættu ekki einungis að miða að því að bæta tæknina sem við höfum í dag heldur einnig að því að finna leið til að bæta frjósemina sv o að glasafrjóvganir og smásjárfrjóvganir verði ónauðsynlegar.

 

Þessi grein er þýdd af Sigríði Höllu Steinsdóttur upp úr bæklingi sem CHILD, samtök ófrjósemissjúklinga í Bretlandi gáfu út, með góðfúslegu leyfi samtakanna. Greinin er fengin af vefnum www.tilvera.is