Offita – hreyfing, mataræði, lyf

Hvert geta þeir leitað sem vilja aðstoð í baráttunni við aukakílóin?

Offita er stærsta heilsufarsvandamálið í heiminum í dag. Offita og ofþyngd er stór áhættuþáttur fyrir ýmsa sjúkdóma og aðra fylgikvilla s.s. sykursýki tegund 2, hjarta- og æðasjúkdóma, háþrýsting, ýmis krabbamein, röskun á blóðfitu, slitgigt í hnjám, mæði, svefntruflanir o.s.frv. 

Hver er ástæða þess að sumir eru feitir meðan aðrir eru grannir?  Ástæða offitu er í senn mjög einföld og einstaklega flókin. 

·        Í fyrsta lagi getum við sagt að sá/sú sem er of feit/ur borðar meira en hann/hún brennur.  Orkuinntakan er meiri en líkaminn þarfnast og því er aukaorkan geymd sem fita í líkamanum, hugsanlega til notkunar síðar.  Hluti vandans liggur einmitt í því að við höldum áfram að borða of mikið og náum því ekki að ganga á fituforðann.

·        Í öðru lagi er hluta vandans að finna í genunum og má þá helst nefna gen sem gerir ákveðnum einstaklingum auðveldara með að safna orkubirgðum en öðrum. 

·        Að síðustu er um að kenna umhverfisþáttum svo sem offramboði á mat og aukinni kyrrsetu.

Hvað getum við gert til að léttast og líða betur?

Engar skyndilausnir eru líklegar til þess að gefa mikinn árangur. Keppst er við að setja á markað og selja  ,,töfralausnir” sem í raun gera ekki annað en að létta budduna. Hvernig á til dæmis einhver safi sem drukkinn er í 2-3 daga að leysa vandamálið? En hvern hefur ekki dreymt um að fara að sofa að kvöldi og vakna næsta dag tágrannur? Einfaldar lausnir eru ekki til og eina leiðin til léttara og betra lífs er lífstílsbreyting. 

 

  ,,Hver ber ábyrgðina á mínu lífi, heilsu og lífshamingju?”

Samhliða ákvörðuninni um að takast á við vandann og breyta eigin lífstíl ættum við að skrifa niður þær breytingar sem við ætlum að gera, útbúa einhvers konar samning.  Aðalatriðið er að setja sér raunhæf markmið og muna ætíð að góðir hlutir gerast hægt.  Það gerir þetta enginn fyrir þig því þetta snýst eingöngu um þig og allt stendur og fellur með þér.

Þær úrlausnir og meðferðir sem standa til boða eru þónokkrar og alls ekki sama meðferðina sem hentar öllum. 

Allt hefst þetta með réttu hugarfari og eftir að hafa fundið réttu ástæðuna er sjálfsagt að leita sér aðstoðar. 

·        Mataræðið.  Næringarráðgjafar hafa sérþekkingu á sviði næringar og sjúkdóma. Þeir geta kennt þér að þekkja “rétt” matvæli frá “röngum”, og hjálpað við að setja saman matseðla, fundið úrlausnir varðandi mataræðið, t.d. hvað á ég að borða í vinnunni, hvernig get ég borðað matinn í mötuneytinu en samt verið í aðhaldi, o.s.frv.  Næringarráðgjafinn getur líka verið sá einstaklingurinn sem fylgir þér eftir og veitir þér stuðning og hvatningu. 

·        Hreyfingin. Hreyfingu er ekki eingöngu hægt að stunda í líkamsræktarstöðvum.  Hreyfing getur verið fólgin í hjólreiðum, hópíþróttum, sundi, golfi, garðvinnu o.fl.  Álagið verður þó að vera hæfilega mikið.  Til þess að ákveða hversu mikla hreyfingu maður þarfnast til þess að auka brennsluna er svarið einfaldlega; þú þarft að hreyfa þig meira en þú gerir í dag. Mestu skiptir að finna sér hreyfingu við sitt hæfi og getu. 

Auk þess að bæta mataræðið og auka hreyfinguna getur komið til greina að taka lyf.  Til eru tvenns konar lyf við offitu

·        Reductil sem verkar á miðtaugakerfið og hefur sérhæfð áhrif á virkni taugaboðefnanna serótóníns og noradrenalín í heila sem leiðir til aukinnar mettunartilfinningar og viðheldur brennslu í líkamanum.

·        Hins vegar er um að ræða lyf, Xenical, sem hamlar verkun lípasa, en lípasi er ensím sem brýtur niður fitu í meltingarveginum.  Nái lípasi ekki að virka leiðir það til þess að líkaminn nær ekki sem skyldi að nýta sér fituna úr fæðunni.

Heimilislæknir getur ávísað þessum lyfjum en þau eru einungis ætluð til hjálpar og skulu notast samfara breytingum á mataræði, lífstíl og aukinni hreyfingu.

Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi yfir mögulegar lausnir en mikilvægasti parturinn felst í samningnum sem þú gerir við sjálfan þig.  Að endingu skulum við muna að það mikilvægasta í lífinu er ekki hvar við erum stödd heldur hvert við stefnum. 

 

Hildur Ósk Hafsteinsdóttir

næringarráðgjafi