OFNÆMI

Sumarið er komið og allt að lifna við.  Blómin springa út, trén laufgast og frjóin fara á stjá.  Fyrir ofnæmissjúklinga þíðir það jafnframt að nú fer að koma tími á að fara í apótekið og birgja sig upp fyrir sumarið.  Það á að minnsta kosti við um þá sem eru með frjóofnæmi.  

 

Hvað er ofnæmi?
Ofnæmi, er sjúkdómur sem orsakast af of miklu næmi fyrir efnum, sem borðuð eru, andað er að sér eða komast í snertingu við húðina.  Þetta ofurnæmi er afleiðing rangra viðbragða ónæmiskerfis líkamans. Hið náttúrulega ónæmiskerfi hefur það hlutverk að verja þig fyrir árásargjörnum örverum, svo sem bakteríum og veirum. Það gerir líkaminn með því að framleiða mótefni, sem drepur eða afvopnar árásarliðið. Það sem virðist gerast hjá ofnæmissjúklingum er að mótefnin ráðast gegn hættulausum efnum svokölluðum ofnæmisvöldum.

Tegund ofnæmis er háð bæði tegund mótefnis og í hvaða hluta líkamans stríðið milli mótefna og ofnæmisvalda á sér stað.
Við matarofnæmi geta ofnæmisvaldarnir valdið einkennum frá þörmum/meltingarvegi eða þeir geta frásogast inn í blóðrásina og ferðast þannig um líkamann og komist í æðakerfið og valdið t.d. höfuðverk eða jafnvel komið fram á húð sem útbrot.
Við frjóofnæmi verður svörunin yfirleitt í nefslímhimnunni og kemur fram sem slímmyndun og óþægindi í nefi.
Við astma valda ryk og frjó svörunum í lungunum.

Ónæmiskerfisfrumur losa ertandi efnasambönd úr læðingi við ofnæmissvörun, svo sem histamín. Þessi efni valda ýmsum einkennum, sem þekkt eru við ofnæmisköst, þ.e. höfuðverk, aukinni slímmyndun (ofnæmiskvefi) og húðeinkennum (roða, blettum og kláða).

Hver getur fengið ofnæmi?
Sumir fá einn eða fleiri ofnæmissjúkdóma í æsku og þjást af þeim alla ævi. Flest börn vaxa þó upp úr astma og barnaexemi. Allir geta þó fengið ofnæmi, ofnæmi getur birst í mismunandi myndum og fólk svarar ofnæmisvaldinum afar mismunandi og getur jafnvel svarað sama ofnæmisvaldinum mismunandi á mismunandi tímum. Tilhneiging til ofnæmis virðist vera ættgeng en engin leið er að spá fyrir um hvort ákveðinn fjölskyldumeðlimur fái ofnæmi.  Það er oft að sjúklingarnir hafa fleira en eitt ofnæmi og er t.a.m. algengt að einstaklingar hafi bæði astma og exem.

Hvaða meðferð er í boði?
Besta meðferðin er sú að forðast ofnæmisvaldinn. Það er þó sjaldnast hægt en þó mögulegt t.d. í tilfellum þar sem ofnæmisvaldurinn er penicillin eða skelfiskur svo dæmi sé tekið. Oftar er það þó svo að erfitt er að forðast ofnæmisvaldinn t.d. frjó eða ryk. Þegar ákveðinn ofnæmisvaldur hefur fundist er stundum hægt að venja líkamann við hann með sprautukúr. Með þessu er líkaminn gerður minna næmur fyrir áhrifum ofnæmisvaldsins, sem sprautað er í sjúklinginn í æ stærri skömmtum.

Aðaluppistaða nútíma meðferðar er að draga úr ofnæmissvöruninni með lyfjum, töflum, nefspreyjum, augndropum og þess háttar.  Ofnæmislyf er í auknum mæli hægt að fá án lyfseðils í apóteki.